Skip to main content
29. apríl 2016

Doktorsvörn í Viðskiptafræðideild

""

Doktorsvörn í viðskiptafræðideild

Fimmtudaginn 28. apríl varði Inga Minelgaitė Snæbjörnsson doktorsritgerð sína við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.

Ritgerðin nefnist Forysta á Íslandi og í Litháen: Fylgjendamiðað sjónarhorn.

Vörnin fór fram í Hátíðasal Háskóla Íslands. Andmælendur voru dr. Rūta Kazlauskaitė, prófessor við University of Management and Economics í Vilníus, og dr. Sara Louise Muhr, dósent við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn. Leiðbeinandi var Ingi Rúnar Eðvarðsson, prófessor við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, en auk hans sátu í doktorsnefnd Vilma Žydžiūnaitė, prófessor við Vytautas Magnus University í Kaunas, Litháen, og Vlad Vaiman, prófessor við Californian Lutheran University, Bandaríkjunum.

Markmið rannsóknarinnar var að auka skilning á því hvernig fylgjendur meta æskilega og raunverulega hegðun leiðtoga út frá þeim menningarheimi sem þeir starfa í. Rannsóknin fjallaði einkum um atferli leiðtoga á Íslandi og í Litháen. Stuðst var við blandaða aðferðafræði sem hentar vel til að dýpka skilning á hinu flókna viðfangsefni. Samfélagsmenningu Íslands og Litháen var lýst og samanburður gerður með VSM08-spurningalistanum og sjövídda-líkani Hofstedes. Einnig var leitast við að tengja saman einkenni samfélagsmenningar og æskilega hegðun leiðtoga. Marktækur munur var á Íslandi og í Litháen í þremur af sjö menningarvíddum: áhættufælni, fastheldni og andstæðunum eftirlátssemi/agi. Aðhvarfs-greining leiddi í ljós tengsl milli samfélagsmenningar og æskilegrar hegðunar leiðtoga í báðum löndum. Í eigindlegum hluta rannsóknarinnar voru þróaðar tvær efnislegar afleiðslu-kenningar (e. substantive grounded theories) með tilliti til raunverulegra athafna leiðtoga, byggðar á daglegri reynslu fylgjenda á vinnustað.

Niðurstöðurnar gáfu til kynna að yfirleitt væri lagður svipaður skilningur í reglubundnar athafnir leiðtoga sem rekja má til væntinga leiðtoganna og birtast í athöfnum sem tengjast viðfangsefnum og samskiptum á vinnustað. Atferli leiðtoganna hefur síðan áhrif á fylgjendur. Meginmunurinn er sá að í Litháen er vald stjórnunarleiðtogans lykilþáttur í raunverulegri forystu, en á Íslandi er hæfni leiðtogans grundvallaratriði. Áhrif menningar á hegðun leiðtoga birtust einnig með skýrari hætti á Íslandi. Í Litháen komu fram einkenni föðurlegs/móðurlegs leiðtogastíls.

Inga Minelgaitė Snæbjörnsson er fædd árið 1982 í Kaunas í Litháen. Hún lauk BA-gráðu árið 2004 frá University of Management and Economics (ISM) í Kaunas, með áherslu á markaðsfræði. Árið 2007 lauk hún MBA-námi við Kaunas University of Technology (KTU). Inga hefur liðlega 10 ára starfsreynslu úr viðskiptalífi þar sem hún hefur sinnt margvíslegum störfum, svo sem sölu- og markaðsstörfum, mannauðs- og verkefnastjórnun og stefnumótun og hún hefur setið í stjórnum fyrirtækja. Hún er stofnandi félags Litháa á Íslandi og hefur tekið virkan þátt í starfi þess. Hún er einnig svæðisstjóri fyrir Norður-, Mið-, og Austur-Evrópu í alþjóðlegu rannsóknarsamstarfi, the Global Preferred Leadership and Cultural Values project (global network). Eiginmaður Ingu er Ágúst A. Snæbjörnsson, ráðningarstjóri hjá Elju ráðningarþjónustu, og eiga þau tvo syni, Ágúst Minelga Ágústsson og Daníel Minelga Ágústsson.

Runólfur Smári Steinþórsson deildarforseti Viðskiptafræðideildar, dr. Sara Louise Muhr, Inga Minelgaité Snæbjörnsson og dr. Rūta Kazlauskaitė
Runólfur Smári Steinþórsson deildarforseti Viðskiptafræðideildar, dr. Sara Louise Muhr, Inga Minelgaité Snæbjörnsson og dr. Rūta Kazlauskaitė