Doktorsvörn í félagsfræði - Ásta Jóhannsdóttir
Ásta Jóhannsdóttir varði doktorsritgerð sína Kynjaðar sjálfsmyndir á Íslandi, landi kynjajafnréttis - Möguleikar og takmarkanir á birtingu kyngervis meðal ungs fólks í Reykjavík 2012-2016 (Gender Identities in Gender Equal Iceland - Possibilities and Limitations in the Performance of Gender Among Young People in Reykjavík 2012-2016) þann 18. maí síðastliðinn í Hátíðarsal Háskóla Íslands.
Andmælendur voru dr. Helen Malson, dósent við Department of Health and Social Sciences, University of Bristol og dr. Berglind Rós Magnúsdóttir, dósent á Menntavísindasviði við Háskóla Íslands. Leiðbeinandi var dr. Ingólfur V. Gíslason, dósent í félagsfræði við Háskóla Íslands. Ásamt honum sátu í doktorsnefnd dr. Annadís Gréta Rúdólfsdóttir dósent á Menntavísindasviði við Háskóla Íslands og dr. Fanny Ambjörnsson lektor við Stokkhólmsháskóla.
Ágrip af rannsókninni
Markmið rannsóknarinnar var að varpa ljósi á samtíma kyngervishugmyndir ungs fólks í Reykjavík. Skoðað var að hve miklu leyti konur og karlar eru takmörkuð af viðteknum hugmyndum um kyngervi og hvort rými sé til að ögra eða hafna þessum hugmyndum. Ísland er áhugaverður vettvangur til að skoða kyngervi sem gjörning vegna árangurs í alþjóðlegum mælingum á kynjajafnrétti auk þess sem jafnréttisorðræðan sem og virk femínísk grasrót hafa mikil áhrif í íslenskum nútíma. Rannsóknin skoðar með hvaða hætti orðræður um kynjajafnrétti, femínisma og nýfrjálshyggju hafa áhrif á sjálfsmyndarmótun og sjálfsskilning ungs fólks.
Rannsóknin er sett í samhengi við fræðilega umfjöllun um kyngervi, sjálfsmyndir og ögun sjálfsins í anda kenninga Michel Foucault og tengsl við póst-femíníska orðræðu um sjálfskapandi einstaklinga. Hrif-kenningar eru einnig notaðar til að skýra sterkt tog í átt að ákveðnum hugmyndum sem á þátt í að skapa ráðandi orðræðu.
Í rannsókninni var notast við margskonar eigindlegar aðferðir – hálf-stöðluð viðtöl við ungt fólk á aldrinum 18-25 ára, samvinnurannsókn með ungum konum, orðræðugreiningu á fjölmiðlum í kringum #freethenipple og tilviksrannsókn á líkamshára venjum. Fjórar vísindagreinar liggja til grundvallar doktorsritgerðinni. Í þeim er gerð grein fyrir reynslu ungs fólks af kynjaðri sjálfsmynd, áhrifum femínisma og jafnréttisorðræðu, tilraunum unga fólksins til að ögra viðteknum venjum, hvernig hrif hefur áhrif á möguleika til breytinga á kyngervi og mikilvægi líkamans þegar kemur að mótun kynjaðrar sjálfsmyndar. Mun meiri hefting tengd líkamanum var meðal kvenna á meðan karlar gátu í meira mæli valið um jákvæðari og nútímalegri hugmyndir um karlmennsku og hafnað neikvæðum og gamaldags hugmyndum. Aukin óánægja meðal íslenskra kvenna á meðan á rannsókninni stóð leiddi (að hluta til) til aukningar á femínískum aðgerðum – þar sem skorað var á stjórnvöld að taka á femínískum málefnum eins og kynferðisofbeldi og kynferðislegri hlutgervingu kvenna.
Ásta Jóhannsdóttir fæddist á Hvammstanga árið 1978. Hún lauk BA prófi í hagfræði, heimspeki og stjórnmálafræði frá Háskólanum á Bifröst árið 2008, MA prófi í mannfræði frá Háskóla Íslands árið 2010 og diplómu í kynjafræði frá Háskóla Íslands 2011. Hún hefur einnig kennt um árabil, bæði við Háskóla Íslands, Listaháskóla Íslands og Háskólann á Bifröst. Helstu rannsóknaráherslur hennar eru ungt fólk, femínískt grasrótarstarf og kyngervishugmyndir. Einnig hefur Ásta tekið þátt í norrænu samstarfi bæði í tengslum við rannsóknir á körlum og karlmennskuhugmyndum en líka á stafrænu ofbeldi gegn konum. Ásta veitir frekari upplýsingar um doktorsrannsókn sína í síma 693-5973 eða í gegnum netfangið asj13@hi.is.