Skip to main content
4. apríl 2018

Doktorsvörn á sviði mannauðsstjórnunar

Arney Einarsdóttir varði doktorsritgerð sína á sviði mannauðsstjórnunar við Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands föstudaginn 2. febrúar. Ritgerðin bar heitið. Þroskastig stefnumiðaðrar mannauðs­stjórnunar og áhrif á starfsfólk. Strategic HRM maturity and its influence on employee-related outcomes

Andmælendur voru dr. David Guest, prófessor við Kings College London og dr. Paul Boselie, prófessor við Utrecht háskóla. Umsjónarkennari og leiðbeinandi var dr. Ingi Rúnar Eðvarðsson, prófessor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Auk hans sátu í doktorsnefnd dr. Chris Brewster, prófessor við Henley Business School við Reading háskóla og dr. Mila Lazarova, dósent við Simon Fraser Háskóla.

Inga Jóna Jónsdóttir, dósent og varadeildarforseti viðskiptafræðideildar stjórnaði athöfninni sem fór fram í Hátíðasal Háskóla Íslands.

Ágrip af rannsókn

Markmið rannsóknarinnar var að kynna hugtakið og hugsmíðina Þroskastig stefnumiðaðrar mannauðs­stjórnunar og varpa ljósi á hvernig það hefur áhrif á sköpun virðisauka í upplifun, viðhorfum og hegðun starfsfólks. Athygli er sérstaklega beint að áhrifum stefnumiðaðrar mannauðs­stjórnunar á upplifun starfs­fólks, eða frá þroskastigi stefnumiðaðrar mannauðs­stjórn­un­ar til hegðunar starfsfólks. Líkan sem lýsir áhrifum stefnumiðaðrar mannauðs­stjórnun­ar er prófað. Leitast er við að dýpka skilning á því hvernig stefnu­miðuð mannauðs­stjórnun hefur áhrif á upplifun starfs­fólks, viðhorf þess og hegðun. 

Stuðst er við víða hugsmíð þar sem stigvaxandi þroskastig stefnu­mið­aðr­ar stjórnunar eru skilgreind og aðgerðabundin óháð stefnu og til notkunar í ólíkum atvinnu­greinum og starfs­greinum. Áherslan er á stefnufestu á fimm lykilsviðum mann­­auðs­­­stjórnunar fremur en aðferðir. Meðal starfsfólks er upplifun (á stuðn­ingi, sanngirni og árangri mannauðsstjórnunar), við­horf (starfs­ánægja og hollusta við vinnu­veitanda) og hegðun (þegnhegðun í þágu fyrir­­tækis/stofnunar og samstarfs­fólks) mæld. Rannsóknin er margþrepa með inn­byggða tímatöf. Gagna var aflað meðal 128 mannauðs­stjórn­enda úr öllum greinum atvinnu­lífs á Íslandi, og nokkrum mánuðum síðar meðal 4863 starfs­manna í við­kom­andi fyrirtækjum og stofnunum.

Niðurstöður benda til þess að áhrif þroskastigs stefnumiðaðrar mannauðs­­­stjórnunar á hegðun starfsfólks miðlist í gegnum upplifun og við­horf starfsfólks. Niður­stöður varpa einnig nýju ljósi á hlutverk upplifunar starfs­fólks (employee perceptions) í orsakasamhenginu frá stefnumiðaðri mann­auðs­­­­stjórnun til hegðun­ar starfs­fólks og benda til þess að upplifun starfsfólks á árangri mannauðs­stjórnunar og upplifun á stuðningi hafi lykil­hlut­­verki að gegna. Líta má þó á viðhorf starfsmanna (starfsánægja og viðhorf til vinnu­veitanda) sem veika hlekkinn (vulnerability factor) í keðjunni þar sem þau geta orðið fyrir neikvæðum áhrifum þegar fyrir­tæki verða stefnu­miðuð í mannauðs­málum. Upplifun starfsfólks, á árangri mannauðs­­stjórnunar og stuðningi á vinnustað, virðist þar þó hafa hlutverki að gegna sem mikil­vægur varnar­hlekkur (protective factor) gegn neikvæðum áhrifum stefnumiðaðrar mann­auðs­­stjórnunar á viðhorf starfsfólks til starfs síns og vinnu­veitanda.

Þroskastig stefnumiðaðrar mannauðsstjórnunar á sviði samskipta og launa og umbunar spá best fyrir um hvoru tveggja; upplifun starfsmanna og hegðun í starfi. Einnig hefur þroskastig á sviði þjálfunar- og þróunarmála áhrif á upp­lifun starfsmanna. Aðeins þroskastig stefnumiðunar mannauðs­stjórnunar á sviði samskipta hefur bein jákvæð áhrif á viðhorf starfs­­manna. Upplifun starfs­fólks skýrir þar að auki betur hegðun starfsfólks á vinnustað en viðhorf starfsfólks og upplifun starfs­fólks á árangri á sviði mannauðsmála skýrir best hegðun starfsfólks á vinnustað.

Framlag rannsóknarinnar felst í að auka skilning á því hvernig ferlar stefnumiðaðrar mannauðsstjórnunar (SHRM processes) geta skapað virðisauka meðal starfsfólks. Niðurstöður hafa einnig hagnýta þýðingu og gefa vísbendingar um hvernig megi verja starfsfólk fyrir neikvæðum áhrifum, sem og styrkja jákvæð áhrif, er fyrirtæki og stofnanir verða stefnumiðaðri á sviði mannauðsstjórnunar.

Um doktorsefnið

Arney Einarsdóttir fæddist í Reykjavík árið 1962. Hún lauk stúdentsprófi frá MH árið 1985, BS-prófi frá California State Polytechnic University, Pomona árið 1990 og Ms-prófi frá Viðskipta­fræði­deild Háskóla Íslands árið 2004. Arney hefur starfað sem lektor við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík og forstöðumaður Rannsóknarmiðstöðvar í mannauðs­stjórnun þar sl. 12. ár. Arney hefur auk þess verið gestakennari við Árhúsarháskóla og við Simon Frazer háskóla í Vancouver. Hún hefur m.a. stýrt þátttöku Íslands í alþjóðlegu rannsóknarsamstarfi um 40 háskóla í  CRANET samstarfsnetinu. Tilgangur þess er að standa fyrir reglubundnum rannsóknum á mannauðsstjórnun í öllum aðildarlöndunum til að auka þekkingu á þróun mannauðsstjórnunar í heiminum og gera samanburðarrannsóknir mögulegar. Arney er einnig virkur þátttakandi í tveimur öðrum alþjóðlegum rannsóknarverkefnum, annars vegar rannsókn á störfum stjórnenda, hjúkrunarfræðina og verkfræðinga í alls 47 þátttökulöndum (Work Design Across Cultures) og hins vegar í norrænu verkefni sem ber yfirskriftina "Future of Work" og er styrkt af Norrænu ráðherranefndinni. 

Hafa má samband við Arneyju Einarsdóttur í síma 861-0200 eða tölvupósti arney@hi.is