Daði endurráðinn forseti Félagsvísindasviðs
Daði Már Kristófersson, prófessor í hagfræði, mun áfram gegna starfi forseta Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands til næstu fimm ára. Gengið var frá endurráðningu hans á dögunum.
Daði hefur verið forseti Félagsvísindasviðs frá árinu 2013 en hann hefur starfað við Háskólann í rúman áratug. Hann var sérfræðingur við Hagfræðistofnun Háskólans frá 2007 til 2009 þegar hann var ráðinn lektor við Hagfræðideild Háskóla Íslands. Daði hlaut framgang í starf dósents árið 2010. Samhliða dósentstarfi gegndi Daði starfi forstöðumanns þróunar- og samstarfsverkefna við háskólann á árunum 2012-2013 eða þar til hann var ráðinn forseti Félagsvísindasviðs. Hann fékk framgang í stöðu prófessors árið 2016.
Daði hafði áður m.a. starfað fyrir Landbúnaðarháskóla Íslands, Bændasamtökin og Norska lífvísindaháskólann (NMBU).
Daði lauk BS-prófi í búfræði frá Landbúnaðarháskóla Íslands árið 1997, meistaraprófi í auðlindahagfræði frá Norska lífvísindaháskólanum (NMBU) árið 2000 og doktorsprófi frá sama skóla 2005.
Rannsóknaráherslur Daða hafa verið á sviði sjávarútvegs, landbúnaðar og umhverfismála. Daði hefur tekið þátt í fjölmörgum innlendum og erlendum rannsóknarverkefnum og birt fjölda greina og skýrslna bæði á innlendum og erlendum vetvangi. Daði hefur gegnt fjölbreyttum trúnaðarstörfum innan Háskólans. Hann hefur einnig starfað í ýmsum nefndum utan Háskólans, svo sem fagráði Rannís sem og fagráðum norska rannsóknaráðsins, veiðigjaldsnefnd og ýmsum nefndum, s.s. um endurskoðun aflareglu, endurskoðun veiðigjalda, endurskoðun landgræðslulaga, um aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og faghópum Rammaáætlunar.
Félagsvísindasvið er eitt fimm fræðasviða Háskóla Íslands og jafnframt það fjölmennasta. Innan þess eru sex deildir: Félags- og mannvísindadeild, Félagsráðgjafardeild, Hagfræðideild, Lagadeild, Stjórnmálafræðideild og Viðskiptafræðideild.