Brunuðu á Garúnu í Barcelona
Team Spark, kappaksturs- og hönnunarlið verkfræðinema við Háskóla Íslands, er nýkomið heim frá Barcelona eftir lærdómsríka þátttöku í alþjóðlegu kappaksturs- og hönnunarkeppninni Formula Student Spain. Liðið náði flestum markmiðum sínum í keppninni, þar á meðal að aka kappakstursbílnum TS18 Garúnu á kappakstursbrautinni Circuit de Barcelona-Catalunya.
Um 40 nemendur úr ýmsum deildum Verkfræði- og náttúruvísindasviðs tóku þátt í að hanna og smíða TS18 Garúnu en bíllinn var afhjúpaður við hátíðlega athöfn á Háskólatorgi fyrr í sumar. Að baki liggur gríðarleg vinna og fengu liðsmenn hluta hennar metinn í námi sínu við Háskóla Íslands.
Lið frá Háskóla Íslands hafa tekið þátt í alþjóðlegum hönnunar- og kappakstursmótum háskólanema allt frá árinu 2011 og frá upphafi lagt áherslu á hönnun rafknúins og umhverfisvæns kappakstursbíls. Engin undantekning var gerð á því í ár, en hönnun rafmagnsbíls útheimtir mun meiri vinnu en þróun bensínbíls þar sem töluvert meiri kröfur eru gerðar til rafmagnsbíla til þess að þeir megi aka í Formula Student. Að þessu sinni gerði Team Spark umtalsverðar breytingar á burðarvirki bílsins en liðinu tókst að búa til svokallað monocoque-burðarvirki. Slíkri hönnun má líkja við eggjaskurn enda hvílir álagið á ytra byrði bílsins. Þetta er í fyrsta sinn sem slíkt burðarvirki er smíðað fyrir bíl á Íslandi.
Team Spark hélt utan til Barcelona með TS18 Garúnu um miðjan ágústmánuð en sjálf keppnin, Formula Student Spain, fór fram á Circuit de Barcelona-Catalunya dagana 21.-24. ágúst. Alls voru tæplega 80 lið skráð til leiks, þarf 39 með rafmagnsbíla. Þau voru öll dæmd út frá hönnun bílana og akstri þeirra en til þess að geta tekið þátt í aksturshluta keppninnar þurfti bíllinn að standa ýmsar prófanir.
Marín Lilja Ágústsdóttir, framkvæmdastjóri Team Spark, segir liðið hafa náð flestum af markmiðum sínum í keppninni. „Okkur tókst að búa til monocoque og bíllinn rann í gegnum mekanískar prófanir á mettíma og án athugasemda. Rafmagnið hefur hins vegar alltaf verið okkar veikleiki og það tók okkur þrjá daga að komast í gegnum rafmagnsprófanirnar. Eftir að það hafðist rúlluðum við beint í gegnum hallapróf, rigningarpróf og bremsupróf og tryggðum okkur þannig rétt til þess að taka þátt í aksturshluta keppninnar,“ segir Marín en liðið lauk tveimur af fjórum greinum aksturshlutans og hafnaði á endanum í 34. sæti. Liðið kom hins vegar ekki tómhent heim því það fékk sérstök verðlaun á lokakvöldinu fyrir besta liðsandann.
Liðsmenn eru almennt sammála um að þátttakan í keppninni hafi verið afar lærdómsrík og þá segir Marín að hjálpsemi og vinsemd annarra liða hafi verið ómetanleg, ekki síst þegar á reyndi í rafmagnsprófununum. „Nú þegar við erum komin heim verður ákveðin endurnýjun í liðinu fyrir keppni næsta árs. Þeir sem halda áfram eru fullir tilhlökkunar og munu hefjast handa strax í næstu viku að leita að nýliðum í Team Spark,“ segir Marín að endingu.