Brennandi áhugi á bæjar- og sveitarstjórnarmálum en mikið álag
Kjörnir fulltrúar gefa kost á sér til starfa í íslenskum sveitarstjórnum til að láta gott af sér leiða og upplifa árangur af störfum sínum. Á hinn bóginn vinna þeir talsvert meira heldur en fulltrúar í sveitarstjórnum annars staðar á Norðurlöndum eða að meðaltali 50 klst. á mánuði. Ef kjörnir fulltrúar sem hafa setu í sveitarstjórn að aðalstarfi eru teknir frá þá fellur meðaltalið niður í 40 klst. á mánuði. Ríflega helmingur hópsins hefur upplifað mikið álagi í starfi til lengri tíma að því er fram kemur í könnun Evu Marínar Hlynsdóttur, prófessors í opinberri stjórnsýslu við HÍ, um reynslu og viðhorf kjörinna fulltrúa í bæjar- og sveitarstjórnum á Íslandi.
Eva Marín naut liðsinnis innviðaráðuneytis og Samband íslenskra sveitarfélaga við gerð könnunarinnar og var niðurstöðuskýrsla hennar unnin í samráði við verkefnisstjórn um starfsaðstæður kjörinna fulltrúa innan innviðaráðuneytisins. Verkefnisstjórnin vinnur að því að greina starfsaðstæður kjörinna fulltrúa og leggja fram tillögur til úrbóta. Félagsvísindastofnun sendi spurningalista vegna könnunarinnar til allra kjörinna fulltrúa í íslenskum sveitarstjórnum dagana 16. nóvember til 4. desember árið 2020. Af 466 kjörnum fulltrúum svöruðu 236 eða 51%.
Eva Marín segir niðurstöður könnunarinnar athyglisverðar í ljósi umfangsmikilla breytinga á sveitarstjórnarstiginu. „Samhliða auknum verkefnum sveitarfélaga hefur sveitarfélögunum fækkað á landsvísu. Sú þróun hefur óneitanlega haft áhrif á störf sveitarstjórna. Færri hendur vinna fleiri verk. Í könnuninni vekur álag á sveitarstjórnir sveitarfélaga af miðstærð sérstaka athygli. Einn þáttur í því gæti verið að þessi sveitarfélög hafi tekið að sér að sjá um verkefni fyrir minnstu sveitarfélögin,“ segir hún. „Svo má ekki gleyma því að íslenskar sveitarstjórnir eru mjög fámennar og raunar aðrar fámennustu sveitarstjórnir í Evrópu með 7 fulltrúa að meðaltali.“
Guðveig Eyglóardóttir, bæjarfulltrúi í Borgarbyggð og formaður verkefnisstjórnar um starfsaðstæður kjörinna fulltrúa innan aðgerðaráætlunar stjórnvalda á sviði sveitarstjórnarmála, segir niðurstöðurnar dýrmætt innlegg inn í störf verkefnisstjórnarinnar. „Sveitarfélögin á Íslandi eru ólík og könnunin staðfestir að nauðsynlegt er að líta til margra þátta til að bæta aðstæður kjörinna fulltrúa. Þar er hægt að nefna skipulag, fræðslu, aðstæður, kjör og stuðning vegna erfiðra samskipta og áreitni,“ segir hún og bætir við að ríflega helmingur kjörinna fulltrúa hafi upplifað áreitni í tengslum við störf sín í sveitarstjórnum á kjörtímabilinu eða síðasta kjörtímabili samkvæmt könnuninni.
Guðveig tekur fram að markmið nefndarinnar sé að vinna gegn óvenjumikilli nýliðun í sveitarstjórnum, sex af hverju tíu fulltrúum í sveitarstjórn hafi verið nýliðar í tvennum síðustu sveitarstjórnarkosningum. „Nýliðun er alltof mikil, sérstaklega meðal kvenna. Þótt hlutfall kynjanna sé orðið ágætt í sveitarstjórnum stoppa þær alltof stutt.“
Ítarlega er gerð grein fyrir niðurstöður könnunarinnar í meðfylgjandi skýrslu.