Brautskráning og afburða nemendur í Lagadeild verðlaunaðir
Vorbrautskráning Háskóla Íslands fór fram við hátíðlega athöfn laugardaginn 23. júní sl. Frá Lagadeild brautskráðust 42 nemendur með meistarapróf í lögfræði (mag.jur.) og 60 nemendur luku BA-prófi í lögfræði. Þá voru brautskráðir tveir nemendur með LL.M. meistarapróf í auðlindarétti og alþjóðlegum umhverfisrétti og einn nemandi brautskráðist frá deildinni með meistarapróf í skattarétti og reikningsskilum, sem er þverfaglegt nám í samvinnu við Viðskiptafræðideild.
Að venju bauð Lagadeild til móttöku fyrir nemendur brautskráða á námsárinu 2017-2018 og var hún haldin á Háskólatorgi. Veittar voru viðurkenningar fyrir framúrskarandi námsárangur.
Hollvinafélag Lagadeildar, Logos og bókaútgáfan Codex verðlauna afburðanemendur
Aðalheiður Jóhannsdóttir, forseti Lagadeildar, ávarpaði boðsgesti en að því búnu veitti Helga Melkorka Óttarsdóttir hrl. f.h. LOGOS lögmannsþjónustu Ýr Sigurðardóttur 250 þúsund kr. viðurkenningu fyrir hæstu einkunn á meistaraprófi námsárið 2017-2018.
Viðurkenning vegna hæstu einkunnar á BA-prófi
Viðurkenningu frá Hollvinafélagi Lagadeildar fyrir hæstu einkunn á BA-prófi námsárið 2017-2018 hlaut Ivana Anna Nikolic. Verðlaunin námu 150 þúsund kr. Fyrir hönd Hollvinafélagsins afhenti verðlaunin Einar Farestveit hdl.
Viðurkenning fyrir besta námsárangurinn á fyrsta ári
Bókaútgáfan Codex veitti að venju viðurkenningu þeim nýnema sem stóðst öll námskeið fyrsta árs í fyrstu tilraun með hæstu meðaleinkunn. Að þessu sinni var Steinþór Stefánsson með hæstu einkunn og fékk hann að gjöf allar námsbækur 2. og 3. árs í lögfræði sem gefnar eru út af Codex auk nokkurra valinna rita. Hersir Aron Ólafsson afhenti viðurkenninguna fyrir hönd bókaútgáfunnar Codex.
Viðurkenning fyrir bestu meistararitgerðina
Lögmenn Lækjargötu ehf. veittu viðurkenningu að upphæð 250 þús. kr. til þess nemanda sem skilaði bestu lokaritgerð til meistaraprófs í lögfræði á undangengnu almanaksári. Þær ritgerðir koma til greina sem hafa fengið einkunnina 9,0 eða hærri. Þriggja manna dómnefnd sem var skipuð tveimur fulltrúum Lagadeildar og einum fulltrúa frá Lögmönnum Lækjargötu ehf. mat þær 15 ritgerðir sem komu til greina.
Dómnefndin valdi meistararitgerð Hildar Hjörvar, sem ber heitið „ Foreign surveillance and the European Convention on Human Rights. The Extraterritorial Applicability of the ECHR to Violations of the Right to Privacy“. Leiðbeinandi hennar var Róbert Ragnar Spanó prófessor. Eva Halldórsdóttir hdl. afhenti viðurkenninguna. Fyrir hönd Hildar tóku systur hennar María og Helena við viðurkenningunni. Matsnefndina skipuðu að þessu sinni Eva Halldórsdóttir hdl., f.h. Lögmanna Lækjargötu, og Aðalheiður Jóhannsdóttir prófessor og forseti Lagadeildar og Davíð Örn Sveinbjörnsson aðjúnkt f.h. Lagadeildar HÍ.