Skip to main content
20. desember 2024

Bókmenntir, málvísindi, tungumálakennsla og þýðingar í Milli mála

Bókmenntir, málvísindi, tungumálakennsla og þýðingar í Milli mála - á vefsíðu Háskóla Íslands

Út er kominn 16. árgangur tímaritsins Milli mála – tímarits um erlend tungumál og menningu í tveimur heftum. Annað heftið sem er almenns efnis inniheldur fimm ritrýndar greinar um bókmenntir, málvísindi og tungumálakennslu, auk þýðinga á stuttum textum úr taílensku og spænsku en hitt heftið er sérhefti helgað örsögum og öðrum stuttum textum. Tímaritin eru gefin út í opnu aðgengi hjá Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Ritstjórar eru Geir Þórarinn Þórarinsson, aðjunkt í klassískum málum við Mála- og menningardeild Háskóla Íslands og Þórhildur Oddsdóttir, fyrrverandi kennari við sömu deild. Gestaritstjórar þemaheftisins eru Kristín Guðrún Jónsdóttir, prófessor í spænsku, og Ásdís Rósa Magnúsdóttir, prófessor í frönsku.

Greinar sérheftisins eru afrakstur málþings sem Stutt – rannsóknastofa í smásögum og styttri textum efndi til í Veröld – húsi Vigdísar í janúar 2023. Efni heftisins endurspeglar fjölbreytileika stuttra verka, tekur á nýjum formum, örsögunni, en einnig eldri svo sem ævintýrum, þjóðsögum og dæmisögum, að ógleymdum prósaljóðum, sem oft eru nálægt örsögunni. Höfundar greina eru Aðalheiður Guðmundsdóttir, Ásdís R. Magnúsdóttir, Áslaug Agnarsdóttir, Ástráður Eysteinsson, Guðrún Björk Guðsteinsdóttir, Hjalti Snær Ægisson, Kristín Guðrún Jónsdóttir, Raúl Brasca, Rebekka Þráinsdóttir og Rúnar Helgi Vignisson.  Að auki eru í heftinu nokkur smáverk í íslenskri þýðingu eftir höfundana Félix Fénéon, Huainanzi, Ívan Túrgénev, Joyce Carol Oates, Jules Levèvre-Deumier, Karla Barajas, Leonardo da Vinci, Sławomir Mrożek, Valerius Maximus og úr ritinu Zhuangzi.

Í almenna heftinu eru fimm ritrýndar greinar um leikhúsmenningu, bókmenntir og þýðingar, á íslensku, ensku, dönsku og þýsku. Ásdís Rósa Magnúsdóttir og Guðrún Kristinsdóttir fjalla um franska farsann, uppruna hans og hefðir honum tengdar, staðfærslu og viðtökur hans og þróun í íslenskum leikhúsum. Hólmfríður Garðarsdóttir fjallar um skáldskaparskrif miðamerískra kvenna á fyrri hluta 20. aldar og með hvaða hætti umgjörð framúrstefnunnar opnaði konum dyr til að komast inn á svið bókmenntanna þar sem þær beina gjarnan sjónum að hlutverki og stöðu kvenna. Ingibjörg Ágústsdóttir skrifar um skoskar bókmenntir og tekur til umfjöllunar þrjú verk sem öll eiga sögusvið á norðurslóðum og fjalla um ísbirni. Í greininni varpar hún ljósi á breytt viðhorf evrópuþjóða til mannvistar á norðurslóðum og til umhverfisbreytinga. Jacob Ølgaard Nyboe fjallar um nýsköpun orðaforða í ljóðagerð, nýyrði og nýja merkingu orða, og sækir þar í smiðju Marianne Larsen um gátt ómöguleikans. Marion Lerner ræðir fimm mismunandi þýðingar á smásögu eftir Gest Pálsson, greinir einkenni þýðinganna og þýðingaraðferðir. Auk þýðinga þriggja smásagna frá Paragvæ og Taílandi eftir Maria Concepción Leyes,  Renée Ferrer og Jidanan Luangphiansamut.