Bílastæðagjöld innleidd á háskólasvæðinu í haust

Í stefnu Háskóla Íslands er lögð áhersla á að skólinn sé leiðandi á sviði sjálfbærni- og umhverfismála. HÍ er einn stærsti vinnustaður landsins og því í góðri stöðu til að hafa jákvæð áhrif út í samfélagið hvað þetta varðar. Liður í sjálfbærnistefnu skólans er innleiðing á skráningu og gjaldtöku af ökutækjum þeirra sem nýta bílastæði skólans en breytingin tekur gildi 18. ágúst næstkomandi. Þessari breytingu er ætlað að bæta umferð og umhverfi á háskólasvæðinu og verður gjaldtöku stillt í hóf.
Skráningarsíða fyrir mánaðaráskrift verðu opnuð innan skamms.
- Gjaldtaka hefst 18. ágúst, eða við upphaf haustmisseris
- Gjaldskylda verður frá kl. 8.00-16.00 virka daga
- Mánaðaráskrift mun kosta 1.500 krónur
- Tímagjald á öllum bílastæðum verður 230 krónur
Bílastæðum verður skipt í tvo flokka:
- Valin bílastæði næst helstu byggingum verða gjaldskyld með tímagjaldi fyrir alla. Um er að ræða skammtímastæði sem verða merkt sérstaklega.
- Öll önnur bílastæði verða gjaldskyld með tímagjaldi, en starfsfólki og nemendum býðst að nýta þau sem langtímastæði gegn mánaðarlegri áskrift á vægu gjaldi.
- Aðilar með P-merki, stæðiskort fyrir hreyfihamlað fólk, geta lagt í bílastæði án endurgjalds.
- Tímagjald á öllum bílastæðum verður 230 kr. sem jafngildir verðflokki P4 hjá Bílastæðasjóði.
Nemendum og starfsfólki gefst kostur á að skrá sig í mánaðaráskrift fyrir 1.500 kr. og geta þá lagt bíl sínum án viðbótarkostnaðar á langtímastæði. Hver einstaklingur getur skráð tvo bíla, en aðeins verður hægt að leggja einum bíl í einu (eða þeim sem fyrr er lagt) á þessum kjörum. Verði báðum bílum lagt á sama tímabili gildir tímagjald fyrir þann sem seinna kemur.
Starfsmenn og nemendur í Læknagarði munu geta nýtt sér sömu kjör og lagt bílum sínum á svæði Landspítalans.
Haft hefur verið náið samráð við Landspítalann sérstaklega og aðrar nágrannastofnanir við undirbúning þessa verkefnis. Verður þess meðal annars gætt að nemendur og starfsfólk í heilbrigðisgreinum, sem eiga erindi bæði á lóð Háskóla Íslands og Landspítalans, greiði ekki tvisvar.
Parka lausnir ehf. mun annast þjónustu við rekstur og gjaldtöku fyrir bílastæðin.
Nánari upplýsingar verður að finna á vef skólans þegar nær dregur.
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Jóhannes R. Svavarsson, framkvæmdastjóri Strætó, undirrituðu í vikunni samning um sérkjör á tímabilskortum í Strætó fyrir starfsfólk að viðstöddum fulltrúum HÍ og Strætó. Þetta leiðir til breytinga á fyrirkomulagi samgöngusamninga starfsmanna við skólann. MYND/Kristinn Ingvarsson

Endurbættur samgöngusamningur fyrir starfsfólk HÍ frá 5. ágúst
Samhliða þessum breytingum hefur Háskóli Íslands gert samning við Strætó um sérkjör á tímabilskortum í Strætó fyrir starfsfólk. Þetta leiðir til breytinga á fyrirkomulagi samgöngusamninga starfsmanna við skólann sem hafa undirritað ráðningarsamning við HÍ og eru í að a.m.k. 20% starsfshlutfalli.
Samgöngusamningurin felur í sér að starfsfólk skuldbindur sig til að ferðast til og frá skólanum með vistvænum hætti að minnsta kosti tvisvar í viku (í 40% tilvika). Samningurinn er gerður til eins árs í senn.
Hægt er að velja um tvær mismunandi leiðir:
- Niðurgreiðslu fyrir hvert 12 mánaða tímabil við kaup á Strætókorti. Hlutur starfsfólks verður 36.000 kr. sem greiddar eru til Strætó við kaup á korti. Þessu fylgir frítt aðgangskort í íþróttahús HÍ við Sæmundargötu.
- Frítt aðgangskort í íþróttahús HÍ við Sæmundargötu, sem nýtist til dæmis þeim sem koma á hjóli í skólann.
Nemendur fá sem fyrr 50% afslátt í Strætó.
Þessu brýna verkefni er eins og áður sagði ætlað að hvetja fólk til að ferðast til og frá háskólasvæðinu með vistvænum samgöngumáta og er jákvætt framlag til betri nýtingar bílastæða og öruggari og umhverfisvænni umferðar við Háskóla Íslands.
Samhliða innleiðingunni er unnið markvisst að uppbyggingu vistvænna samgöngumáta, svo sem með gerð hjólaskýla og annarrar aðstöðu fyrir hjólreiðafólk. Með vistvænum samgöngumáta er átt við aðra ferðamáta en með vélknúnum ökutækjum samkvæmt skilgreiningu umferðarlaga.
Háskóli Íslands mun innleiða bílastæðagjöld á nýju skólaári.