Bestu verkefnin verðlaunuð af Íslandsbanka
Í dag fór fram verðlaunaafhending í námskeiðinu Viðskiptaáætlanir hjá Ástu Dís Óladóttur dósent. 170 nemendur í viðskiptafræði sátu námskeiðið, sem er kennt á þriðja ári í grunnnámi og unnu nemendur viðskiptaáætlanir fyrir sínar hugmyndir í alls 29 hópum. Þann 24. mars sl. voru verkefnin svo kynnt fyrir dómnefnd en nemendur höfðu einungis 3 mínútur til að koma hugmynd sinni á framfæri og þurftu því að vanda efnistök vel. Að sögn Ástu Dísar var einstaklega gaman að fylgjast með metnaði nemenda þær 12 vikur sem verkefnavinnan stóð yfir og ljóst að einhverjum hugmyndum verður hrint í framkvæmd.
Það var svo í dag sem dómnefnd veitti þremur bestu verkefnunum verðlaun, en haft var á orði að valið hefði verið erfitt, enda um gríðarlega mörg og góð verkefni að ræða. Dómnefnd skipuðu auk Ástu Dísar þau Karl Sólnes Jónsson og Kristján Markús Bragason, sérfræðingar á fyrirtækjasviði Íslandsbanka og Elísabet Sveinsdóttir markaðsstjóri Vísindagarða. Að lokum fengu eftirfarandi verkefni viðurkenningu:
1. sæti - Andiamo
2-3. sæti - Glervinnslan
2-3. sæti - Redda.is
Um Andiamo
Pör og hjón á vinnumarkaði sem reka heimili eiga oft erfitt með að finna tíma og tækifæri til að rækta sambandið. Alltof oft fara kvöldin í það að ganga frá eftir kvöldmatinn, svæfa börnin, setjast svo í sófann og horfa á sjónvarpið. Lykillinn að sterku sambandi er að vinna stöðugt í því að halda áfram að kynnast og gera hluti saman. Flestir sem eru í langtímasambandi kannast við þetta og vilja gera betur en það tekur tíma og undirbúning að skipuleggja stefnumót þar sem hægt er að eyða gæðastundum saman. Andiamo býður upp á spennandi lausn við þessu vandamáli. Við sjáum um að skipuleggja spennandi stefnumót í hverjum mánuði þar sem pör hafa tækifæri til að rækta sambandið með ýmsum skemmtilegum leiðum. Viðskiptavinir okkar losna líka við höfuðverkinn sem fylgir því að skipuleggja stefnumót og er þetta góð áminning á að næra sambandið, en það gleymist oft í amstri dagsins. Eftir að hafa greint markaðinn erum við fullviss um að þörfin sé til staðar og að okkar lausn sé tilvalin til að mæta henni. Nýttar verða fjölbreyttar leiðir við kynningu og dreifingu á hugmyndinni, þar má helst nefna auglýsingar í útvarpi, sjónvarpi og samfélagsmiðlum auk kynningar í gegnum áhrifavalda og hlaðvörp. Teymið á bak við Andiamo er hópur viðskiptafræðinema á seinasta ári námsins með mismunandi áherslur sem mun nýtast vel við rekstur Andiamo.
Hópinn skipa: Alma Finnbogadóttir, Álfgeir Alejandro Önnuson, Hekla Halldórsdóttir, Helena Rakel Óskarsdóttir Thorlacius, Kristjan Örn Marko Stosic og Stefán Haukur Arnarsson.
Umsögn dómnefndar: „Meðlimir í dómnefnd tengdu vel við efnistök hópsins og hafa mikla trú á þessari frábæru hugmynd og að hún gæti náð langt á markaði.“
Um Glervinnsluna
Glervinnslan er endurvinnslufyrirtæki sem sérhæfir sig í móttöku á notuðum glerumbúðum, eins og glerflöskum og krukkum, og endurvinnur þær í nýjar og umhverfisvænar glerflöskur. Neytendur eru að gera ríkari kröfur til framleiðslufyrirtækja um að hafa umhverfisvænni ferli í sinni framleiðslu og er þörfin fyrir endurvinnslu á gleri á Íslandi því gríðarlega mikil. Samkvæmt tölum frá Endurvinnslunni hf. er 0% af gleri á Íslandi endurunnið og mestmegnis er það urðað. Það þarf að laga. Hugmyndin varð til út frá myndbandi á samfélagsmiðlinum Instagram þar sem bandarískur frumkvöðull sýndi frá fyrirtæki sem hún stofnaði sem tekur á móti glerúrgangi, flokkar hann og endurvinnur hann í sand sem notaður er í sandpoka og aðrar vörur. Gler er efni sem hægt er að endurvinna endalaust með nánast engum afföllum þannig það hentar vel til þess að búa til lokað hringrásarhagkerfi. Lokað hringrásarhagkerfi þýðir að hægt er að endurvinna vöru endalaust eftir að búið er að nota hana. Ísland er hentug staðsetning fyrir glerverksmiðju þar sem rafmagn á Íslandi er framleitt með endurnýtanlegri orku, sem fylgir nánast ekkert kolefnisspor. Allur búnaður í verksmiðju Glervinnslunnar verður keyrður á rafmagni og engin mengandi efni verða notuð við framleiðsluna á glerflöskum. Á Íslandi er einnig gríðarlega mikið af náttúrulegri gufu og heitu vatni sem verður notað til þess að þrífa gler úrganginn og gera hann tilbúinn í mulningu og bræðslu. Lokaniðurstaðan verður glerflaska sem er umhverfisvæn, endurunnin og endurvinnanleg fyrir komandi kynslóðir. Markmið Glervinnslunnar er að stuðla að meiri sjálfbærni á Íslandi í drykkjarumbúðum, minnka urðun á gleri, búa til vistvænna samfélag og að lokum, stuðla að betri og hreinni framtíð.
Hópinn skipa: Agnar Ingi Ingimundarson, Andri Pétur Magnússon, Hafliði Árnason, Hilmar Orri Jóhannsson, Sölvi Steinn Jónsson og Þorbjörg Hildur Björnsdóttir.
Umsögn dómnefndar: „Hérna kviknaði eitthvað ljós hjá dómnefndarfólki – þetta er mjög áhugaverð hugmynd sem tikkar í box umhverfismála, sjálfbærni og möguleika á tekjumyndun til framtíðar.“
Um Redda.is
Redda er vefsíða þar sem notendur geta leigt og skráð til leigu allan þann búnað sem tengist útivist. Redda er sjálfbær og umhverfisvænn kostur fyrir þá sem til dæmis vilja byrja að stunda útivist, ferðamenn sem koma til landsins eða fyrir þá aðila sem eiga mikið magn af útivistarbúnaði sem þeir nota minna en áður.
Teymið samanstendur af sex aðilum og markaðurinn sem Redda er að fara inn á er nokkuð stór og samkeppnisaðilar eru margir, en enginn af þeim býður almenningi að leigja útivistarbúnað sín á milli. Markhópar Redda skiptast í tvennt, annars vegar þeir sem leigja út sinn búnað og hins vegar þeir sem leigja búnað. Redda telur að þeir sem leigja út búnaðinn sinn séu fjölskyldufólk sem á mikið af útivistarbúnaði. Þeir sem leigja búnaðinn teljum við vera ungt fólk sem hefur minna á milli handanna, einstaklinga sem huga vel að umhverfismálum og einnig teljum við Redda vera góðan kost fyrir ferðamenn.
Hópinn skipa: Hildur Lilja Valsdóttir, Hólmfríður Sigurðardóttir, Telma Ólafsdóttir, Viktor Júlíusson, Ölöf Agnes Arnardóttir og Þórunn Eva Sigurbjörnsdóttir.
Umsögn dómnefndar: „Dómnefndin var sammála um að þarna væri sniðugur kostur sem vert væri að láta reyna á, enda ýtir hann undir hringrásarhagkerfi.“
Auk þess að óska nemendum innilega til hamingju vill Viðskiptafræðideild þakka Íslandsbanka kærlega fyrir að vera bakhjarl þessa verkefnis sl. 2 ár. Stuðningur íslenskra fyrirtækja við slík verkefni er ómetanlegur og er nemendum aukaleg hvatning til að virkja sinn sköpunarkraft.
Myndir tók Kristinn Ingvarsson.