Skip to main content
24. maí 2017

Átján útskrifuðust úr Jafnréttisskóla Háskóla SÞ

""

Átján nemendur útskrifuðust með diplóma á meistarastigi í alþjóðlegum jafnréttisfræðum frá Jafnréttisskóla Háskóla Sameinuðu þjóðanna (HSÞ) við Háskóla Íslands í gær, þriðjudaginn 23. maí. Í útskriftarhópnum voru tólf konur og sex karlar frá tólf löndum. Nemendur komu að þessu sinni frá samstarfslöndum Íslands í alþjóðlegri þróunarsamvinnu, Malaví, Mósambík, Úganda og Palestínu auk nema frá Afganistan og í fyrsta sinn stunduðu nemendur frá Túnis, Líbanon, Sómalíu, Eþíópíu, Nígeríu, Írak og Jamaíka nám við skólann.

Þessi útskriftarárgangur er sá tíundi frá upphafi en skólinn tók til starfa á haustönn árið 2009 og eru útskrifaðir nemendur frá skólanum orðnir 86 talsins. Markmið skólans er að veita sérfræðingum frá þróunarlöndum, átakasvæðum og fyrrverandi átakasvæðum þjálfun á sínu sérsviði og gera þeim betur kleift að vinna að jafnri stöðu karla og kvenna í heimalöndum sínum.

Við útskriftina flutti Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, ávarp þar sem hann óskaði nemendum til hamingju með árangurinn og þakkaði þeim fyrir að hafa auðgað háskólasamfélagið þessa vorönn. Stefán Haukur Jóhannesson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, ítrekaði stuðning íslenskra stjórnvalda við jafnréttismál og lagði sérstaka áherslu á að karlmenn yrðu að taka virkari þátt ef ná ætti jafnrétti á heimsvísu á næstum árum. Caroline Kalangala Kanyago frá Úganda flutti ræðu fyrir hönd útskriftarnema þar sem hún líkti jafnréttisbaráttunni við að berjast við íslenskt veðurfar; það er nauðsynlegt að ganga hönd í hönd í áttina að settu marki jafnvel þó að á móti blási. Með virkri samstöðu næst árangur. Irma Erlingsdóttir, forstöðumaður Jafnréttisskólans, stýrði athöfninni en Guðmundur Hálfdánarson forseti Hugvísindasviðs, og Jón Atli Benediktsson afhentu nemendum skírteini.  

Elíza Reid forsetafrú var sérstakur heiðursgestur og afhenti verðlaun Jafnréttisskólans fyrir framúrskarandi lokaverkefni sem kennd eru við verndara skólans, frú Vigdísi Finnbogadóttur. Verðlaunin komu í hlut Yeshiwas Degu Belay frá Eþíópíu fyrir ritgerð hans um þátttöku kvenna í friðargæslusveitum Eþíópíu. Leiðbeinandi hans var Valur Ingimundarson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands. 

Jafnréttisskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna heyrir undir Hugvísindasvið Háskóla Íslands en starfsemi hans og áherslur eru þverfaglegar. Kennarar við skólann eru sérfræðingar af mörgum fræðasviðum, bæði innlendir og erlendir. Á Íslandi starfa fjórir skólar undir hatti Háskóla Sameinuðu þjóðanna, Jarðhitaskóli, Sjávarútvegsskóli, Landgræðsluskóli og Jafnréttisskóli og eru skólarnir fjórir hluti af framlagi Íslands til alþjóðlegrar þróunarsamvinnu.

Upplýsingar um lokaverkefni útskriftarnema má finna á heimasíðu Jafnréttisskóla Háskóla Sþ.

Brautskráningarhópurinn ásamt Irmu Erlingsdóttur, forstöðumanni Jafnréttisskólans, Elízu Reid forsetafrú, Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands, Stefáni Hauki Jóhannessyni, ráðuneytisstjóra í utanríkisráðuneytinu og Guðmundi Hálfdánarsyni, forseta Hugvísindasviðs.
Vigdís Finnbogadóttir er verndari Jafnréttisskólans og hún tók á móti brautskráningarhópnum á heimili sínu að lokinni athöfn í gær.