Skip to main content
13. desember 2021

Ásta Dís hlýtur viðurkenningu Sjávarútvegsráðstefnunnar og TM

Ásta Dís hlýtur viðurkenningu Sjávarútvegsráðstefnunnar og TM - á vefsíðu Háskóla Íslands

Ásta Dís Óladóttir, dósent við Viðskiptafræðideild, hlaut á dögunum viðurkenningu Sjávarútvegsráðstefnunnar og TM fyrir ötult starf við menntun, fræðslu og frumkvöðlastarfsemi á sviði sjávarútvegstengdra málefna.

Ásta Dís tók við viðurkenningunni í höfuðstöðvum TM. Upphaflega stóð til að afhenda þau á Sjávarútvegráðstefnunni í síðasta mánuði en henni var frestað til næsta árs vegna kórónuveirufaraldursins.

Í umsögn um Ástu Dís vegna viðurkenningarinnar er bent á að hún hafi á skömmum tíma byggt upp öflugt námskeið sem er vinsælt meðal nemenda og vekur hjá þeim áhuga á sjávarútvegi með áherslu á nýsköpun og nýjar leiðir til virðisaukningar. Þar er um að ræða námskeiðið Rekstur í sjávarútvegi við Viðskiptafræðideild. Hluti af námskeiðinu er viðburðurinn Stefnumót við sjávarútveginn þar sem forystufólk í sjávarútvegi hér heima og erlendis hefur átt samtal við nemendur námskeiðsins um framþróun í greininni.

Ásta Dís, sem fyrr á árinu hlaut viðurkenningu Íslenska sjávarklasans fyrir að efla samstarf atvinnulífs og Háskóla Íslands, hefur einnig komið að stofnun Sjávarlíftæknivettvangs Íslands í Vestmannaeyjum. Auk þess sem hún hefur lagt mikla áherslu á rannsóknir tengdar sjávarútvegi í störfum sínum. Ásta Dís og Ágúst Einarsson, fyrrverandi rektor Háskólans á Bifröst, prófessor við Háskóla Íslands og alþingismaður, gáfu í fyrra út bókina „Fisheries and Aquaculture: The Food Security of the Future“ sem byggist á áralöngum rannsóknum þeirra á umhverfi sjávarútvegs víða um heim. Þar er fjallað um þær miklu breytingar sem hafa orðið í sjávarútvegi og hvaða leiðir eru færar í framtíðinni til sjálfbærari og hagkvæmari útgerðar og fiskeldis. 

Sjávarútvegsráðstefnan og TM veittu tvær aðrar viðurkenningar við sama tilefni. Þannig hlaut Marea ehf. hvatningarverðlaunin Svifölduna og LAX-INN, fræðslumiðstöð í fiskeldi við Grandagarð, hlaut viðurkenningu fyrir fræðslustarf.

 

Ásta Dís Óladóttir er hér fyrir miðju ásamt öðrum verðlaunahöfum og aðstandendum Sjávarútvegsráðstefnunnar og TM. MYND/Fréttabréf Sjávarútvegsráðstefnunnar