Skip to main content
18. júní 2020

Anna Dóra hlaut fálkaorðuna

""

Anna Dóra Sæþórsdóttir, prófessor í ferðamálafræði við Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands, var í hópi 14 Íslendinga sem forseti Íslands sæmdi heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu á þjóðhátíðardaginn 17. júní. Riddarakrossinn fær Anna Dóra fyrir kennslu og rannsóknir á vettvangi ferðamálafræði og útivistar. 

Anna Dóra lauk BS-prófi í landfræði frá Háskóla Íslands árið 1990, MS-prófi í sömu grein tveimur árum síðar og doktorsprófi í mannvistarlandafræði árið 2011 frá Háskólanum í Oulu í Finnlandi. Hún hefur staðið að uppbyggingu náms á sviði ferðamálafræða við Háskóla Íslands og var námsbrautarstjóri í land-og ferðamálafræði á árunum 1999-2001. Hún hlaut stöðu lektors í ferðamálafræðum árið 2002, varð dósent árið 2007 og fékk framgang í stöðu prófessors árið 2016.

Anna Dóra hefur í rannsóknum sínum lagt áherslu á náttúrutengda ferðamennsku, sjálfbærni í ferðamennsku og viðhorf ferðamanna til víðerna en þar hefur hún m.a. beint sjónum sérstaklega að Landmannalaugum sem eru einn vinsælasti viðkomustaður ferðamanna hér á landi. Einnig hefur hún rannsakað viðhorf ferðamanna og ferðaþjónustu til virkjanahugmynda og orkuvinnslu. Eftir hana liggur fjöldi vísindagreina sem birst hafa í bæði erlendum og innlendum fræðatímaritum.

Anna Dóra hefur enn fremur gegnt ýmsum félags- og stjórnunarstörfum og er sem stendur forseti Líf- og umhverfisvísindadeildar Háskóla Íslands. Hún er jafnframt formaður faghóps 2 í rammaáætlun um nýtingu vatnsorku og jarðvarma sem fer með auðlindanýtingu aðra en orkunýtingu. Hún er enn fremur stjórnarmaður í Ferðafélagi Íslands. Þá hefur hún setið sem varamaður í stjórn Landsvirkjunar, verið fulltrúi í fagráði leðisögunáms á háskólastigi hjá Endurmenntun HÍ og setið í stjórn Rannsóknamiðstöðvar ferðamála sem og Stofnun rannsóknasetra Háskóla Íslands, svo fátt eitt sé nefnt. 

Háskóli Íslands óskar Önnu Dóru innilega til hamingju með viðurkenninguna.
 

Anna Dóra Sæþórsdóttir