Skip to main content
25. ágúst 2025

Afreksnemar tóku við námsstyrkjum í Háskóla Íslands

Styrkþegar úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdena Háskóla Íslands og stjórn sjóðsins í Hátíðasal í dag.

Þrjátíu og einn nemi, sem náði framúrskarandi árangri í námi til stúdentsprófs og hóf grunnnám í Háskóla Íslands nú í haust, tók við styrk úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta HÍ við athöfn í Hátíðasal Aðalbyggingar Háskólans í dag. Styrkþegar úr sjóðnum frá upphafi eru nú tæplega 500.

Afreks- og hvatningarsjóður stúdenta Háskóla Íslands var settur á laggirnar árið 2008 og var úthlutað úr honum í átjánda sinn í dag. Sjóðurinn styður afreksnema til háskólanáms en við val á styrkþegum er litið til námsárangurs á stúdentsprófi auk frammistöðu á öðrum sviðum, svo sem í félagsstörfum í framhaldsskóla eða listum og íþróttum. Sjóðurinn styrkir jafnframt nemendur sem hafa sýnt fádæma seiglu og þrautseigju og hafa, þrátt fyrir afar erfiðar aðstæður, staðið sig afar vel í námi.

Sjóðnum bárust að þessu sinni tæplega 70 metnaðarfullar umsóknir um styrki og því reyndist starf stjórnar afar snúið. Hún ákvað að þessu sinni að veita 31 nýnema við Háskóla Íslands styrk. Þeir koma úr 14 framhaldsskólum víða um land og í hópi þeirra eru 12 dúxar og semidúxar. Styrkþegarnir hefja nám á 23 námsleiðum á öllum fimm fræðasviðum skólans.

Styrkupphæð hvers og eins nemur 375 þúsund krónum og heildarupphæð styrkjanna er því rúmar 11,6 milljónir króna. 

Styrkhafarnir eru: Aron Haraldsson, Ágústa Rún Jónasdóttir, Álfrún Haraldsdóttir, Árni Stefán Friðriksson, Bergur Fáfnir Bjarnason, Brynja Guðmundsdóttir, Elín Elmarsdóttir Van Pelt, Erik Nikolaj Gokov, Erna María Helgadóttir, Fannar Grétarsson, Fjóla Gerður Gunnarsdóttir, Guðmundur Brynjar Þórarinsson, Guðrún María Aðalsteinsdóttir, Hafey Hvítfeld Garðarsdóttir, Hekla Sif Óðinsdóttir, Hrafn Ingi Jóhannsson, Inga Júlíana Jónsdóttir, Isabella Tigist Felekesdóttir, Katrín Edda Jónsdóttir, Kristinn Rúnar Þórarinsson, Marín Aníta Hilmarsdóttir, Nói Pétur Ásdísarson Guðnason, Rawaa M S Albayyouk, Sigrún Klausen, Sigurður Baldvin Ólafsson, Snædís Hekla Svansdóttir, Sóley Margrét Jónsdóttir, Theódór Helgi Kristinsson, Uyen Thu Vu Tran, Vala Katrín Guðmundsdóttir og Valdís Katla Sölvadóttir.

Styrkirnir úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdenta Háskóla Íslands eru veittir með stuðningi Aldarafmælissjóðs Háskóla Íslands og Happdrættis Háskóla Íslands. 

Stjórn Afreks- og hvatningarsjóðs stúdenta Háskóla Íslands skipa Steinunn Gestsdóttir, fyrrv. aðstoðarrektor kennslu og þróunar og prófessor við Sálfræðideild, Ólafur Pétur Pálsson, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild, og Silja Bára Ómarsdóttir, prófessor við Stjórnmálafræðideild og nú rektor Háskóla Íslands.

Nánari upplýsingar um styrkhafana eru í meðfylgjandi skjali.

Styrkþegar úr Afreks- og hvatningarsjóði stúdena Háskóla Íslands og stjórn sjóðsins í Hátíðasal í dag.