Skip to main content
30. nóvember 2018

Áfram í hópi 200 bestu háskóla heims í verkfræði og tækni

""

Háskóli Íslands er annað árið í röð í hópi 200 bestu háskóla heims í verkfræði og tækni samkvæmt nýjum lista timaritsins Times Higher Education. Alls hefur skólinn komist á sjö lista tímaritsins yfir bestu háskóla heims á afmörkuðum fræðasviðum, einum fleiri lista en í fyrra. 

Tímaritið Times Higher Education birti snemma í haust lista yfir bestu háskóla heims, þar sem horft er til heildarárangurs skólanna, og þar reyndist Háskóli Íslands í sæti 251-300. Í kjölfarið hafa fylgt listar yfir bestu háskóla heims á afmörkuðum fræðasviðum og voru þeir síðustu birtir í gær. Þar kemur í ljós að Háskóli Íslands heldur stöðu sinni milli ára þegar horft er til frammistöðu í verkfræði og tækni og raðast í sæti 176-200. Mat Times Higher Education tekur til fjölbreyttra verkfræðigreina, þar á meðal þeirra kennslugreina og rannsókna sem stundaðar eru við Háskóla Íslands. Þess má geta að alls eru 903 háskólar á hinum nýbirta lista. 

Fyrr í haust hefur Times Higher Education staðfest að Háskóli Íslands er í 126.-150. sæti yfir bestu háskóla heims á sviði lífvísinda, í sæti 176-200 á sviði raunvísinda, í hópi 250 fremstu á sviði hugvísinda, númer 251-300 yfir þá skóla sem bestir þykja innan félagsvísinda og í 301.-400. sæti á sviði heilbrigðisvísinda og sálfræði en skólinn komst í fyrsta sinn inn á síðastnefnda listann í ár. 
Listar Times Higher Education yfir bestu háskóla heims byggjast á mati á þrettán þáttum í starfi háskóla, m.a. rannsóknastarfi, áhrifum rannsókna viðkomandi háskóla í alþjóðlegu vísindastarfi, gæðum kennslu, námsumhverfi og alþjóðlegum tengslum. Þá er horft til rannsókna- og birtingarhefða á hverju fræðasviði fyrir sig við röðun skóla á lista.

Staða Háskóla Íslands á listum Times Higher Education og á Shanghai-listanum svokallaða, sem saman mynda tvo áhrifamestu og virtustu matslistana á þessu sviði heiminum, undirstrikar enn á ný styrk Háskóla Íslands sem alhliða alþjóðlegs háskóla. Frammistaða skólans hefur vakið eftirtekt erlendis og skapað skólanum og um leið íslensku samfélagi aukin tækifæri í harðri samkeppni þjóða. Þessi góði árangur vísindamanna og nemenda skólans getur um leið verið grundvöllur fjölbreytts atvinnulífs og góðra lífskjara hér á landi til framtíðar.

Nánari upplýsingar um lista Times Higher Education yfir bestu háskóla heims á sviði verkfræði og tækni má finna á heimasíðu tímaritsins.
 

Yfirlistmynd af háskólasvæðinu