Afbrot og íslenskt samfélag
Nýverið kom út á vegum Háskólaútgáfunnar bókin Afbrot og íslenskt samfélag eftir Helga Gunnlaugsson. Bókin er innlegg í umræðu um íslenskt samfélag og þróun þess frá sjónarhorni félags- og afbrotafræðinnar. Tilgangur hennar er að koma á framfæri aðgengilegu íslensku lesefni um afbrot á Íslandi og um leið að vekja áhuga og umræður um málefnið. Stuðst er við viðhorfsmælingar, opinber gögn, rýnihópa, fjölmiðla og niðurstöður sem túlkaðar eru í ljósi alþjóðlegs samanburðar.
Meðal þess sem leitast er við að svara í bókinni er:
- Hver hefur þróun afbrota verið á Íslandi á síðustu árum?
- Hvað einkennir íslensk fangelsi og fanga?
- Hvernig hafa Íslendingar brugðist við fíkniefnavandanum?
- Eru dómstólar vægari en almenningur?
- Hverjir eru gerendur kynferðisbrota gegn börnum?
- Hvert er umfang netbrota á Íslandi?
Um höfundinn
Helgi Gunnlaugsson er prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands. Hann hefur kennt afbrotafræði við skólann í fjölda ára og sat í stjórn Norræna sakfræðiráðsins 2001 – 2015. Hann lauk doktorsprófi frá Missouriháskóla í Bandaríkjunum þar sem hann sérhæfði sig í afbrotafræði og réttarfélagsfræði. Helgi hefur einn eða í samstarfi við aðra gefið út fjölda verka, þar á meðal Afbrot og Íslendingar (2000), Wayward Icelanders: Punishment, Boundary Maintenance and the Creation of Crime (2000) og Afbrot á Íslandi (2008). Auk þess hafa greinar eftir hann birst víða í fræðaheiminum, meðal annars í European Journal of Criminology, Howard Journal of Crime and Justice, Criminology and Crime Prevention og Social Problems.