300 framhaldsskólanemar sækja Háskólaherminn í HÍ
Um 300 nemendur úr 13 framhaldsskólum munu taka virkan þátt í háskólasamfélaginu dagana 2. og 3. febrúar þegar Háskólahermirinn fer fram í Háskóla Íslands. Öll fræðasvið skólans hafa undirbúið fjölbreytta dagskrá sem bæði kennarar og nemendur HÍ standa að.
Háskóli Íslands hleypti verkefninu Háskólaherminum af stokkunum á síðastliðnu ári við afar góðar undirtektir en þá heimsóttu rúmlega 200 framhaldsskólanemar háskólann og kynntust námsframboði skólans með lifandi og oft óvæntum hætti. Markmið verkefnisins er að efla frekar samstarf Háskóla Íslands við framhaldsskóla landsins og gefa ungu fólki tækifæri til að kynnast starfsemi háskólans af eigin raun og um leið styðja þau í að taka upplýsta ákvörðun um nám og starf í framtíðinni.
Skólarnir þrettán, sem taka þátt að þessu sinni, eru víða á landinu en þetta eru Fjölbrautaskólinn í Garðabæ, Fjölbrautaskóli Norðurlands vestra, Fjölbrautaskóli Snæfellinga, Fjölbrautaskóli Suðurnesja, Fjölbrautaskóli Vesturlands, Flensborgarskólinn, Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum, Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ, Menntaskóli Borgarfjarðar, Menntaskólinn í Kópavogi, Menntaskólinn við Hamrahlíð, Tækniskólinn og Verkmenntaskóli Austurlands. Skráning í Háskólaherminn fór fram í gegnum vef verkefnisins og áhugi framhaldsskólanema var svo mikill að fullt var í öll sæti í Herminum á innan við klukkustund, en hámarksfjöldi þátttakenda var 300.
Fjölbreytt dagskrá Háskólahermisins fer fram víða á háskólasvæðinu og hver nemandi sækir fjögur af fimm fræðasviðum skólans að eigin vali. Þar fást nemendur við spennandi verkefni sem snerta fræðasviðið og kynnast jafnframt ólíkum hliðum námsins og þeim mörgu námsleiðum sem finna má á hverju sviði. Með heimsókninni fær nemendahópurinn því góða innsýn í fjölbreytt námsframboð háskólans og hugmyndir um hvað námið felur í sér. Lögð er áhersla á að kynningarnar á sviðunum gefi mynd af hagnýtingu námsins að því loknu.
Upplýsingar um Háskólaherminn má finna á Facebook-síðu verkefnissins.