Sigurður Reynir Gíslason jarðvísindamaður - Varað við hamfaraflóðum
„Ég er Vestur-Skaftfellingur og ættar óðalið Þykkvabæjarklaustur kúrir í farvegi Kötluhlaupa. Föðurafi minn hleypti á hesti undan Kötluhlaupinu 1918, móðurafi minn fór í fyrsta könnunarleiðangurinn upp í Kötlugjá vorið eftir gosið og pabbi, sem þá var mjólkurbílstjóri í Vík, keyrði í gegnum gosmökkinn frá Heklugosinu 1947. Eigum við ekki að segja að ég hafi fengið þetta með móðurmjólkinni.“
Svona lýsir Sigurður Reynir Gíslason jarðvísindamaður kveikjunni að óslökkvandi áhuga sínum á eldvirkni en hann kemur við sögu í nýrri þáttaröð Háskóla Íslands um Fjársjóð framtíðar. Í fyrsta þættinum fylgjumst við með rannsóknum vísindamanna við Háskóla Íslands á eldgosum og áhrifum þeirra á landið, umhverfið og samfélagið.
Sigurður Reynir Gíslason fór mikinn á gosstöðvunum í Holuhrauni þegar mest gekk þar á. Þar kannaði hann, eins og í undanförnum gosum, áhrif eldsumbrotanna á umhverfi okkar Íslendinga. Sjálft vatnið leikur lykilhlutverk í þessum rannsóknum Sigurðar en hann kannaði annars vegar efnaskipti vatns og gjósku og hins vegar samspil vatns og hrauns.
Sigurður Reynir Gíslason
„Hraunið í Holuhrauni rann út í Jökulsá á Fjöllum og þar gátum við í fyrsta sinn á Íslandi rannsakað beint efnaskipti vatns og hrauns þegar það storknar í vatni.“
„Hraunið í Holuhrauni rann út í Jökulsá á Fjöllum og þar gátum við í fyrsta sinn á Íslandi rannsakað beint efnaskipti vatns og hrauns þegar það storknar í vatni.“ Sigurður og rannsóknarhópur hans rannsakaði líka, í samstarfi við Veðurstofu Íslands, svokölluð jökulhlaup. Með því að kanna efni í vatnslausn er unnt að segja til um hvort hlaup stafi af eldgosi undir jökli eða af jarðhita. Aukinn styrkur leystra efna í vatni veldur því að leiðni vatnsins vex. Auðvelt er að mæla leiðnina með síritandi mælum í straumþungum jökulám. Að hans sögn getur aukin leiðni í straumvötnum gefið til kynna að vatn hafi komist í snertingu við kviku og/eða jarðhita.
„Aukin leiðni er stundum afgerandi forboði um hlaup undan jökli,“ segir Sigurður. Efnasamsetningin var því vöktuð í Jökulsá á Fjöllum frá upphafi jarðhræringanna í Bárðarbungu og ný tækni lofar góðu, að sögn Sigurðar, um betri niðurstöður úr mælingum. Markmiðið er að geta varað við hamfarahlaupum með góðum fyrirvara.
Sigurður er á því að eldgos séu fögur en ógnvekjandi, ekki síst þegar gosmökkurinn er mikill. Þegar gjóska rís úr eldstöð er hún stórbrotið myndefni en færri vita að gjóskan er yfir þúsund gráðu heit og getur borist á nokkrum mínútum upp í um tíu kílómetra hæð. Þar er a.m.k. 20 gráðu frost.
„Gjóskan storknar svo hratt að hún nær ekki að mynda kristalla og er að mestu gler. Á yfirborði gjóskunnar þéttast sýru- og málmsölt og mynda örþunna salthimnu, um nanómetra að þykkt. Um leið og þessi sölt komast í snertingu við vatn á jörðu niðri leysast þau úr læðingi og geta skaðað umhverfið en stundum virkað eins og besti áburður.“
Það er því ekki allt neikvætt við eldgosin þótt þau hafi valdið miklum og alvarlegum umhverfisáhrifum á Íslandi undanfarnar aldir.
„Ég minni t.d. á Skaftárelda og Móðuharðindin,“ segir Sigurður. „Það var samt ekki fyrr en í Heklugosinu árið 1947 sem byrjað var að rannsaka með aðferðum efnafræði og jarðfræði þau ferli sem leiða til umhverfisáhrifanna. Hvert eldgos frá 1947 hefur bætt nýrri þekkingu í sarpinn.“