Holuhraunsgosið spúði brennisteinsdíoxíði yfir Evrópu
Gosið í Holuhrauni, spúði eitruðu brennisteinsdíoxíði (SO2) yfir stór svæði í Evrópu en gosið var hið stærsta á Íslandi frá Skaftáreldum sem stóðu frá 1783 til 1784. Eldgosið í Holuhrauni varði í sex mánuði frá 31. ágúst 2014 til 27. febrúar 2015. Losun brennisteinsdíoxíðs í eldgosinu reyndist vera hartnær 12 milljónir tonna. Það er meira en heildarlosun þessa eitraða efnasambands í Evrópu allt árið 2011 að sögn Sigurðar Reynis Gíslasonar, vísindamanns við Háskóla Íslands, en hann leiddi rannsóknina. Grein, sem byggir á rannsókninni, var birt í tímaritinu Geochemical Perspectives Letters sem gefið er út af Evrópusamtökum vísindamanna á sviði jarðefnafræði.
Í nýrri þáttaröð sem helguð er rannsóknum vísindamanna við Háskóla Íslands hittum við Sigurð Reyni sem talar um útstreymi brennisteinsdíoxíðs í Holuhraunsgosinu. Að sögn Sigurðar Reynis fór styrkur brennisteinsdíoxíðs í andrúmslofti langt yfir heilsufarsmörk (sem er 350 µg m−3 að meðaltali á klukkustund) dögum og vikum saman á Ísland og áhrifanna gætti einnig í Evrópu þar sem styrkur SO2 í andrúmslofti varð víða töluverður. Brennisteinsdíoxíð getur haft alvarleg áhrif á heilsu manna og mikill styrkur þess í andrúmslofti getur haft áhrif á öndun auk þess að erta augu, nef og háls. Það veldur auk þess hósta, öndunarsjúkdómum og óþægindum í brjósti. Brennisteinsdíoxíð hefur einnig slæm áhrif á gróður jafnframt að valda vanlíðan dýra og jafnvel köfnun en til viðbótar veldur efnasambandið málmtæringu.
Sigurður Reynir Gíslason
Sigurður Reynir og samstarfsmenn hans höfðu því miklar áhyggjur af losun brennisteinsdíoxíðs og að styrkurinn yrði jafnvel enn meiri en raunin varð.
Sigurður Reynir og samstarfsmenn hans höfðu því miklar áhyggjur af losun brennisteinsdíoxíðs og að styrkurinn yrði jafnvel enn meiri en raunin varð. Slíkt hefði getað ógnað heilsu manna í Evrópu og á Íslandi.
"Þegar öllu er á botninn hvolft teljumst við hafa verið heppin en við óttuðumst þó stöðuna í september í fyrra. Fyrir átta þúsund árum, sem er býsna stuttur tími í jarðsögunni, varð gríðarstórt gos í Bárðarbungu, stærra en það sem við þekkjum úr Skaftáreldum. Við óttuðumst því að stærra gos gæti verið í aðsigi en raunin varð þegar við litum til sögunnar. Um tíu þúsund manns létust vegna umhverfisáhrifa gossins í Skaftáreldum, sem samsvaraði þá 20 prósentum allrar íslensku þjóðarinnar. Brennisteinsdíoxíð-mengunin þá er talin hafa haft áhrif á þúsundir Evrópubúa, sérstaklega í Bretlandi, Frakklandi og Hollandi," segir Sigurður Reynir.
Auk mikils útstreymis á brennisteinsdíoxíði var hraunflæði úr eldgosinu um 1,6 rúmkílómetri, sem samsvarar um helmingi af rúmmáli Þingvallavatns. Hraunið þekur svæði áþekkt að stærð og Þingvallavatn.
Fram kemur í rannsókninni að styrkur brennisteinsdíoxíðs reis mikið í upphafi gossins á Íslandi og einnig í Evrópu. Mælar á Írlandi sýndu t.d. að styrkurinn fór langt yfir heilsufarsmörk sem skilgreint er af Evrópusambandinu, þann 6. september í fyrra. Einnig fór styrkurinn hartnær 50 sinnum yfir venjulegan bakgrunnstyrk í Austurrísku Ölpunum. Þrátt fyrir þetta benda vísindamennirnir á að áhrifin á heilsu fólks hafi víðast verið lítilvæg í Evrópu þar sem hinn aukni styrkur brennisteinsdíoxíðs í andrúmslofti var ekki langvarandi. "
Þetta var stærsta eldgos á Íslandi frá Skaftáreldum fyrir 200 árum en það var mun stærra en þetta. Flestir Íslendingar urðu varir við mengun frá gosinu í Holuhrauni," segir Sigurður Reynir. "Sem betur fer gætti þó mengunarinnar mest á svæðum sem ekki eru í byggð. Við vorum einnig heppin með þann tíma sem gosið stóð yfir og ekki síður með veðrið. Það sama á við um meginland Evrópu. Meðalhraði vinds er mun meiri að vetrinum en að sumarlagi og þess vegna dreifðist brennisteinsmökkurinn og styrkur brennisteinsdíoxíðs lækkaði í andrúmslofti við dreifinguna. Í þessum mikla vindi barst gasið hratt frá landinu áður en brennisteinsdíoxíðið breyttist í brennisteinssýru. Að auki hafði skammdegið jákvæð áhrif þar sem sólarljós er þá af skornum skammti sem kom í veg fyrir óæskileg efnahvörf og því umbreyttist lítill hluti af brennisteinsdíoxíði eða SO2 í H2SO4 – eða í brennisteinssýru sem er afar skaðleg heilsu fólks.“ Anja Schmidt frá Háskólanum í Leeds segir að eldgosið hafi gefið einstakt tækifæri til að sjá áhrif svo mikils brennisteinsdíoxíðsútstreymis á umhverfi og á heilsu fólks. "Sigurður Reynir og samstarfsmenn hans hafa unnið mikilvæg gögn sem nýtast ekki bara í þessari rannsókn heldur í framtíðinni við aðrar rannsóknir af svipuðum toga."