Þórarinn Guðjónsson, prófessor við Læknadeild
Stofnfrumurannsóknir verða æ mikilvægari í leitinni að lausnum við ýmsum sjúkdómum. Stofnfrumur eru ósérhæfðar en hafa hæfni til að þroskast yfir í frumur með sérstaka virkni. Stofnfrumur gætu þannig fræðilega orðið að hvaða frumum sem er og endurnýjað sig án þess að sýna merki um öldrun. Slíkar frumur eru því ákaflega mikilvægur efniviður í rannsóknum. Nú er hafin rannsókn innan Háskóla Íslands sem snýst um að nota svokallaðar viðsnúnar stofnfrumur (e. induced pluripotential stem cells, IPS) til að þróa vefjaræktunarlíkan fyrir lungna- þekjufrumur.
„Markmiðið er að nýta vefjaræktunarlíkanið til rannsókna á lungnasjúkdómum og til lyfjaprófana,“ segir Þórarinn Guðjónsson, prófessor í vefjafræði, en hann er einn viðmælanda í lokaþætti sjónvarpsþáttaraðarinnar Fjársjóður framtíðar. Í lokaþættinum er sjónum beint að rannsóknum á krabbameini.
Þórarinn hefur mikla reynslu af stofnfrumurannsóknum og er frumkvöðull á því sviði hér á landi. Þórarinn segir að þar til nýlega hafi einu fjölhæfu stofnfrumurnar, sem unnt var að vinna með, verið úr fósturvísum.
Þórarinn Guðjónsson
„Markmiðið er að nýta vefjaræktunarlíkanið til rannsókna á lungnasjúkdómum og til lyfjaprófana.“
„Aukin þekking og ný tækni hefur hins vegar gert kleift að taka hvaða frumu sem er í líkamanum og umbreyta henni í fjölhæfa stofnfrumu sem við köllum viðsnúnar stofnfrumur eða IPS-frumur. Við sjáum gríðarleg tækifæri í notkun slíkra fruma til vefjaræktana og í þessari rannsókn einblínum við á lungun.“ Rannsóknarteymi Þórarins hefur um árabil rannsakað vefjastofnfrumur í lungum og í brjóst- kirtli. „Við höfum alla tíð verið að þróa vefja- ræktunarlíkön til þess að nálgast þær aðstæður sem finnast í líkamanum,“ segir Þórarinn, „en kveikjan að þessari rannsókn eru þeir möguleikar sem við sjáum með notkun IPS-frumanna.“
Þórarinn segir að áhugi sinn á stofnfrumum hafi alla tíð verið mikill, „og þá sérstaklega vefjastofnfrumum og tengslum þeirra við vefja- byggingu og sjúkdóma. Með tilvist IPS-fruma hafa opnast gríðarleg tækifæri til rannsókna og við sjáum mikla möguleika í notkun þeirra í okkar rannsóknum.“
Að Þórarins sögn hófst verkefnið vorið 2016 og hefur teymið unnið að þróun leiða til þess að þroska IPS-frumurnar yfir í lungnaþekjufrumur. „Það hefur gengið vel en auðvitað eins og í öllum rannsóknum hafa komið upp vandamál sem þurft hefur að leysa. Í raun má segja að við séum að þroska lungu í okkar módeli eftir þeim leiðum sem fóstrið gerir á meðgöngu.“
Þórarinn segir að þessi rannsókn auki skilning manna á þroskun og sérhæfingu lungna.
„Jafnframt mun vefjaræktunarlíkanið gera okkur kleift að skilja betur tilurð og þróun lungnasjúk- dóma. Vefjaræktunarlíkanið mun nýtast til lyfjaprófunar sem mun geta nýst samfélaginu í heild.“