Valgerður Hjartardóttir MA frá Félagsráðgjafardeild
Tilgangur verkefnisins, sem var þróunarverkefni meðal annars byggt á heimildaöflun, var að kanna þörfina á mikilvægi þess að ræða við börn þegar foreldrar greinast með krabbamein og þróa leiðir til að koma til móts við þá þörf. Þetta kemur fram í útdrætti á lokaverkefni Valgerðar Hjartardóttur við Háskóla Íslands til MA-gráðu í fjölskyldumeðferð.
Markmið verkefnis Valgerðar voru að auðvelda foreldrum sem greinast með krabbamein að eiga samtal við börn sín um sjúkdóm, læknismeðferð og svara spurningum þeirra. Að auka skilning foreldra á líðan barna þeirra þegar foreldrar greinast með krabbamein og styrkja þá í að takast á við foreldrahlutverkið við breyttar aðstæður. Að stuðla að bættri líðan barna, unglinga og foreldra við erfiðar aðstæður. Að fyrirbyggja geðraskanir barna og unglinga vegna langvarandi veikinda foreldris.
Valgerður Hjartardóttir
Markmið verkefnis Valgerðar voru að auðvelda foreldrum sem greinast með krabbamein að eiga samtal við börn sín um sjúkdóm, læknismeðferð og svara spurningum þeirra.
Í þáttaröðinni Fjársjóður framtíðar, þar sem sjónum er beint að rannsóknum við Háskóla Íslands, er rætt við Valgerði um rannsóknina og barnabókina „Krabbameinið hennar mömmu“ sem er afrakstur verkefnisins. Bókin er hugsuð til stuðnings fyrir foreldra með krabbamein til að skapa umræður og spurningar barna um sjúkdóm, meðferðir, tilfinningar og þær breytingar sem geta átt sér stað hjá fjölskyldunni.
Sagan er um stúlkuna Eddu, sem er 7 ára, tilveru hennar og fjölskyldu hennar þegar móðir hennar fær brjóstakrabbamein. Formáli er fyrir foreldra um tilgang bókar og aftast í bók eru orðskýringar fyrir börn á fjöldamörgum hugtökum sem fylgja krabbameini almennt.
Heimildir eru almennt einhuga um að það sem reynist börnum og unglingum hjálplegt þegar foreldri er alvarlega veikt er stuðningur foreldris sem er frískt eða annarra fjölskyldumeðlima, stöðugleiki í umhverfi barnsins, að halda daglegum venjum eins og ástundun skóla, íþrótta, tómstunda og félagslífs, reglulegar máltíðir og nægjanlegur svefn.