Karl Skírnisson, dýrafræðingur við Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum
Þekkingu á sníkjudýrategundum í villtum fuglum, sem jafnvel geta borist í menn, hefur fleygt fram á undanförnum árum og áratugum. Það er ekki síst fyrir tilstilli rannsókna við Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum. Í sjónvarpsþáttaröðinni Fjársjóður framtíðar hittum við Karl Skírnisson, dýrafræðing við tilraunastöðina, en hann hefur um árabil stundað slíkar rannsóknir í samvinnu við innlenda og erlenda sérfræðinga – ekki síst á sníkjudýrum í andfuglum.
Karl Skírnisson
„Rannsóknir á dauðu fuglunum leiddu í ljós mikið smit af völdum fjölmargra sníkjudýrategunda.“
Kveikjan að rannsóknunum var mikill æðarkolludauði sem rakinn var til þörungablóma á Húnaflóa vorið 1992. „Rannsóknir á dauðu fuglunum leiddu í ljós mikið smit af völdum fjölmargra sníkjudýrategunda. Í framhaldinu var gerð sérstök rannsókn á sníkjudýrabyrði æðarfugla og nú eru þekktar ríflega 40 tegundir í stofninum hér við land,“ segir Karl.
Rannsóknirnar hafa beinst að fleiri fuglategundum, til dæmis flórgoða, álft, gæsum og öndum en einnig vaðfuglum, máfum og fálka. „Tugir sníkjudýra hafa verið greindir og greinar ritaðar um þau í erlend fagtímarit. Þar eru oft á ferðinni áður óþekktar tegundir í vísindaheiminum,“ segir Karl.
Lirfur sumra sníkjudýranna geta valdið mönnum skaða. „Þegar sundmannakláði var greindur á Íslandi í fyrsta sinn árið 1997 hófust rannsóknir á blóðögðutegundunum sem hér lifa í fuglum. Í ljós kom að ýmsir andfuglar eru lokahýslar þessara sníkjudýra sem lifa sem lirfur í ferskvatnssniglum hér á landi. Þessar lirfur geta borað sig inn í gegnum húð manna sem baða sig eða vaða þar sem lirfurnar lifa í vatninu. Fólk getur í framhaldinu fengið heiftarleg útbrot,“ segir Karl enn fremur.
Á síðustu árum hefur Karl beint sjónum sínum að sníkjudýrum í rjúpum. „Þær rannsóknir hafa leitt í ljós 17 tegundir sníkjudýra sem tekið hafa sér bólfestu á ýmsum stöðum á rjúpunni. Sjö tegundanna voru áður óþekktar í vísindaheiminum og fjórar til viðbótar höfðu aldrei áður fundist í rjúpu þannig að rannsóknirnar á Keldum hafa gjörbreytt þekkingu manna á sníkjudýrasýkingum í rjúpum,“ segir Karl að lokum.
Meira af rannsóknum Karls og félaga í þáttaröðinni Fjársjóður framtíðar á RÚV.