Skip to main content

Norðurljósin til sölu

Athafnamaðurinn og skáldið Einar Benediktsson á að hafa selt norðurljósin erlendum auðkýfingi og notað til þess persónutöfrana eina. Að þessari þjóðsögu hafa Íslendingar lengi kímt en nú er svo komið að norðurljósin eru raunverulega seld en til þess er beitt ýmsum flóknum markaðstækjum. Á meðal þeirra eru samfélagsmiðlar. Svokallaðar norðurljósaferðir eru orðnar snar þáttur í framboði vetrarferða og í þáttaröðinni Fjársjóður framtíðar fjöllum við um viðamikla rannsókn við Háskóla Íslands sem tengdist hagnýtingu þessarar náttúruauðlindar.

„Markmiðið er að draga fram áberandi meginstef í markaðssetningu norðurljósaferða á Facebook og lýsa því hvernig ferðamenn eru þátttakendur í ímyndarsköpun landsins í gegnum myndbirtingar á samfélagsmiðlinum,“ segir Karen Möller Sívertsen en hún var MS-nemi við Líf- og umhverfisvísindadeild þegar hún vann að rannsókninni. Karen segir okkur frá þessari rannsókn í nýrri þáttaröð um Fjársjóð framtíðar sem sýnd er á RÚV á miðvikudagskvöldum í maí og byrjun júní.

Þáttur Karenar í rannsókninni var liður í meistaraverkefni hennar en rannsóknin tengdist alþjóðlegu verkefni um þróun vetrarferðaþjónustu á norðurslóðum. Því var stýrt frá Háskólanum í Finnmörku í Noregi. Þátttakendur voru frá Finnlandi, Bandaríkjunum, Bretlandi auk Íslands og Noregs. „Kveikjan að þessum hluta verkefnisins var efling norðurljósaferðamennsku í norðurhluta Skandinavíu og á Íslandi,“ segir Karen. 
Gunnar Þór Jóhannesson og Katrín Anna Lund leiddu verkefnið en þau eru dósentar í ferðamálafræði. Þau segja að engar íslenskar rannsóknir hafi verið gerðar á markaðsefni norðurljósaferða og að erlendar rannsóknir séu einnig fáar. „Norðurljósin eru afar áhugavert viðfangsefni,“ segir Gunnar Þór. „Það er ekki hægt að ganga að þeim vísum og það myndar bæði áskoranir og möguleika á að skapa einstaka upplifun fyrir ferðafólk.“

Þau Katrín Anna og Gunnar Þór voru öðru fremur að draga fram hvernig samspil óreiðu eða óvissu og skipulagningar er sífelld áskorun og endalaust viðfangsefni þeirra sem bjóða upp á norðurljósaferðir.

Karen Möller Sívertsen, Gunnar Þór Jóhannesson og Katrín Anna Lund

„Norðurljósin eru afar áhugavert viðfangsefni. Það er ekki hægt að ganga að þeim vísum og það myndar bæði áskoranir og möguleika á að skapa einstaka upplifun fyrir ferðafólk.“

Karen Möller Sívertsen, Gunnar Þór Jóhannesson og Katrín Anna Lund

„Um leið sjáum við hvernig þátttaka í þessu samspili virðist vera stór þáttur í aðdráttarafli norðurljósanna fyrir ferðamenn.“ Katrín Anna segir að norðurljósin hafi mikið táknrænt og jafnvel andlegt gildi fyrir marga ferðamenn á meðan sumir séu aðeins að merkja í boxið – að nú séu þeir búnir að sjá norðurljós. „Merking norðurljósanna og upplifun í tíma og rúmi er misjöfn sem gerir það mjög áhugavert viðfangsefni.“  Karen segir okkur meira af norðurljósum og mikilvægi þeirra fyrir ferðaþjónustuna í nýju þáttaröðinni.

Öll þrjú segja þau hagnýtt gildi rannsóknarinnar skýrt og ekki síst í þeim hluta sem Karen vann. Líklegt er að rannsóknarverkefni Karenar nýtist í orðræðu um notkun ljósmynda í markaðsskyni á samfélagsmiðlum eins og Facebook. Rannsóknin muni þannig hafa hagnýtt gildi fyrir þá sem stunda markaðssetningu innan ferðaþjónustunnar.

Norðurljós
Norðurljós