Guðfinna Aðalgeirsdóttir, prófessor við Jarðvísindadeild
Vísindamenn í jöklafræði leita stöðugt leiða til að betrumbæta líkön sem herma mögulega þróun jökla og viðbrögð þeirra við loftslagsbreytingum. Þannig eru þekktar veðurfars- og jöklabreytingar í fortíðinni t.d. notaðar til að stilla af líkönin. Nú er meðal annars unnið að því að bæta spáhæfni orkubúskapslíkana sem notuð eru til að reikna leysingu jökla og mögulega nýtingu á leysingarvatninu til orkuvinnslu.
„Við höfum mælt orkubúskap á sjálfvirkum veðurstöðvum í samvinnu við Landsvirkjun í um tvo áratugi og núna er stefnt að því að geta spáð fyrir um leysingu jökla í framtíðinni. Við vitum að hraðar loftslagsbreytingar hafa áhrif á bráðnun jökla eins og sést vel hér á Íslandi,“ segir Guðfinna Aðalgeirsdóttir, prófessor í jöklafræði, en hún stýrir rannsókninni. Guðfinna kemur við sögu í öðrum þætti Fjársjóðs framtíðar sem sýndur er á RÚV en þar fylgjumst við með rannsóknum vísindamanna við Háskóla Íslands á loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra á jökla.
Guðfinna Aðalgeirsdóttir, prófessor við Jarðvísindadeild
„Við höfum mælt orkubúskap á sjálfvirkum veðurstöðvum í samvinnu við Landsvirkjun í um tvo áratugi og núna er stefnt að því að geta spáð fyrir um leysingu jökla í framtíðinni."
„Líkönin sem við erum að þróa verða keyrð bæði fyrir stutt tímabil, daga og vikur, en einnig fyrir lengri tímabil en þá tölum við um áratugi og aldir.“ Guðfinna segir að vísindamenn hafi viljað nýta þá þekkingu sem aflað hefur verið á íslenskum jöklum til að bæta veðurfarslíkön og spálíkönin fyrir leysingu jökla. Hún segir að gott samstarf við dönsku veðurstofuna, þar sem veðurfarslíkönin eru þróuð, hafi orðið til þess að verkefninu var hrundið af stað hér.
„Líklegt er að endurbætur leysingalíkansins geti leitt til meiri nákvæmni í reikningum á massatapi jökla í framtíðinni, t.d. á Íslandi og Grænlandi. Spár um sjávarstöðubreytingar verða þar með áreiðanlegri. Keyrslur fyrir stutt tímabil eru gagnlegar fyrir áætlanir vatnsafl.“