Johannes Theodorus Welling, doktorsnemi við Líf- og umhverfisvísindadeild
„Margir hafa rannsakað áhrif loftslagsbreytinga á jökla og landslag síðastliðna áratugi, ekki síst á Íslandi. Hins vegar hefur nánast ekkert verið rannsakað hvaða áhrif loftslagsbreytingarnar hafa á ferðaþjónustu sem nýtir þetta landslag. Markmið rannsóknarinnar er því að kanna hvaða áhrif loftslagsbreytingar hafa á jöklaferðamennsku á Íslandi í nútíð og framtíð og þróa aðferðir fyrir þennan geira ferðamennskunnar til þess að laga sig að áhrifum af slíkum breytingum og milda þau.“ Þetta er m.a. það sem Johannes Theodorus Welling, doktorsnemi í ferðamálafræði við Háskóla Íslands, segir okkur í nýrri þáttaröð um Fjársjóð framtíðar. Áhuga Johannesar á viðfangsefninu má rekja til meistaranáms hans í umhverfis- og auðlindastjórnun við Free-háskólann í Amsterdam. Þar fór hann að velta fyrir sér hvernig loftslagbreytingar hafa áhrif á skynjun og notkun landslags.
Í nýju þáttaröðinni fjöllum við um rannsóknir vísindamanna við Háskóla Íslands á loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra á jökla.
Johannes Theodorus Welling
„Það má reikna með að jöklalandslagið á Íslandi breytist umtalsvert á næstu 20–40 árum og það mun hafa áhrif bæði á útbreiðslu og gæði þeirrar þjónustu sem boðið er upp á í jöklaferðamennsku á Íslandi.“
„Jöklar og nágrenni þeirra eru meðal vinsælustu ferðamannastaða á Íslandi. Jöklarnir eru hins vegar mjög viðkvæmir fyrir umhverfisbreytingum og hingað til hafa engar ítarlegar rannsóknir verið gerðar á því hvaða áhrif þær umhverfisbreytingar sem tengjast loftslagi hafa á ferðamennsku á Íslandi.“
Johannes beinir sjónum sínum sérstaklega að áhrifum loftslagsbreytinga á ferðamennsku í Vatnajökulsþjóðgarði en hann þekkir það umhverfi ágætlega þar sem hann hefur áður rannsakað félagsleg og efnahagsleg áhrif þjóðgarðsins á nærliggjandi sveitarfélög.
„Það má reikna með að jöklalandslagið á Íslandi breytist umtalsvert á næstu 20–40 árum og það mun hafa áhrif bæði á útbreiðslu og gæði þeirrar þjónustu sem boðið er upp á í jöklaferðamennsku á Íslandi.“
Johannes segir rannsóknina ekki aðeins veita nauðsynlega sýn á það hvaða áhrif loftslagsbreytingar koma til með að hafa á jöklaferðamennsku.
„Hún eykur einnig skilning okkar á því flókna og gagnkvæma sambandi sem er milli jökla og ferðamennsku því að greint verður hvaða þjónusta, sem tengd er þessu landslagi, er nauðsynleg til þess að efla þróun ferðamennsku á svæðum þar sem umhverfis- og samfélagsbreytingar eiga sér stað,“ segir Johannes.