Tayo van Boeckel, MS frá Jarðvísindadeild
Breiðamerkurlón, eða Jökulsárlón, er einn sérkennilegasti og jafnframt fegursti staður landsins þar sem jakar fljóta um í mestu makindum í blágrænu yfirborðinu á leið sinni til sjávar. Hugmyndir hafa verið uppi um að ísjökum gæti fjölgað mikið í lóninu samfara aukinni hlýnun. Ástæðan væri sú að Breiðamerkurjökull, sem fæðir lónið með jökum, væri að skríða hraðar í átt til sjávar samfara miklum aumi leysingavatns sem kæmist undir jökulinn. Hollendingurinn Tayo van Boeckel hefur unnið við rannsóknir á skriðhraða Breiðamerkurjökuls en jöklafræðingar Jarðvísindastofnunar Háskólans hafa undanfarið mælt yfirborðshraða hans með nákvæmu GPS-tæki. Í nýrri sjónvarpsþáttaröð um Fjársjóð framtíðar hittum við Tayo við rannsóknir á Sólheimajökli en í röðinni er sjónum m.a. beint að rannsóknum vísindamanna við Háskóla Íslands á loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra á jökla.
„Breiðamerkurjökull skríður frá Vatnajökli í Jökulsárlón eins og seigfljótandi vökvi og æðir í raun áfram um einn metra á dag,“ segir van Boeckel við okkur.
„Með mælingunum vildum við sjá hvort Breiðamerkurjökull skriði hraðar eftir því sem loftslagið hlýnaði, en það myndi leiða til þess að jökullinn þynntist og ísjökum í sjálfu lóninu fjölgaði. Afleiðingarnar yrðu þær að jökullinn myndi hopa hraðar og að lokum leiða til þess að yfirborð sjávar hækkaði,“ segir van Boeckel.
Að hans sögn er skrið jökla að mestu afleiðing leysinga- og regnvatns sem æðir undir jökulinn og verður til þess að hann rennur til á undirstöðu sinni, svona eins og þegar manni skrikar fótur.
„Ég reyni í rannsókn minni að komast til botns í því hvernig regn- og leysingavatn undir jöklinum hefur áhrif á hraða sem við mælum á yfirborðinu.“
Tayo van Boeckel, MS frá Jarðvísindadeild
„Ég reyni í rannsókn minni að komast til botns í því hvernig regn- og leysingavatn undir jöklinum hefur áhrif á hraða sem við mælum á yfirborðinu.“
Þessi kornungi vísindamaður segir að bráðnunin verði meiri eftir því sem loftslagið er hlýrra og aukið vatnsmagn nái þannig undir sjálfan jökulinn. „Það er vel hægt að ímynda sér að þetta aukna vatn leiði til aukins skriðhraða jökulsins. Hins vegar staðfestir rannsókn mín útkomu úr öðrum rannsóknum sem sýna að mikið affallsvatn leiðir ekki endilega til meiri skriðhraða.“ Hluta af skýringunni segir van Boeckel vera þá að í miklum leysingum, þegar mjög mikið vatn æðir undir jöklinum, bræði vatnið sér leið undan honum. Þá verði til ísgöng við botn jökulsins sem myndi greiðfæra farvegi sem veita vatninu frá jöklinum í stað þess að vatnið dreifist um stærra svæði. Þannig safnist vatnið, sem myndi minnka viðnámið og auka hraða jökulsins, ekki upp undir jöklinum sjálfum. „Þessi rannsókn staðfestir að við skiljum ekki enn ýmis mikilvæg ferli í jöklum. Ef við viljum spá betur fyrir um hopun jökla og hækkun á yfirborði sjávar þá eru rannsóknir eins og þessar ómissandi,“ segir Boeckel.