Jón Atli Benediktsson, prófessor við Rafmagns- og tölvuverkfræðideild
Samspil rannsókna og nýsköpunar er oft flókið ferli en stundum getur ein ljósmynd kveikt hugmynd að lausn sem fæðir af sér nýtt fyrirtæki og nýja möguleika í lækningum á mjög alvarlegum sjúkdómum, t.d. augnsjúkdómum. Þannig háttaði til að ljósmynd, tekin úr gríðarlegri hæð af Sahara-eyðimörkinni, gerði það að verkum að byltingarkennt tæki til augnlækninga varð til.
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og prófessor í rafmagns- og tölvuverkfræði, og Einar Stefánsson, prófessor í augnlækningum við Læknadeild, hófu samstarf sitt eftir að þeir komust að því hversu fjarkönnunarmyndum, eins og ofangreindri mynd af Sahara, svipar til mynda af augnbotnum manna.
Eitt afsprengi samvinnu þeirra tveggja, nemenda þeirra og nokkurra annarra er fyrirtækið Oxymap ehf. Með tilurð Oxymap varð sérþekking Jóns Atla á fjarkönnun partur af mikilvægri þróun á lækningatæki sem Oxymap ehf. selur nú um víða veröld til súrefnismælinga í augnbotnum án inngrips. Fjarkönnun felst í því að taka stafrænar myndir úr flugvélum og gervitunglum og vinna úr þeim hvers kyns upplýsingar um yfirborð jarðarinnar, þ. á m. jarð- og gróðurfræðilegar. Í tilviki Oxymap beinist leitin hins vegar að því agnarsmáa og það er túlkað með aðferðum læknavísindanna.
Jón Atli Benediktsson
„Með rannsóknum og bættri tækni hafa fjarkönnunarmyndir orðið æ umfangsmeiri og flóknari á síðustu árum og að sama skapi mikilvægari og nýtast á fleiri sviðum en áður,“
Áhersla á fjarkönnunarrannsóknir hefur aukist gríðarlega undanfarin ár og hefur Háskóli Íslands verið mjög framarlega á því sviði, ekki síst fyrir tilverknað Jóns Atla og samstarfsmanna hans í Rafmagns- og tölvuverkfræðideild, en aðferðir þeirra við úrvinnslu fjarkönnunarmynda, sem kynntar hafa verið í vísindatímaritum, hafa vakið mikla athygli víða um heim.
„Með rannsóknum og bættri tækni hafa fjarkönnunarmyndir orðið æ umfangsmeiri og flóknari á síðustu árum og að sama skapi mikilvægari og nýtast á fleiri sviðum en áður,“ segir Jón Atli en hann er einmitt í viðtali í Fjársjóði framtíðar, nýrri þáttaröð um rannsóknir við Háskóla Íslands.
„Fjarkönnun er Íslendingum mikilvæg og hefur fjarkönnunartækni verið notuð hérlendis, t.d. við kortlagningu og eftirlit á gróðri og gróðurbreytingum, landnotkun og jöklabreytingum. Fjarkönnunarmyndir hafa einnig verið notaðar til að meta hita- og landhæðarbreytingar jarðhitasvæða og virkra eldfjalla auk eftirlits með hafís og hitastigi sjávar. Í nánustu framtíð má alveg gera ráð fyrir að reglubundin fjarkönnun gæti orðið lykilþáttur í að vakta fiskimiðin, sem íslenska þjóðin byggir afkomu sína að miklu leyti á.“