Guðmundur nýr forseti Hugvísindasviðs Háskóla Íslands
Dr. Guðmundur Hálfdanarson, Jóns Sigurðssonar prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, hefur verið ráðinn forseti Hugvísindasviðs Háskóla Íslands.
Guðmundur lauk doktorsprófi í evrópskri félagssögu frá Cornell-háskóla í Bandaríkjunum árið 1991 en áður hafði hann lokið meistaraprófi í sagnfræði frá sama skóla (1985). Guðmundur stundaði þar áður nám í Svíþjóð og á Íslandi og lauk m.a. bakkalárprófi í sagnfræði og fornleifafræði frá Háskóla Íslands árið 1980 og kandídatsprófi í sagnfræði frá sama skóla tveimur árum síðar.
Guðmundur var skipaður í stöðu Jóns Sigurðssonar prófessors við Háskóla Íslands árið 2012. Hann var ráðinn lektor í sagnfræði árið 1991, varð dósent í sömu grein árið 1993 og loks prófessor árið 2000. Hann er afkastamikill fræðimaður á sviði hugvísinda og hefur birt mikið bæði á alþjóðlegum og innlendum vettvangi. Hann er aðalritstjóri Scandinavian Journal of History og var einn þriggja ritstjóra ritraða CLIOHRES-öndvegisnetsins og hefur ritstýrt fjölda bóka.
Þá hefur Guðmundur tekið þátt í og leitt fjölda rannsóknaverkefna sem hafa hlotið styrki úr innlendum og erlendum samkeppnissjóðum og hafa þau m.a. skilað árangri í birtingum og rannsóknaverkefnum nemenda. Hann hefur m.a. verið annar aðalstjórnandi öndvegisverkefnanna CLIOHRESnet og The Untold Story (styrkt af evrópskum rannsóknasjóði) auk þess sem hann hefur setið í stjórnum Representation of the past og NHIST (bæði styrkt af ESF). Þá hefur hann unnið að fjórum stórum evrópskum þróunarverkefnum.
Guðmundur hefur gegnt mikilvægum stjórnunarstörfum innan Háskóla Íslands og hefur setið í fjölda stjórna og ráða, bæði innan Háskóla Íslands og í þágu íslensks og alþjóðlegs vísindasamfélags.
Guðmundur tekur við starfinu af Ástráði Eysteinssyni, prófessor í almennri bókmenntafræði, hinn 1. janúar 2016.