Háskóli Íslands tekur við rekstri Nordic Centre Fudan University
Fulltrúar frá Fudan-háskóla í Shanghai í Kína og aðildarskólum samnorræns seturs við háskólann, Nordic Centre Fudan University, komu saman til fundar í Háskóla Íslands á dögunum. Háskóli Íslands hefur nýverið tekið við rekstri aðalskrifstofunnar og mun sinna því hlutverki næstu þrjú árin.
Nordic Centre Fudan University var sett á laggirnar við Fudan-háskóla árið 1995. Nítján norrænir háskólar eiga aðild að setrinu, þar á meðal Háskóli Íslands. Hlutverk setursins er m.a. að aðstoða nemendur og starfsfólk frá aðildarháskólum á ýmsan hátt og styðja við samstarf milli norrænna og kínverskra nemenda og vísindamanna, t.d. með því að bjóða upp á ýmis námskeið, aðstöðu til rannsókna, styrki til rannsóknarferða og ráðstefnuhalds og ýmsa menningarviðburði.
Meðal þeirra sem sóttu fundinn var Chen Zhimin, vararektor Fudan-háskóla. Hér er hann ásamt Jóni Atla Benediktssyni, rektor HÍ, og Geir Sigurðssyni, prófessor í kínverskum fræðum og nýjum stjórnarformanni Nordic Centre Fudan University. MYND/Gunnar Sverrisson
Umsjón með aðalskrifstofu setursins flyst á milli aðildarskólanna á þriggja ára fresti og nýverið tók Háskóli Íslands við rekstri hennar. Geir Sigurðsson, prófessor í kínverskum fræðum við HÍ, er því orðinn stjórnaformaður stofnunarinnar en Alþjóðasvið HÍ annast stjórn- og fjársýslu setursins sem felur m.a. í sér veita starfsfólki setursins stuðning frá Norðurlöndum í störfum þeirra, samskipti milli aðildarskólanna, bókhald og undirbúning og eftirfylgni stjórnar- og aðalfunda.
Aðalfundur Nordic Centre Fudan University fór fram í Háskóla Íslands á dögunum en hann sóttu fulltrúar frá aðildarskólum frá öllum norrænu ríkjunum og Fudan-háskóla, þar á meðal frá setrinu sjálfu. Meðal fundargesta var Chen Zhimin, vararektor Fudan-háskóla, sem hitti m.a. Jón Atla Benediktsson, rektor HÍ, í heimsókn sinni.
Á aðalfundinum var m.a. farið yfir umsóknir um styrki á vegum setursins, fjárhagsáætlun fyrir næsta ár, fjallað um breytingar á samþykktum setursins og 30 ára afmæli setursins sem verður á næsta ári.