Skip to main content
5. september 2024

Algengustu mistökin að stjórnendur grípa of seint inn í

Algengustu mistökin að stjórnendur grípa of seint inn í - á vefsíðu Háskóla Íslands

Hvernig á stjórnandi að bregðast við tilkynningu um einelti, kynbundna áreitni, kynferðislega áreitni eða ofbeldi á vinnustað? Þessari spurningu og nokkrum fleirum svarar Unnur Ásta Bergsteinsdóttir, lögmaður og eigandi hjá MAGNA lögmönnum, í viðtali sem við tókum við hana á dögunum. Hún kennir á námskeiði hjá Endurmenntun HÍ um EKKO (einelti, kynbundin áreitni, kynferðisleg áreitni og ofbeldi) og segir vitund um þessi mál hafa aukist töluvert.

„Ég hef orðið vör við að stjórnendur hafa meiri þekkingu en áður á málaflokknum og vilja til þess að kynna sér hann. Þá hef ég fundið almennt fyrir aukinni umræðu í samfélaginu, sem er alltaf af hinu góða. Þetta skiptir mjög miklu máli þar sem grundvöllur fyrir góðum vinnustað og góðri vinnustaðamenningu er fólginn í góðum og heilbrigðum samskiptum og samvinnu starfsfólks,“ segir Unnur Ásta.

Á vinnustöðum þar sem ekki er tekið á EKKO-málum og starfsfólk fær ekki fræðslu um málefnið segir Unnur Ásta að sé augljós hætta á vanlíðan starfsmanna og heilsu þeirra geti verið ógnað. Það sé lögbundin skylda vinnustaða að tryggja starfsfólki öruggt og heilbrigt starfsumhverfi og því sé afar mikilvægt að góðir verkferlar séu til staðar; þeir séu einnig í samræmi við lög og reglur og að sjálfsögðu að þeim sé svo fylgt þegar á reyni. „Það er einnig mikilvægt að hafa í huga að EKKO-mál þar sem t.d. einungis tveir einstaklingar koma við sögu getur haft áhrif á allan starfsmannahópinn og valdið vanlíðan margra.“

Minni afköst starfsfólks og aukin orðsporsáhætta fyrirtækja

Til viðbótar bendir Unnur Ásta á að vanlíðan starfsfólks leiði að lokum til minni afkasta og minni arðsemi fyrirtækisins sjálfs. Að sama skapi sé fjárhagslegur ávinningur fyrir fyrirtæki að tryggja góða verkferla í EKKO málum í samræmi við kröfur laga og reglugerða sem gilda á sviðinu. „Það er einnig orðsporsáhætta sem fylgir því fyrir fyrirtæki að taka ekki með réttum hætti á EKKO-málum enda ekki ólíklegt að viðskiptavinir velji frekar að skipta við þau fyrirtæki sem leggja áherslu á að hlúa að starfsfólki.“

Unnur bendir á að æ algengara sé að vinnustaðir bregðist við EKKO-málum með réttum hætti og séu með viðbragðsáætlun við málum sem er fylgt eftir þegar slík mál komi upp en því miður sé það ekki alltaf raunin. Henni finnst þó vera að færast í aukana að vinnustaðir leiti sér sérfræðiráðgjafar þegar slík mál komi upp og það geti verið heilmikill ávinningur í því. Það leiði gjarnan til þess að starfsfólk sem eigi í hlut beri meira traust til málsmeðferðarinnar og þess farvegar sem málið fari í vegna þess að óháður aðili sé fenginn að málinu.

Tíð fræðsla og aðgengilegir verkferlar

„Ég held að algengustu mistökin séu að stjórnendur grípi of seint inn í þegar samskiptavandi eða EKKO-tilvik koma upp á vinnustað. Stundum er ástæða þess að starfsfólk bíður of lengi með að upplýsa yfirmenn um atvik sem hafa komið upp í vinnunni, en þá verður að skoða hvers vegna það er.“ Lykillinn að því að tryggja að stjórnendur grípi snemma inn í þegar þörf sé á og starfsfólk tilkynni samskiptavanda eða EKKO-tilvik, sé að til staðar séu skýrir og aðgengilegir verkferlar. „Starfsfólk þarf að vita hvert það getur leitað ef EKKO-tilvik koma upp og þarf að þekkja hvaða þýðingu það hefur ef þau tilkynna um slíkt. Hér skiptir einnig miklu máli að stjórnendur og allt starfsfólk fái með jöfnu millibili viðeigandi fræðslu um málaflokkinn og þær reglur sem gilda.“

Erfiðustu málin þegar um nána samstarfsfélaga er að ræða

Aðspurð segir Unnur Ásta að EKKO-mál séu í eðli sínu flókin og erfið. „Flóknast er kannski þegar þessi mál koma upp á vinnustað og þeir sem eiga í hlut eru nánir samstarfsfélagar sem þurfa að geta átt samskipti vinnunnar vegna. Þá er mikilvægt að stjórnendur leggi mat á hvernig skuli haga vinnuaðstæðum á meðan málið er til skoðunar og að tekið sé tillit til allra hlutaðeigandi þannig öryggi og heilsa þeirra sé tryggð með sem bestum hætti.“

Unnur Ásta segist hafa fengið mjög góð viðbrögð við námsefninu og námskeiðinu. Hún reyni að setja efnið fram á þann hátt að það nýtist sem best og sé praktískt fyrir stjórnendur. „Breiður hópur stjórnenda úr fjölmörgum geirum hafa sótt námskeiðið og hefur það verið einstaklega ánægjulegt þar sem það leiðir til þess að mjög líflegar umræður skapast. Einnig hefur starfsfólk sem starfar við mannauðsmál sótt námskeiðið, s.s. mannauðsráðgjafar og jafnvel öryggistrúnaðarmenn á vinnustöðum. Ég væri til í að sjá fleiri millistjórnendur sækja námskeiðið, þar sem allir stjórnendur sem hafa mannaforráð geta að mínu mati haft mikið gagn af því að þekkja vel þær reglur sem gilda á sviðinu.“

Námskeiðið Viðbrögð stjórnenda við tilkynningu um EKKO á vinnustað hefst 26. september og snemmskráningarfrestur er til og með 16. september.

Unnur Ásta Bergsteinsdóttir