Vel sóttur Verkefnastjórnunardagur

Ráðstefnan Verkefnastjórnunardagurinn (Project Management Day) var haldin í fyrsta sinn í Háskóla Íslands þann 16. maí. Hún var afar vel sótt og hlaut mikla athygli hjá sérfræðingum og fyrrverandi og núverandi nemendum
Tvær námsbrautir innan Viðskiptafræðideildar stóðu fyrir viðburðinum, MS-námsbraut í verkefnastjórnun og MA-námsbraut í alþjóðaviðskiptum og verkefnastjórnun. Inga Minelgaite prófessor hefur umsjón með báðum námsleiðunum.
Ráðstefnan var með frumlegu sniði og var dagskráin tvískipt. Í fyrri hlutanum voru flutt stutt erindi og farið var yfir fjölbreytt efni í verkefnastjórnun. Eitt þekktasta nafnið á sviði verkefnastjórnunar á heimsvísu, dr. Reinhard Wagner, hélt aðalerindið en það bar yfirskriftina „Er verkefnastjórnun enn þörf á tímum gervigreindar?“ Aðrir fyrirlesarar, bæði innlendir og erlendir, fjölluðu um gervigreind sem verkefnateymi, PMO hjá Orku náttúrunnar, eldvirkni í Reykjanesbæ – sjónarhorn verkefnastjóra og hvernig á að láta verkefnastjórnunargráðuna virka. Inga Minelgaite prófessor, Aðalbjörn Þórólfsson, formaður Verkefnastjórnunarfélags Íslands, og Mladen Vukomanović, forseti IPMA, opnuðu ráðstefnuna.
Í seinni hluta ráðstefnunnar sóttu þátttakendur eina af fjórum vinnustofum með verkefnum eða umræðum. Niðurstöður úr öllum vinnustofunum voru kynntar í lokahluta ráðstefnunnar.
Nýlega hlaut MS-nám í verkefnastjórnun viðurkenningu frá IPMA, einum stærstu samtökum fagfólks í verkefnastjórnun í heiminum. Þá barst metfjöldi umsókna í námsleið í alþjóðaviðskiptum og verkefnastjórnun, sem hófst fyrir réttu ári, á þessu ári.
Viðburðurinn var skipulagður í samstarfi við Verkefnastjórnunarfélag Íslands og var haldinn með stuðningi sjóðs sem styður samfélagsvirkni starfsfólks skólans.
Myndir frá ráðstefnunni má finna hér að neðan.
Fjölmenni sótti ráðstefnuna Verkefnastjórnunardaginn þann 16. maí. MYND/Kristinn Ingvarsson