Skip to main content
20. maí 2024

Háskólalestin brunar á Húsavík 

Háskólalestin brunar á Húsavík  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Háskólalestin er að kynda kolin og brunar senn af stað til Húsavíkur þar sem hún stoppar dagana 21. og 22. maí. Þar verður bæði boðið upp á valin námskeið úr Háskóla unga fólksins fyrir eldri grunnskólanema í Borgarhólsskóla og opið vísindahús í sal skólans fyrir alla bæjarbúa og nærsveitarfólk sem verður haldið miðvikudaginn 22. maí milli kl. 16-17.  Á opna vísindahúsinu gefst færi á að spjalla við fræðafólk og kennara í lestinni og kynnast undrum vísindanna með gagnvirkum og lifandi hætti. Öll hjartanlega velkomin og það er alveg ókeypis – ekkert að bóka – bara að mæta!
  
Þennan sama dag sitja nemendur í 7.-10.bekk í Borgarhólsskóla námskeið í Háskólalestinni þar sem meðal annars er boðið upp á tækjaforritun, íþrótta- og heilsufræði, stjörnufræði, blaða- og fréttamennsku, hvali í sýndarveruleika, fablab, sjúkraþjálfun, plöntur og tónlist, efnafræði, og það sem öll eru að tala um þessa dagana, gervigreind. Meðal kennara í lestinni eru Sprengju-Kata og Stjörnu-Sævar sem munu ekki bregðast aðdáendum sínum frekar en fyrri daginn. Háskólalestin býður kennurum á staðnum einnig upp á vinnusmiðjur og á Húsavík fara þær fram 21. maí þar sem áhersla verður á náttúruvísindamenntun.
  
Megináhersla Háskólalestarinnar er að kynna vísindi á lifandi og fjölbreyttan hátt, styðja við starf grunnskólanna og efla tengsl HÍ við landsbyggðina. Í áhöfn lestarinnar eru kennarar og nemendur við Háskóla Íslands, sem flestir hverjir eru líka leiðbeinendur í verðalunaverkefnunum Vísindasmiðju HÍ og Háskóla unga fólksins. 
  
Háskólestin hefur heimsótt hátt á fjórða tug áfangastaða um allt land og fengið einstaklega hlýjar móttökur hvert sem komið er. Það er því alltaf mikið tilhlökkunarefni að hefja ferðina ár hvert með fjölbreytta fræðslu í farteskinu en allt starf lestarinnar er skipulagt í nánu samstarfi við sveitarfélög og skóla hvers áfangastaðar.  
  
Það má því með sanni segja að mikil tilhlökkun liggi í loftinu enda verður fjölbreytt fræðsla Háskólalestarinnar fléttuð saman við framsýna krakka á hverjum stað. Hægt verður að fylgjast með lestinni á vef hennar og á Facebook-síðu lestarinnar.
  
Þess má til gamans geta að Háskólalestin hefur hlotið Vísindamiðlunarverðlaun Rannís eins og Vísindasmiðjan og Háskóli unga fólksins. 
 

Nemandi í Háskólalestinni