Karlamagnús á norrænu og keltnesku menningarsvæði á miðöldum
Bókin Charlemagne in the Norse and Celtic Worlds í ritstjórn Sifjar Ríkharðsdóttur, prófessors í almennri bókmenntafræði við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, og Helen Fulton, prófessors í miðaldafræðum við Bristol-háskólann Bretlandi, kom út í desember á nýliðnu ári. Sif ritaði einnig grein í bókina sem ber titilinn „The Norse Roland in Context“. Bókin er afrakstur af alþjóðlega rannsóknarverkefninu „Charlemagne: A European Icon“, sem styrkt var af Leverhulme Trust í Bretlandi. Charlemagne in the Norse and Celtic Worlds er fimmta bindið sem kemur út í ritröð á vegum verkefnisins.
Bókin fangar í fyrsta skipti auðlegð Karlamagnúsarhefðarinnar yfir norræna og keltneska menningarsvæðið á miðöldum, þar með talið Ísland, Noreg, Danmörku, Svíðþjóð, Írland og Wales. Í bókinni er farið yfir útbreiðslu franskra hetjuljóða (chansons de geste) og annarra minja um Karlamagnús, þýðingar þeirra á hin mismunandi tungumál og áhrif þeirra á innlenda bókmenntahefð sem og menningarlegar, pólitískar og bókmenntalegar forsendur verkanna. Bókin rekur þau hugðarefni sem sameina norræna og keltneska menningarsvæðið hvað varðar miðlun og skilning á sögninni, en meðal annars er fjallað um það hlutverk sem Karlamagnúsar gegndi sem táknmynd pólitískra, menningarlegra eða trúarlegra skoðana innan mismunandi menningarhópa og á mismunandi tímabilum. Enn fremur er að finna yfirlit yfir og umfjöllun um handritavarðveislu, uppruna og þróun sagnarinnar, hugmyndafræðilegt gildi hennar, aðlaganir og áhrif af sögninni á hverju tungumáli og menningarsvæði fyrir sig sem og síðari tíma viðtökur. Bókin hefur að geyma heildaryfirlit yfir norræna og keltneska móttöku á Karlamagnússögninni og arfleifð hennar og leiðir lesendur inn í miðaldaheim norrænna og keltneskra hefðarmanna, þýðenda og áheyrenda.
Í bókinni er að finna greinar eftir þekkta fræðimenn á sviðinu, þar með talið Massimiliano Bampi, Claudia Bornholdt, Aisling Byrne, Luciana Cordo Russo, Jon Paul Heyne, Susanne Kramarz-Bein, Erich Poppe, Annalee C. Rejhon og Hélène Tétrel til viðbótar við ritstjóra.
Sif stundaði nám við Háskóla Íslands, Háskólann í Konstanz í Þýskalandi, North Carolina háskólann í Chapel Hill og Washington-háskóla í St. Louis í Bandaríkjunum en hún lauk doktorsprófi með tvöfaldri gráðu í almennri bókmenntafræði og enskum bókmenntum. Hún hefur starfað sem fræðimaður við Háskóla Íslands frá 2011 og rannsóknir hennar hafa beinst að menningarstraumum á miðöldum sem og tilfinningum og miðlun þeirra í bókmenntum. Hún hefur flutt fjölda fyrirlestra um rannsóknir sínar víðs vegar og birt greinar, bókakafla og bækur bæði hérlendis og erlendis. Hún hefur tekið þátt í og stýrt fjölda rannsóknarverkefna, nú síðast þriggja ára alþjóðlegu rannsóknarverkefni sem styrkt var af Rannís og beindist að miðlun tilfinninga í bókmenntum.
Nánari upplýsingar um bókina er að finna á vefsíðu Boydell & Brewer.