Nýtt rit um raddir í miðaldabókmenntum
Út er komin bókin Medieval Literary Voices: Embodiment, Materiality and Performance í ritstjórn Sifjar Ríkharðsdóttur, prófessors í almennri bókmenntafræði við Íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, og Louise D’Arcens, prófessors í enskum bókmenntum við Macquarie-háskólann í Sydney í Ástralíu. Að auki ritaði Sif grein í bókina sem ber titilinn: „Voice, materiality and history in St Erkenwald and Egils saga Skallagrímssonar.“
Í bókinni er að finna samansafn greina eftir fræðimenn á sviði miðaldafræða sem takast allir á við hugtakið „rödd“ á mismunandi vegu. Fjallað er um raddir í textum og hvernig slík textafyrirbæri geta kallað fram hughrif horfinna radda; raddir miðaldahöfunda, hljóðræn spor sem eima eftir af riturum handritanna sem og hljóðheim orða og texta í flutningi þeirra. Í greinasafninu er farið víða um bókmenntasöguna, frá klassískum verkum til nútímaverka, með áherslu á miðaldabókmenntir, þær raddir sem í þeim er að finna og hvað þær geta sagt okkur um menningarheim miðalda.
Sif stundaði nám við Háskóla Íslands, Háskólann í Konstanz í Þýskalandi, North Carolina háskólann í Chapel Hill og Washington-háskóla í St. Louis í Bandaríkjunum en hún lauk doktorsprófi með tvöfaldri gráðu í enskum bókmenntum og almennri bókmenntafræði. Hún hefur starfað sem fræðimaður við Háskóla Íslands frá 2011 og rannsóknir hennar hafa beinst að menningarstraumum á miðöldum sem og tilfinningum og miðlun þeirra í bókmenntum. Hún hefur flutt fjölda fyrirlestra um rannsóknir sínar víðs vegar og birt greinar, bókakafla og bækur bæði hérlendis og erlendis. Hún hefur tekið þátt í og stýrt fjölda rannsóknarverkefna, nú síðast þriggja ára alþjóðlegu rannsóknarverkefni sem styrkt var af Rannís og beindist að miðlun tilfinninga í bókmenntum.
Nánari upplýsingar um bókina á vef Manchester University Press.