Námsbraut í tölvunarfræði flutt í Grósku
Námsbraut í tölvunarfræði og hugbúnaðarverkfræði við Háskóla Íslands hefur flutt starfsemi sína í nýtt húsnæði í Grósku í Vatnsmýrinni. Skrifstofur námsbrautarinnar eru á þriðju hæð í suðausturenda hússins, en á þeirri hæð er tölvuleikjafyrirtækið CCP einnig með höfuðstöðvar sínar.
Fyrir utan skrifstofur kennara er gert ráð fyrir vinnuaðstöðu fyrir meistaranema og doktorsnema, fundarrými með búnaði fyrir hugmyndavinnu og fjarfundi, upptökurými fyrir námsefni í vendikennslu og rými fyrir málstofur og viðburði sem geta bæði farið fram á staðnum og á netinu
"Í þessu samfélagi sköpunar er lögð höfuðáhersla á aðstæður til samskipta og tengsla, hvort sem það er innan hússins eða við fræðasamfélag háskólasvæðisins. Gróska hugmyndahús er ekki skrifstofubygging, heldur gróðrarstöð hugmynda, þar sem öflug fyrirtæki dafna við hlið nýrri sprota." segir meðal annars á heimasíðu Grósku.
„Við erum virkilega spennt fyrir staðnum og aðstöðunni fyrir starfsfólk og nemendur námsbrautarinnar og sérstaklega þeim möguleikum rýmisins sem eru sniðnir að okkar starfi,“ segir Matthias Book, formaður námsbrautarinnar. „Staðsetningin er algjörlega frábær. Að vera í þessu frjóa umhverfi hugmynda og nýsköpunar hér í Grósku, að geta ræktað tengslin við íslenskt tölvutæknisamfélag, stundað rannsóknir tengdar áskorunum tölvutækninnar og menntað tölvunarfræðinga og hugbúnaðarverkfræðinga framtíðarinnar hér í Vatnsmýrinni er algjörlega einstakt“.