Skip to main content
16. september 2021

Kynna niðurstöður um leiðir til sjálfbærari og gagnsærri matvælaframleiðslu

Kynna niðurstöður um leiðir til sjálfbærari og gagnsærri matvælaframleiðslu - á vefsíðu Háskóla Íslands

Niðurstöður rannsókna H2020-VALUMICS verkefnisins svokallaða, sem sérfræðingar og nemendur innan Háskóla Íslands hafa tekið þátt í, verða kynntar á lokaráðstefnu þriðjudaginn 21. september á netinu. Ráðstefnan er öllum opin.

Rannsóknaverkefnið hefur staðið yfir undanfarin rúm fjögur ár undir forystu vísindamanna og sérfræðinga innan Háskóla Íslands en það hlaut nærri 800 milljóna milljóna króna styrk úr Horizon 2020 rannsóknaáætlun Evrópusambandsins, þar af runnu um 140 milljónir króna til Háskóla Íslands.  

Í VALUMICS-verkefninu rýndu bæði vísindamenn, sérfræðingar og doktorsnemar innan Háskólans og 18 annarra stofnana í 14 Evrópulöndum, auk tveggja háskóla í Kína og Víetnam, í virðiskeðjur matvæla. Þær náðu allt frá vinnslu grunnhráefna til lokaafurða á neytendamarkaði. Markmiðið var að þróa aðferðir og líkön til auðvelda þeim sem koma að ákvörðunum um framleiðslu á matvælum að meta fyrir fram áhrif og afleiðingar stefnumótandi ákvarðana, m.a. út frá sjónarmiðum sjálfbærni- og umhverfismála, félagslegra þátta, sanngirni og gagnsæis.

Sérhver hlekkur innan virðiskeðjunnar var skoðaður ofan í kjölinn sem hluti af heildarmatvælakerfinu. Hlekkirnir eru fjölmargir og snerta ekki aðeins framleiðendur sjálfa heldur einnig stefnumótendur og stjórnmálafólk sem hafa með ákvörðunum sínum áhrif á það umhverfi sem matvæli verða til í. 

Í verkefninu var byggt á tilviks- og ferilrannsóknum þar sem framleiðsla tiltekinna vara, hveitis, mjólkurvöru, nautakjöts, lax og tómata, var skoðuð en unnið var náið með framleiðendum og hagaðilum virðiskeðjanna. 

Rannsóknirnar fólu m.a. í sér greiningu á ákvörðunum og stefnumótun stjórnvalda, kortlagningu hráefna- og upplýsingaflæðis innan virðiskeðja matvæla, vistferilgreiningar, neytendahegðun, bestun vöruflæðis og efnahagslegri greiningu og líkanagerð, m.a. með það fyrir augum að tryggja sanngjarna virðisdreifingu innan keðjunnar. Verkfærin sem þróuð hafa verið geta því m.a. nýst öllum þeim sem að koma að virðiskeðjum matvæla, þar með talið matvælaframleiðendum, þjónustu- og flutningsaðilum, neytendum og stjórnvöldum.  

Meðal áhugaverðra vísindagreina sem tengjast viðfangsefninu og vísindamenn innan Háskólans hafa leitt má nefna greinar sem snerta sanngirni innan fæðukeðja (Operationalization of Interorganizational. Fairness in Food Systems: From a Social Construct to Quantitative Indicators) og stefnu um sjálfbæra neyslu í Evrópu (Stakeholder perceptions of policy tools in support of sustainable food consumption in Europe: policy implications). 

Á lokaráðstefnu VALUMICS-verkefnisins, sem haldin verður þann 21. september á netinu, verður farið nánar í afrakstur þess og opnað á umræður um niðurstöðurnar og hvernig þær geta nýst í stefnumótun í matvælaframleiðslu innan Evrópu. Skráning á ráðstefnuna fer fram á vef verkefnsins en þar er líka hægt að fræðast nánar um það. 
 

Þátttakendur í VALUMICS