Skip to main content
9. ágúst 2021

Afdráttarlaus skýrsla Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar

Afdráttarlaus skýrsla Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar - á vefsíðu Háskóla Íslands

Í dag kemur út skýrsla sérfræðingahóps Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC). Skýrslan er mjög viðamikil og fjallar um breytingar sem hafa átt sér stað í lofthjúpi, hafi, freðhvolfi, á landi og í lífríki. Úttektir nefndarinnar fjalla um vísindalega þekkingu á loftslagsbreytingum af mannavöldum, um afleiðingar þessara breytinga og um aðlögun og viðbrögð til þess að sporna við þessum breytingum. Guðfinna Aðalgeirsdóttir, prófessor við Jarðvísindadeild Háskóla Íslands, er einn af aðalhöfundum skýrslunnar en hún tók þátt í að skrifa kafla 9 sem fjallar um breytingar í hafi, freðhvolfi (jöklar, ísbreiður, hafís, snjór, sífreri) og sjávarstöðubreytingar. Þetta er í fyrsta skipti sem Íslendingur er einn af aðalhöfundum skýrslunnar, en íslenskir vísindamenn hafa lagt til efni í fyrri skýrslur nefndarinnar.  

Skýrslan sýnir afdráttarlaust að loftslagsbreytingar af manna völdum hafa verið að aukast á síðustu áratugum og munu halda áfram að aukast með aukinni ákefð í aftakaveðrum, áframhaldandi rýrnun jökla og hækkun sjávarstöðu. Úttektir milliríkjanefndarinnar eru gerðar á opinn og gagnsæjan hátt. Nefndin hefur það hlutverk að taka saman vísindalegar, tæknilegar, félags- og efnahagslegar upplýsingar um loftslagsbreytingar af mannavöldum. Nefndin stundar hvorki rannsóknir né eftirlit með veðurfari, heldur eru samantektir nefndarinnar að megninu til byggðar á faglegri ritrýni og á greinum sem birtar hafa verið í ritrýndum tímaritum. Þessi skýrsla er fyrsti hluti sjöttu ritraðar sérfræðingahóps Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar og er afrakstur vinnuhóps sem fjallar um náttúruvísindi og vísindalega þekkingu á breytingum á veðurfari og loftslagskerfinu.

Meðal nýmæla í skýrslunni

Skýrslan endurspeglar mikilvægar framfarir í vísindum frá því að fyrri ritröð kom út 2013–2014. Skilningur á loftslagsbreytingum fyrri tíðar hefur aukist og að sama skapi eru framtíðarspár taldar öruggari. 

  • Nú er enn greinilegra en fyrr að athafnir mannkyns eru meginorsök margvíslegra breytinga á loftslagi. 
  • Nú liggja fyrir ítarlegri gögn sem gefa til kynna að loftslagsbreytingar geri það að verkum að ýmsir aftakaatburðir verða algengari og afdrifaríkari, þ.m.t. ákafari rigning og meiri öfgar í hitabylgjum og þurrkum. 
  • Mat á meðalhita jarðar er nú betra en fyrr og hefur það ásamt mjög heitum árum síðan 2011 hækkað mat á hlýnun jarðar. 
  • Í þessari skýrslu er kynnt besta mat hingað til á líklegri hlýnun og hækkun sjávarstöðu í framtíðinni. 
  • Í þessari nýjustu skýrslu IPCC er kynnt nýtt hugtak: loftslagstengdir áhrifavaldar (Climatic Impact Drivers; CID) sem hjálpa við að meta áhrif breytinga í eðlisþáttum loftlags (hita, úrkomu, þurrkum, snjó, vindi, strandflóðum o.þ.h.) á samfélög og vistkerfi. 
  • Samkvæmt þróaðri útreikningum en áður hafa verið tiltækir er áætlað að meira en helmingslíkur séu á að hlýnun nái 1,5°C snemma á fjórða áratug þessarar aldar, sem er fyrr en gert var ráð fyrir í sérstakri skýrslu IPCC um 1,5 °C hlýnun sem kom út árið 2018. 
  • Í þessari skýrslu er sérstök áhersla lögð á breytingar í hnattrænni hringrás vatns. Skýrslan sýnir að síðan 1950 hafa verið meiri öfgar í ákafri úrkomu og þurrkum og almennt meiri breytileiki í úrkomu víða á jörðinni. Skýrslan sýnir að við áframhaldandi hlýnun megi gera ráð fyrir áframhaldandi breytingum á hnattrænni hringrás vatns, þ.e. að almennt verði meiri uppgufun raka og meiri úrkoma þegar litið er til jarðarinnar allrar þó staðbundið geti þurrkar aukist. 
  • Þessi skýrsla sýnir að mögulegt er að takast á við loftmengun og loftslagsbreytingar samtímis. Hraður samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda ásamt stífum vörnum gegn loftmengun bæta bæði loftslag og loftgæði. 

fiskvinnsla

Mynd a) Breytingar á hnattrænum hita metnar með fornveðurfarsgögnum (heildregin grá lína,1–2000) og á grundvelli mælinga (svört lína, 1850–2020), í báðum tilvikum reiknaðar sem vik frá meðalhita 1850–1900. Skyggða gráa svæðið sýnir óvissu. Lóðrétt súla vinstra megin sýnir meðalhita (mjög líklegt bil) fyrir um 6500 árum, en það var hlýjasta nokkurra alda skeið síðustu 100 þúsund ára. Síðasta hlýskeið fyrir um 125 þúsund árum var hugsanlega hlýrra. Þessi fyrri hlýskeið stafa af hægfara breytingum á afstöðu sólar og jarðar.

Mynd b) Breytingar ársmeðalhita síðustu 170 árin (svört lína) sem vik frá meðalhita 1850–1900, borin saman við niðurstöður loftslagslíkana í CMIP6 verkefninu, en þar voru mörg loftslagslíkön látin herma breytingar í meðalhita. Myndin ber saman hermireikninga þar sem geislunarálag þróast í samræmi við aukin gróðurhúsaáhrif og náttúrulega þætti (brúnt svæði) og þar sem auknum gróðurhúsaáhrifum er sleppt (blágrænt). Heildregnar litaðar línur sýna meðaltal líkanreikninga og skyggðu svæðin sýna bilið sem niðurstöður líkananna spanna.

Skýrsla sérfræðingahóps Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar sýnir afdráttarlaust að loftslagsbreytingar af manna völdum hafa verið að aukast á síðustu áratugum og munu halda áfram að aukast með aukinni ákefð í aftakaveðrum, áframhaldandi rýrnun jökla og hækkun sjávarstöðu. En hraður samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda ásamt stífum vörnum gegn loftmengun bæta bæði loftslag og loftgæði. 

Ágrip fyrir stefnumótendur

Meginatriði skýrslunnar eru dregin saman í ágripi fyrir stefnumótendur sem kemur út samhliða skýrslunni. Þar kemur fram að athafnir manna hafa ótvírætt hitað lofthjúpinn, haf- og landsvæði. Víðtækar og hraðar breytingar í lofthjúpi, hafi, freðhvolfi og í lífríki hafa átt sér stað. Þessar breytingar eru fordæmalausar þegar litið er til síðustu alda og árþúsunda.

  • Síðustu fjóra áratugi hefur hver áratugur verið hlýrri en allir fyrri áratugir síðan samfelldar mælingar hófust (um 1850). Meðalhiti jarðar fyrstu tvo áratugi þessarar aldar var tæplega 1°C hærri en meðaltal áranna 1850–1900, eða 0,99 [með óvissubili 0,84 til 1,10] °C. Síðasti áratugur var svo enn heitari, eða 1,09 [0,95 til 1,20 ] °C að meðaltali. Til samanburðar má benda á að í Parísarsamkomulaginu skuldbinda aðildarþjóðir Sameinuðu þjóðanna sig til þess að halda hlýnun vel undir 2°C og kanna leiðir til að takmarka hlýnun við 1,5 °C.
  • Athafnir manna hafa haft áhrif á veðurlag víða í heiminum, s.s. aukna úrkomu og breytingar á úrkomumynstri, þ.m.t. monsún rigningum. Þá eru þurrkar og hitabylgjur algengari og heitari á flestum landsvæðum. Auk þess hafa hitabeltislægðir breyst; fleiri ná nú að verða öflugir fellibylir og ákafari úrkoma fylgir þeim. Áhrif manna hafa líklega gert ýmsa aftakaatburði algengari, s.s. flóð, gróður- og skógarelda.
  • Aukin gróðurhúsaáhrif verða til þess að varmi safnast upp í loftslagskerfinu. Af þessum varma fór 91% í að hita hafið, en 5% í hlýnun yfirborðs jarðar, 3% í bráðnun íss og einungis 1% fór í að hita andrúmsloftið. Aukin upptaka hafsins á CO2 úr lofthjúpnum sýrir hafið en nánast öruggt er að súrnun sjávar er af mannavöldum.
  • Jöklar hopa um alla jörðu og stóru ísbreiðurnar á Suðurskautslandi og Grænlandi tapa massa. Rýrnun ísbreiðanna og jökla utan heimskautasvæða hefur hert mikið á sér á síðustu 30 árum og hefur árlegt massatap margfaldast. 

Rýrnun Grænlandsjökuls hefur til að mynda sexfaldast á síðustu þremur áratugum og einnig er mikil aukning í massatapi á Suðurskautslandi, en massatap íss á suðurhveli hækkar sjávarborð við Ísland meira en massatap á Grænlandi. Meðalrýrnun allra jökla á jörðinni síðustu 30 árin samsvarar því að Hofsjökull og Langjökull hverfi árlega. Hafísútbreiðsla á Norðurhveli hefur dregist mjög mikið saman. Þó margir ólíkir ferlar komi hér við sögu er ljóst að athafnir mannkyns hafa haft veruleg áhrif um allt freðhvolfið (þ.e. ísa- og snjóasvæði hnattarins).

Í öllum sviðsmyndum um losun gróðurhúsalofttegunda sem sérfræðingahópurinn lagði mat á heldur hnattræn hlýnun áfram að minnsta kosti fram að miðbiki aldarinnar.

Aðgerða er þörf

Verði ekki gripið til mikils samdráttar í losun gróðurhúsalofttegunda mun að meðaltali hlýna meira en um 1,5 °C og jafnvel 2 °C á öldinni. Ýmsar raskanir munu verða á veðurlagi samfara hlýnun vegna áframhaldandi losunar gróðurhúsalofttegunda. Sem dæmi má nefna tíðari hitabylgjur og aftakaúrkomu, óvenjuháan sjávarhita, sterkari fellibylji og þurrka. Umfang hlýnunar er í beinu hlutfalli við uppsafnaða losun koltvísýrings. Því þarf að stöðva losun CO2 svo hlýnun jarðar stöðvist, auk þess sem draga þarf úr losun annarra gróðurhúsalofttegunda.

Ljóst er að hlýnun vex með aukinni losun gróðurhúsalofttegunda, en með meiri hlýnun aukast hnattrænar og svæðisbundnar breytingar á mörgum loftslagstengdum áhrifaþáttum einnig, hugsanlega með mjög skaðlegum afleiðingum, s.s. mun algengari hitabylgjum og aftakaúrkomu með mikilli áhættu fyrir samfélags- og vistkerfi, sérstaklega í þeim sviðsmyndum þar sem mest er losað.

Frekari umfjöllun er að finna á vef Veðurstofunnar.