Hlaut viðurkenningu félags háskólamenntaðra tölvunarfræðinga fyrir námsárangur í tölvunarfræði
Síðastliðinn laugardag fór fram brautskráning kandidata frá Háskóla Íslands. Við það tækifæri veitti Félag háskólamenntaðra tölvunarfræðinga (FT) Guðlaugu Agnesi Kristjánsdóttur viðurkenningu fyrir góðan námsárangur en Guðlaug útskrifaðist úr tölvunarfræði á laugardaginn með hæstu meðaleinkunn í sínum árgangi. Guðlaug fékk að gjöf bókina Transition Point: From Steam to the Singularity eftir Sean A. Culey.
FT er fagfélag sem stofnað var 15. mars 1984 en markmið félagsins er að stuðla að tengslum háskólamenntaðra tölvunarfræðinga, hvetja þá til endurmenntunar og gæta hagsmuna þeirra, auk þess sem félagið stendur fyrir fyrirlestrum, fyrirtækjaheimsóknum og árlegri kjarakönnun.
Hafsteinn Einarsson, formaður FT og lektor í tölvunarfræði við Háskóla Íslands afhenti Guðlaugu viðurkenninguna.
Verkfræði- og náttúruvísindasvið óskar Guðlaugu innilega til hamingju með viðurkenninguna og nýju háskólagráðuna