Skip to main content
9. júní 2021

Rektor í hópi 400 fremstu vísindamanna í tölvunarfræði

Rektor í hópi 400 fremstu vísindamanna í tölvunarfræði - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands og prófessor í rafmagns- og tölvuverkfræði, er í 387. sæti á lista fremstu vísindamanna heims á sviði tölvunarfræði og rafeindatækni (e. electronics) samkvæmt mati Guide2Research, vefvettvangs um rannsóknir á þessu fræðasviði. Tveir af gestakennurum Rafmagns- og tölvuverkfræðideildar eru einnig á listanum.

Guide2Research er helgað framúrskarandi rannsóknum í tölvunarfræði og geymir m.a. upplýsingar yfir mikilvægustu ráðstefnur og vísindatímarit á þessu vaxandi fræðasviði. Vettvangurinn vinnur að því að tengja saman vísindamenn á sviði tölvunarfræði og rafeindatækni og jafnframt vekja athygli á þeim vísindamönnum sem standa fremst á fræðasviðinu og hvert þeir stefna í rannsóknum sínum.

Guide2Resarch hefur undanfarin ár tekið saman lista yfir fremstu vísindamenn heims á ofangreindum fræðasviðum en þar er tekið mið af nokkrum þáttum, svo sem birtingu vísindagreina, fjölda tilvitnana í þær og þeim viðurkenningum sem vísindamennirnir hafa fengið fyrir störf sín. 

Nýr listi vettvangsins var birtur á dögunum en hann grundvallast á útttekt á frammistöðu um 6.300 vísindamanna um allan heim. Úttektin leiðir í ljósi að Jón Atli Benediktson er í 387. sæti á listanum, sem fyrr segir, en til samanburðar var hann í sæti 458 í fyrra. 

Jón Atli hefur um árabil verið í fremstu röð í heiminum í stafrænni myndgreiningu, vélrænu námi (e. machine learning) sem hann hefur beitt í fjarkönnun og greiningu heilbrigðisgagna. Fjarkönnun snýst um að vinna upplýsingar um yfirborð jarðarinnar úr stafrænum myndum sem teknar eru úr flugvélum, drónum og gervitunglum. 

Jón Atli hefur undanfarin ár einnig verið á lista hins virta greiningarfyrirtækis Clarivate Analytics yfir áhrifamestu vísindamenn heims á fjölbreyttum fræðasviðum, lista sem nefnist Highly Cited Researchers. 

Tveir gestaprófessorar við Rafmagns- og tölvuverkfræðideild Háskóla Íslands, Ian F. Akyildiz og Jocelyn Chanussot, hafa einnig verið þar á lista. Þeir eru sömuleiðis á lista Guide2Research, Akyildiz í 54. sæti og Chanussot í 1007. sæti.  

Akyildiz er prófessor emeritus við rafmagns- og tölvuverkfræðideild Georgia Institute of Technology og hefur sérhæft sig á sviði fjarskiptaverkfræði. Hann kenndi í vetur nýtt valnámskeið í hlutanetum (e. Internet of things) við Háskóla Íslands en hlutanet tengjast m.a. snjallvæðingu samfélagsins.  Akyildiz mun kenna námskeiðið aftur við HÍ á næsta ári. Chanussot er prófessor við Grenoble Institute of Technology í Frakklandi. Hann hefur sérhæft sig í fjarkönnun og hefur bæði tekið þátt í kennslu og rannsóknum innan Rafmagns- og tölvuverkfræðideildar.

Yfirlit yfir fremstu vísindamenn heims á sviði tölvunarfræði og rafeindatækni má finna á vef Guide2Research.
 

Jón Atli Benediktsson
Jocelyn Chanussot og Ian F. Akyildiz