Nemendur HÍ verðlaunaðir fyrir lokaverkefni sín um ferðamál
Á dögunum veittu Samtök ferðaþjónustunnar og Rannsóknamiðstöð ferðamála tvenn verðlaun fyrir framúrskarandi lokaritgerðir um ferðamál á Íslandi. Alls voru níu lokaverkefni tilnefnd til verðlauna á þessu ári.
Verðlaunin hlutu þau Tanja Sól Valdimarsdóttir, fyrir lokaritgerð sína í grunnnámi í ferðamálafræði, og Michaël Bishop, fyrir meistararitgerð sína í land- og ferðamálafræði en Tanja og Michaël brautskráðust bæði frá Líf- og umhverfisvísindadeild Háskóla Íslands.
Ritgerð Tönju nefnist Á ferðalagi um samfélagsmiðla. Leiðbeinandi var Gunnar Þór Jóhannesson, prófessor í ferðamálafræði við Háskóla Íslands. Ritgerðin fjallaði um hvernig samfélagsmiðlar móta ferðalög svonefndra ferðaáhrifavalda og áhrif samfélagsmiðla á ferðahegðun og sjálfsmynd þessa hóps í tengslum við ljósmyndun.
MS-ritgerð Michaëls nefnist Viðhorf almennings til miðhálendisþjóðgarðs – skilyrði fyrir samstöðu meðal notenda (e. Public Views on the Central Highland National Park: Conditions for a consensus among recreational users). Leiðbeinendur hans voru Rannveig Ólafsdóttir, prófessor í ferðamálafræði við Háskóla Íslands, og Þorvarður Árnason, forstöðumaður Rannsóknaseturs HÍ á Hornafirði. Í ritgerðinni voru könnuð viðhorf almennings til miðhálendisþjóðgarðs og til ágreiningsmála vegna nýtingar á landsvæðinu sem þjóðgarðurinn myndi ná yfir.
Lesa má nánar um lokaverkefni verðlaunahafa og önnur verkefni sem voru tilnefnd á heimasíðu RMF.
Rannsóknamiðstöð ferðamála (RMF) er samstarfsverkefni Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri og Háskólans á Hólum. Auk háskólanna þriggja tilnefna Samtök ferðaþjónustunnar og Ferðamálastofa hvor sinn fulltrúa í stjórn RMF. Markmið miðstöðvarinnar eru að efla rannsóknir á sviði ferðamála, styrkja tengsl háskólastarfs og atvinnulífs og auka þekkingu um ferðamál gegnum innlent og erlent samstarf.
Verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands óskar verðlaunahöfum innilega til hamingju með viðurkenninguna.