Rússneska - Grunndiplóma
Rússneska
Grunndiplóma – 60 einingar
Rússneska er eitt af útbreiddustu tungumálum veraldar og hafa um 150 milljónir manna rússnesku að móðurmáli. Kunnátta í rússnesku er mikilvæg fyrir pólitísk, efnahagsleg og ekki síst menningarleg samskipti við Rússland, löndin sem áður tilheyrðu Sovétríkjunum og Austur-Evrópu.
Skipulag náms
- Haust
- Rússnesk málfræði IE
- Rússnesk málnotkun IE
- Rússneskar bókmenntir I: 19. öld
- Vor
- Rússnesk málfræði IIE
- Rússnesk málnotkun IIE
- Rússland á tuttugustu öld: Sovétsaga
Rússnesk málfræði I (RÚS103G)
Inntak / viðfangsefni:
Ítarlega er farið yfir stafrófið, framburðar- og réttritunarreglur. Farið verður í orðaforða og málfræði sem ætlaður rússneskunemum á byrjendastigi, s.s.:
- nafnorð, lýsingarorð og fornöfn í nefnifalli eintölu og fleirtölu
- beyging nafnorða og fornafna í eintölu
- töluorð (1-1000)
- nútíðarbeyging sagna
- þátíðar- og framtíðarmyndun sagna og algengustu notkun sagnhorfa í nútíð og þátíð.
Nemendur fá einnig þjálfun í að setja fram einfaldar spurningar og svör og byrjað verður að kynna setningafræði einfaldra og samsettra setninga.
Áhersla er lögð á skriftarþjálfun.
Í námskeiðinu er farið yfir meginhluta þess efnis sem ætlaður er til að ná þekkingu á stigi A1.
Samhliða þessu námskeiði er gert ráð fyrir að byrjendur í rússnesku taki einnig námskeiðið RÚS104G: Rússnesk málnotkun I.
Kennsluhættir / vinnulag:
Námskeiðið krefst virkrar þátttöku nemenda. Tímarnir samanstanda af hefðbundinni kennslu sem og lifandi tal- og málfræðiþjálfun. Málfræði og málnotkun fléttast saman í kennslu. Kennsluefni byggir á töflum og yfirliti yfir málfræði, textum og æfingum af ýmsu tagi. Unnið verður með munnlegar og skriflegar æfingar. Æfingarnar byggja á orðaforða og málfræði sem nemendum á byrjendastigi er ætlað að kunna skil á.
Áhersla er lögð á að nemendur sinni heimavinnu.
Rússnesk málnotkun I (RÚS104G)
Inntak / viðfangsefni:
Ítarlega er farið yfir stafrófið og framburðarreglur. Farið verður í orðaforða sem ætlaður rússneskunemum á byrjendastigi. Nemendur fá þjálfun í að setja fram einfaldar spurningar og svör, halda uppi einföldum samræðum, segja frá sjálfum sér, fjölskyldu sinni, áhugamálum og nærumhverfi, endursegja texta og fjalla um þá. Byggt er á þeirri málfræði sem unnið er með í RÚS103G: Rússneskri málfræði I.
Byrjað verður að kynna setningafræði einfaldra og samsettra setninga. Áhersla er lögð á tal-, hlustunar- og skriftarþjálfun.
- Í námskeiðinu er farið yfir meginhluta þess efnis sem ætlaður er til að ná þekkingu á stigi A1.
- Samhliða þessu námskeiði er byrjendum í rússnesku skylt að taka námskeiðið RÚS103G: Rússnesk málfræði I.
Kennsluhættir / vinnulag:
Námskeiðið krefst virkrar þátttöku nemenda. Tímarnir samanstanda af hefðbundinni kennslu sem og lifandi tal- og málfræðiþjálfun. Kennsluefni byggir textum og æfingum af ýmsu tagi. Unnið verður með munnlegar og skriflegar æfingar. Æfingarnar byggja á orðaforða og málfræði sem nemendum á byrjendastigi er ætlað að kunna skil á.
- Áhersla er lögð á að nemendur sinni heimavinnu.
- Auk hefðbundinnar kennslu eru vikulegir tímar í málveri, sem er hluti af námskeiðinu.
Rússneskar bókmenntir I: 19. öld (RÚS106G, RÚS201G)
Fjallað verður um strauma og stefnur í rússneskum bókmenntum á 19. öld og upphafi þeirrar 20. Lesnir verða valdir textar og verk í íslenskum eða enskum þýðingum. Fjallað verður um verkin og höfunda þeirra (Púshkín, Lermontov, Gogol, Túrgenev, Dostojevskí, Tolstoj, Tsjekhov o.fl.), sem og hlutverk og stöðu bókmennta í samfélagsumræðu í Rússlandi á gullöld rússneskra bókmennta á 19. öld og við aldahvörf.
Kennsluhættir / vinnulag:
Kennsla byggir á fyrirlestrum og umræðum.
Námskeiðið er kennt á íslensku.
Rússnesk málfræði II (RÚS203G)
Inntak / viðfangsefni:
Námskeiðið byggist á orðaforða og málfræði sem ætluð er nemendum á grunnstigi. Fjallað verður um beygingu nafnorða, lýsingarorða og fornafna í fleirtölu; raðtölur, hreyfisagnir án forskeyta og notkun sagnhorfa í nafnhætti og boðhætti. Byrjað verður að fjalla um setningafræði samsettra setninga: aðalsetningar með aðaltengingu, og aðalsetningar með aukasetningu (tilvísunar-, skilyrðis- og tilgangssetningar).
- Í námskeiðinu er lokið við að fara yfir málfræði á stigi A1 og farið yfir megin hluta þeirrar málfræði sem tilheyrir stigi A2.
- Samhliða þessu námskeiði er byrjendum í rússnesku skylt að taka námskeiðið Rússnesk málnotkun II: RÚS204G
Kennsluhættir / vinnulag:
Námskeiðið krefst virkrar þátttöku nemenda. Tímarnir samanstanda af hefðbundinni kennslu sem og lifandi tal- og málfræðiþjálfun. Málfræði og málnotkun fléttast saman í kennslu. Kennsluefni byggir á töflum og yfirliti yfir málfræði og textum af ýmsu tagi. Unnið verður með munnlegar og skriflegar æfingar. Æfingarnar byggja á orðaforða og málfræði sem nemendum á byrjendastigi er ætlað að kunna skil á. Lesnir verða textar um tiltekin efni og unnið með þá á ýmsan hátt – einkum skriflega.
- Áhersla er lögð á að nemendur sinni heimavinnu.
- Auk hefðbundinnar kennslu í málfræði eru haldnir vikulegir málfræðiæfingatímar.
Rússnesk málnotkun II (RÚS204G)
Inntak/viðfangsefni:
Nemendur fá áframhaldandi þjálfun í skrift, lestri og talmáli, þannig að þeir nái tökum á að skilja og taka þátt í samræðum um hversdagsleg og menningartengd efni. Námsefnið byggir á þematísku efni; þ.e. unnið verður með ákveðin þemu sem nemendum er ætlað að geta fjallað um í samtölum, sem og munnlegri og skriflegri frásögn, (áhugamál, nám, söfn, leikhús, kvikmyndir o.fl.). Í því efni sem lagt verður fyrir er fjallað m.a. um sögu og menningu Rússlands. Sérstök áhersla verður lögð á þjálfa framburð og tónfall, bæði í talmáli og lestri.
- Í námskeiðinu er lokið við að fara yfir málnotkunarefni á stigi A1 og farið yfir megin hluta þess efnis sem tilheyrir stigi A2.
- Samhliða þessu námskeiði er byrjendum í rússnesku skylt að taka námskeiðið Rússnesk málfræði II: RÚS203G
Kennsluhættir / vinnulag:
Námskeiðið krefst virkrar þátttöku nemenda. Tímarnir samanstanda af hefðbundinni kennslu sem og lifandi talþjálfun. Málfræði og málnotkun fléttast saman í kennslu. Unnið verður með munnlegar og skriflegar æfingar. Æfingarnar byggja á orðaforða og málfræði sem nemendum á byrjendastigi er ætlað að kunna skil á. Lesnir verða textar um tiltekin efni og fjallað um þá í frásögn og samtölum.
- Áhersla er lögð á að nemendur sinni heimavinnu.
- Auk hefðbundinnar kennslu í málnotkun eru vikulegir æfingatímar í málveri.
Rússland á tuttugustu öld: Sovétsaga (RÚS206G, RÚS210G)
Í námskeiðinu er megináhersla lögð á það samfélag sem varð til eftir hrun keisaraveldisins 1917. Fjallað er um byltingarnar tvær það ár, borgarastríðið 1918-1922 og stofnun Sovetríkjanna í lok þess. Horft er sérstaklega til þess hvernig bolsévíkar sáu fyrir sér fjölþjóðlegt ríki á þriðja og fjórða áratugnum og hvernig reynt var með samyrkjubúskap og iðnvæðingu að móta sovéskt samfélag eftir sýn og aðferðum Stalínismans. Fjallað er um fangabúðakerfi Stalíns og hreinsanirnar miklu, þolraun styrjaldarinnar og áhrifin sem hún hafði á samfélagsþróun og stjórnarhætti. Farið er hraðar yfir eftirstríðsárin: þíðu Khrusjov tímans, stöðnunarskeið Brezhnev áranna og perestrojku Gorbatsjovs. Staða helstu sovétlýðvelda auk Rússlands verður skoðuð vandlega, einkum Úkraínu og rýnt í sögulega þætti sem geta varpað ljósi á innlimun Krímskagans 2014 og allsherjar innrás Rússa 2022. Í lok námskeiðsins verður rætt um ólíkar túlkanir á stöðu Rússlands í dag – hvort núverandi stjórnarfar sé tímabundið afturhvarf til fyrri hátta eða hvort Pútínstjórninni hafi tekist að skapa varanlegan klofning milli Rússlands og Vesturlanda.
Hafðu samband
Skrifstofa Hugvísindasviðs
Aðalbygging, 3.hæð - Sæmundargötu 2
Sími: 525 4400
Netfang: hug@hi.is
Skrifstofan er opin virka daga frá kl 10:00–12:00 og 13:00–15:00.
Nemendur á Hugvísindasviði geta einnig nýtt sér Þjónustuborð á Háskólatorgi. Hægt er að nálgast upplýsingar í netspjalli hér á síðunni.
Fylgstu með Hugvísindasviði:
Hjálplegt efni
Ertu með fleiri spurningar? Hér finnurðu svör við ýmsum þeirra og upplýsingar um ýmislegt annað sem gott er að hafa í huga þegar þú velur nám.