Allir smærri jöklar Íslands að hverfa
„Það er augljóst að íslenskir jöklar eru á undanhaldi líkt og annars staðar á jörðinni. Hversu lengi jökulhettur Íslands munu haldast tengist því hversu hratt hitastig muni hækka sem aftur á móti tengist notkun á jarðefnaeldsneyti um heim allan. Þegar jöklarnir hverfa mun vatnsmagn í ám minnka umtalsvert, sérstaklega á þurrum svæðum. Á Íslandi mun vatnsorkuframleiðsla breytast með minnkun jöklanna. Til lengri tíma litið mun ferðamennska tengd jöklum líka þurfa að finna nýjan farveg.“
Þetta segir jöklafræðingurinn Leif Anderson um stöðu jökla á Íslandi. Hann fékk nýlega birtar tvær greinar í þekktum jarðvísindavísindatímaritum, annars vegar í Earth and Planetray Science Letters (EPSL), og hins vegar í Quaternary Science Reviews (QSR) þar sem fjallað er um hraða bráðnun 22 jökla á Íslandi. Auk þess er sjónum beint sérstaklega að myndun og afdrifum Drangajökuls. Meðhöfundar Leif að greinunum koma frá Háskóla Íslands og Veðurstofu Íslands og frá erlendum vísindastofnunum beggja vegna Atlantshafs. Leif starfaði um tíma sem nýdoktor við Háskóla Íslands.
„Í greinunum sýnum við fram á að það hafi tekið þúsundir ára fyrir fjölmarga jökla að myndast á Íslandi og ná núverandi stærð. Við sýnum einnig fram á með nýjum útreikningum í líkani, sem miðast við bestu mögulega nálgun á loftslagi framtíðarinnar, að flestir þessara jökla munu nánast hverfa á næstu 150 árum. Í útreikningum okkar hagnýtum við okkur verkfæri sem sýnir hversu mikil áhrif við mennirnir höfum á breytingar í loftslagi,“ segir Leif. „Við metum aðstæður sem eru nauðsynlegar til myndunar og viðhalds jöklanna og hermum breytingar á jöklabúskap þeirra bæði fram og aftur í tíma. Við keyrum hermilíkanið áfram með þremur mismunandi hitaferlum sem byggðir hafa verið og eiga að endurspegla síðustu tíu þúsund ár, auk þess sem við metum niðurstöðurnar um ástand jöklanna í samanburði við líkön sem gerð hafa verið af hitaferlum í framtíð, þar sem sérstaklega er tekið mið af áhrifum á bruna jarðefnaeldsneytis og aukningu á koltvísýringi í andrúmslofti.“
Myndun jökla dreifist yfir langan tíma
„Við áætluðum hvenær jöklarnir mynduðust og jafnframt hvenær þeir munu hætta að viðhalda ísnum eftir því sem loftslagið hlýnar,“ segir Leif.
„Það kom okkur á óvart hve myndun jöklanna á Íslandi dreifðist yfir langan tíma – allt frá síðasta jökulskeiði, eins og í tilviki Öræfajökuls og Eyjafjallajökuls, og svo fram á undanfarin tvö hundruð ár eins og á við um jökulhetturnar Ok, Loðmundarjökul, Kotajökul, Hofsjökul eystri, Þrándarjökul og Torfajökul. Við sýnum fram á að landslag og hitastig sumars eru aðaláhrifavaldar á líftíma jökla á Íslandi. Það liggur fyrir að ef við drögum ekki úr notkun á jarðefnaeldsneyti munu flestir jöklar og jökulhettur á Íslandi hverfa eftir um hundrað og fimmtíu ár.“
Af norrænu bergi
Leif ber hánorrænt nafn en hann er engu að síður Bandaríkjamaður og fæddist nærri Seattle í Washington-fylki. Föðurafi hans og –amma fluttu hins vegar til Vesturheims frá Noregi og Svíþjóð og þaðan kemur nafnið. „Ég fékk áhuga á jarðfræði og að rannsaka jökla mjög ungur því foreldrar mínir tóku mig með sér í ferðir um fjalllendi og jökla í norðvesturhluta Bandaríkjanna þegar ég var strákur,“ segir Leif.
„Ævintýrin í útivistinni eru alveg mögnuð, þar sem maður þenur andlegan og líkamlegan styrk sinn til hins ítrasta. Sá lærdómur sem maður dregur af samskiptum sínum við náttúruna með þeim hætti er alveg einstakur og fylgir manni allt lífið.“
Leif lauk grunnnámi í Montana State háskólanum, nærri hinum heimsfræga Yelloswstone-þjóðgarði þar sem eru þekkt jarðhitasvæði, svipuð þeim sem við þekkjum hérlendis. „Ísland var því alveg gráupplagt fyrir framhaldsmenntun mína, bæði af fræðilegum og persónulegum ástæðum.“
„Það er augljóst að íslenskir jöklar eru á undanhaldi líkt og annars staðar á jörðinni. Hversu lengi jökulhettur Íslands munu haldast tengist því hversu hratt hitastig muni hækka sem aftur á móti tengist notkun á jarðefnaeldsneyti um heim allan. Þegar jöklarnir hverfa mun vatnsmagn í ám minnka umtalsvert, sérstaklega á þurrum svæðum. Á Íslandi mun vatnsorkuframleiðsla breytast með minnkun jöklanna. Til lengri tíma litið mun ferðamennska tengd jöklum líka þurfa að finna nýjan farveg,“ segir Leif Anderson, fyrrverandi nýdoktor við Háskóla Íslands.
Hefur áhyggjur af eina jökli Vestfjarða
Greinin í QSR segir frá rannsóknum sem Leif vann ásamt samstarfsfólki við Jarðvísindadeild og Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands á síðustu jökulhettu Vestfjarða, Drangajökli, sem jafnframt er nyrstur íslenskra jökla. Á Vestfjörðum er talið að áður hafi verið jökulhetta fyrir botni Dýrafjarðar sem hét Gláma, en hún er nú alveg horfin. Af Drangajökli eru dregin fjölmörg örnefni á Vestfjörðum, m.a. Jökulfirðir, Jökulholt, Jökulá og Jökuldalur. Drangajökull virtist um hríð verjast vel meðan aðrir jöklar hopuðu en nú er öldin önnur og ekki virðist bjart framundan. Öll framangreind örnefni munu hljóma sérkennilega þegar enginn verður jökullinn. „Ef ekki verður dregið úr losun kolefna mun Drangajökull ekki geta viðhaldið ísmyndun innan 30 ára. Þó að jökullinn verði enn til staðar eftir 30 ár verður hann í dauðateygjunum, og mun hverfa algjörlega á næstu 60 árum.“
Gríðarlega mikilvæg reynsla frá Íslandi
Leif starfar nú sem nýdoktor hjá Jarðvísindastofnunni í Potsdam í Þýskalandi en þar nýtir hann þá mikilvægu reynslu sem hann öðlaðist af því að starfa sem nýdoktor við Háskóla Íslands.
„Reynsla mín á Íslandi var einstök. Ég lærði meira á því að búa þar og starfa en af nokkru öðru sem ég hef tekið mér fyrir hendur á ævinni. Vísindalega þá efldist ég mikið með magnaðri reynslu af því að vinna á vettvangi. Ég lærði líka að meta sjálfstæði í vinnubrögðum og hugsun. Ég þróaði með mér sjálfstæði við Háskóla Íslands og þrautseigju við að vinna og búa í nýrri menningu. Ég er þakklátur frábærum vísindamönnum við Háskólann og þeim Íslendingum sem hjálpuðu mér,“ segir Leif.
Hann segir að ábyrgð okkar sem nú lifum sé mikil gagnvart öllum þeim sem á eftir koma. „Á okkar dögum, þegar loftslagið hlýnar svona hratt, er mikilvægt að setja minnkun jökla í samhengi við söguleg gögn. Með því að meta líftíma jökulhettana getum við fengið einstaka sýn á jökla. Með því að draga upp þessa mynd í rannsókninni getum við vonandi haft áhrif á viðhorf og hegðun fólks núna og þannig bjargað jöklunum fyrir komandi kynslóðir.“
Rannsókn byggð á áratugastarfi Háskólans og Veðurstofunnar
Báðar fyrrnefndar greinar byggja á öndvegisverkefninu ANATILS, alþjóðlegu samstarfsverkefni sem styrkt var af RANNÍS. Áslaug Geirsdóttir, prófessor við Háskóla Íslands, leiddi verkefnið ásamt Gifford H. Miller, prófessor við University of Colorado í Boulder í Bandaríkjunum. ANATILS-verkefnið snerist um að rannsaka hlutverk sjávar, hafíss og andrúmslofts þegar snöggar loftslagsbreytingar eiga sér stað. Unnið var út frá veðurvísum í stöðuvatna- og sjávarseti og þeir nýttir til grundvallar eðlisfræðilegra líkana til að meta m.a. líftíma jökla á Íslandi.
Aðrir vísindamenn í verkefninu komu frá Jarðvísindadeild/Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands, Veðurstofu Íslands auk jarðvísindamanna frá Þýskalandi, Kanada og Bandaríkjunum. Leif segist afar þakklátur jöklavísindamönnum Háskóla Íslands og Veðurstofu Íslands en áratugastarf þessa fólks hefði lagt grunninn að þessari rannsókn. Án rannsókna þessara vísindamanna hefði hans starf ekki verið mögulegt.
Fyrir áhugasama lesendur má vísa í eftirarandi greinar sem Leif leiddi