Áhrif mannanna hljóða á lundann
Þar sem lundinn er ljúfastur fugla, orti skáldið Ási í Bæ um þennan magnaða svartfugl sem hefur orðið að einkennisfugli Íslands í augum erlendra ferðamanna. Lundinn er enda í skrautlegra lagi, með gogg sem er einn sá litríkasti í veröldinni og stendur upp úr eins og prófastur í pontu. Lundinn er gríðarlega algengur við strendur Íslands og er ætlað að um sextíu prósent af heimsstofninum verpi hér. Til að átta sig betur á fjöldanum þá eru lundar hér við land um tíu milljónir talsins.
Nú stendur yfir mjög áhugaverð rannsókn á lundanum hjá Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Húsavík en Bandaríkjamaðurinn Adam Smith vinnur að verkefninu undir stjórn Marianne Rasmussen sem er forstöðumaður setursins.
„Rannsóknir mínar snúast um það hvernig dýr hagnýta sér hljóð. Þetta felur í sér að kanna hvað þau heyra, hvaða hljóð þau mynda, hvaða hljóð eru í náttúrulega umhverfi þeirra og líka hvernig manngerð hljóð hafa áhrif á líf þeirra og hegðun,“ segir Adam á meðan hann kemur fyrir upptökubúnaði á varpstöðvum lundans norður af Húsavík. Hann fikrar sig nær bjargbrúninni en lundinn verpir í holur við brúnina sem hann grefur. Þessi fallegi sjófugl getur orðið furðugæfur á varpstöðvum og því er hann líklega sá fugl sem oftast er festur á flöguna hjá ljósmyndurum.
Hvernig hafa hljóð áhrif á lundann?
„Hér er ég að rannsaka náttúrulegar hljóðmyndir á varpsvæði lundans. Hugtakið hljóðmynd,“ segir Adam, „vísar til allra þeirra ólíku fyrirbæra sem mynda hljóð og skapa það hljóðmynstur sem finna má á tilteknu svæði. Á landi geta hljóð t.d. stafað af vindi, regni, öldum og röddum fugla eða frá bílum sem ekið er eftir vegi. Í vatni koma hljóð m.a. frá vindi og öldum á yfirborðinu auk þess frá hvölum, fiskum og bátum sem eiga leið hjá.“
Adam segir að á undanförnum árum hafi vísindamenn verið að uppgötva að þessar hljóðmyndir geta gegnt mikilvægu hlutverki í hegðun og lífi dýra. „Þegar hljóðmyndir náttúrunnar breytast vegna mannsins getur það haft neikvæði áhrif. Við leitumst við að skilja náttúruleg hljóðmynstur í kringum varpsvæði lunda, hvaða þættir eru mikilvægastir í þeim og síðan að meta hvort manngerð hljóð breyta þessum mynstrum og hvaða áhrif það kann að hafa á lundann.“
Adam segir að rannsóknaraðferðin sé kölluð óvirk hljóðskönnun sem felist í því að setja upp hljóðupptökutæki á landi og í sjó á svæðinu umhverfis varpsvæði lundans. „Síðan eru þessi tæki skilin eftir og þau taka upp hljóðin í umhverfinu sumarlangt á meðan lundarnir eru á svæðinu. Upptökunum er svo safnað saman og þær greindar á rannsóknarstofu.“ Adam segir að þessi aðferð skili miklu því með henni sé unnt taka upp hljóð yfir mjög löng tímabil allan sólarhringinn, „og að auki gefur það okkur möguleika á að taka upp náttúruleg hljóð lundanna þegar engin mannvera er nálæg.“
Auk rannsókna á hljóðmyndum á varpsvæðum lundans rannsakar Adam fjölmargt annað varðandi lundann, t.a.m. heyrn fuglsins, lífeðlisfræði hlustunarfæra þeirra og hvernig þeir bregðast við manngerðum hljóðum í rannsóknarstofum.
Verkefnið er fjölþjóðlegt og er partur af breiðu rannsóknarsamstarfi milli vísindamanna við Háskóla Íslands, Woods Hole Oceanographic Institution í Bandaríkjunum og SDU í Danmörku.
„Þegar hljóðmyndir náttúrunnar breytast vegna mannsins getur það haft neikvæði áhrif. Við leitumst við að skilja náttúruleg hljóðmynstur í kringum varpsvæði lunda, hvaða þættir eru mikilvægastir í þeim og síðan að meta hvort manngerð hljóð breyta þessum mynstrum og hvaða áhrif það kann að hafa á lundann.“ MYND/Daníel Bergmann
Sjófuglar einstaklega áhugaverðir
Adam er afar heillaður af verkefninu og segir að sjófuglar séu sérstaklega áhugaverðir hvað hljóðheiminn varðar því þeir lifi á mörkum hafs og lands og hafi þróast til að hagnýta sér þessi gjörólíku umhverfi. „Þetta eðli er sérstaklega áberandi hjá sjófuglum sem kafa eins og lundinn gerir. Hann eltir bráð niður á allt að 100 metra dýpi. Við vitum mjög lítið um það hvernig flestir sjófuglar nota hljóð og hvort þeir heyri eða myndi hljóð neðansjávar. Hljóð hagar sér með gjörólíkum hætti á láði og í legi og því þarf ólíkan búnað til að nema og mynda hljóð í sjó og á landi. Þannig að sjófuglar eru áhugaverðir frá sjónarmiði grunnrannsókna því þeir hafa þróað með sér hljóðbúnað sem fyrst nýtist í lofti eins og hjá öðrum fuglum, en hefur aðlagast til að nýtast eða í það minnsta að þola, gjörólíkt umhverfi neðansjávar.“
Adam segir að við lok rannsóknarinnar geri hann ráð fyrir að vita hvernig hljóðmyndir við lundabyggðir breytist yfir sumarið, hvaða þættir stýri þessum breytingum og að hve miklu leyti þessi svæði veri fyrir áhrifum hljóðmengunar.
Hvernig tjá lundar sig með hljóðum?
Nú eru fuglar komnir á kreik og kvæðin syngja,
því ég vandist oft við unga,
er mér kunnug þeirra tunga.
Svona orti Eggert Ólafsson, sem þekkti augljóslega mál fuglanna, en óvíst er með öllu hvort hann hafi haft á þeim mikinn skilning. Það er einmitt markmið Adam Smith að skilja betur hvert inntak hljóðanna er hjá lundanum. „Við vonumst til að geta dregið ályktanir af samskiptakerfi lunda, t.d. hvaða hljóð lundar gefa frá sér og á hvaða tíma dags þeir eru virkastir í að mynda hljóð.“
Flestir dást að fegurð fugla og einn mesti myndlistamaður þjóðarinnar, Jóhannes Kjarval, er sagður hafa hvatt okkur mennina til að taka ofan fyrir fuglum og blómum. Sumum gæti samt þótt að fegurðin ein nægi ekki sem ástæða til rannsókna á þessum lífverum en frá hagnýtu sjónarhorni er vert að benda á að sjófuglar eru meðal þeirra fugla sem eru í hvað mestri útrýmingarhættu. „Um fjórðungur allra sjófugla eru á lista yfir tegundir í hættu. Þetta á sérstaklega við sjófugla í norðurhöfum þar sem heimskautasvæðin eru sérstaklega viðkvæm gagnvart loftslagsbreytingum,“ segir Adam.
Stofnar Atlantshafslundans á Íslandi og í Noregi hafa minnkað verulega síðan snemma á öldinni sem hefur leitt til þess að lundinn hefur nýlega verður settur á lista yfir dýr í útrýmingarhættu á Íslandi og í Evrópu.
Adam segir að samdráttur í stærð stofnsins eigi að líkindum ýmsar orsakir, þ.m.t. í mengun af manna völdum og minnkandi aðgengi að bráð vegna loftslagsbreytinga. „En að auki hefur sjónum verið í auknum mæli verið beint að aukinni hljóðmengun af völdum manna í umhverfinu sem getur haft neikvæð áhrif á dýr. Sjófuglar á borð við lundann sem kafa verða hugsanlega fyrir meiri áhrifum og kunna að vera viðkvæmari fyrir hljóðmengun en ýmis önnur dýr og því er það afar mikilvægt að komast að því hvort manngerð hljóð eru að valda skaða.“
Niðurstöðurnar mikilvægar og nýtast vel
Adam segir að niðurstöður rannsókna sinna muni verða mikilvægar til að reglur um náttúruferðamennsku og vernd lundastofnsins á Íslandi verði byggðar á traustum grunni. „Jafnframt þessu er hægt að vinna að öruggri áætlun út frá niðurstöðunum til að vernda og endurreisa lundastofna á Íslandi og um heim allan. Þó lundar séu viðfangsefni mitt má gera ráð fyrir að niðurstöðurnar gagnist varðandi áhrif hljóðmengunar á aðra sjófugla.“