Tæknifræðinemar tóku þátt í orkuáskorun í Færeyjum
Fjórir nemendur í tæknifræði við Háskóla Íslands eru nýkomnir heim frá Færeyjum þar sem þeir tóku þátt í alþjóðlegu verkefni á sviði nýorku og orkuframleiðslu í samstarfi við fyrirtæki og stofnanir í eyjunum.
Verkefnið nefndist International Community Energy Challenge og var á vegum Hydrogen Learning Network sem vísindamenn við Háskóla Íslands koma að. Markmið verkefnisins var að leiða saman háskólastúdenta úr ýmsum greinum til að leysa raunveruleg vandamál fyrirtækja eða stofnana.
Alls tóku fimm háskólar frá Noregi, Kanada, Skotlandi, Færeyjum og Íslandi þátt í verkefninu og sendi hver þeirra 4-5 nemendur til þátttöku. Nemendunum var skipt í fimm lið sem hvert og eitt fékkst við eitt verkefni tengt orkumálum hjá tilteknu fyrirtæki eða stofnun í Færeyjum undir leiðsögn sérfræðinga frá háskólunum fimm.
Hvert lið hafði um viku til þess að leysa verkefni sitt en þau sneru m.a. að því að gera tillögu að smáorkukerfi með blöndu af sólar- og vindorku fyrir laxeldisfyrirtækið Bakkafrost, stærsta fyrirtæki Færeyja, rannsaka hvaða áhrif ný blendingsferja, sem gengur fyrir dísel og rafmagni, myndi hafa á rekstur flutningafyrirtækisins Strandaraskip Landsins og kanna leiðir til að styðja við áform Þórshafnar um að vera kolefnishlutlaus árið 2030. Hóparnir kynntu svo niðurstöður verkefna sinna fyrir fulltrúum þeirra fyrirtækja og stofnana sem tóku þátt í verkefninu.
Nemendurnir kynntust ekki aðeins hver öðrum og lærðu að vinna þvert á fræðigreinar í verkefninu heldur kynntust þeir einnig færeyskri menningu á meðan á dvölinni stóð eins og lesa má í frásögnum íslensku nemendanna á vefsíðu Tæknifræðiseturs Háskóla Íslands og Facebook-síðu verkefnisins.
Tæknifræði er þriggja og hálfs árs BS-nám við Rafmagns- og tölvuverkfræðideild Háskóla Íslands. Kennsla fer fram við Tæknifræðisetur Háskóla Íslands sem hefur verið starfrækt í Menntasetrinu við Lækinn í Hafnarfirði síðan í fyrrahaust en námið hefur verið í boði í Háskóla Íslands frá árinu 2009. Markmið Tæknifræðisetursins er að leiða þróun fagháskólastigs á Íslandi í tæknigreinum.