Tindur á Suðurskautslandinu nefndur eftir vísindamanni HÍ
Tindur á Suðurskautslandinu var á dögunum nefndur í höfuðið á Guðfinnu Th. Aðalgeirsdóttur, prófessor í jöklafræði við Háskóla Íslands. Guðfinna stundar rannsóknir á jöklum víða um heim sem flestir hopa hratt vegna loftslagsbreytinga af mannavöldum. Hún hefur því verið víðförul í verkefnum sínum og m.a. stundað rannsóknir á Suðurskautslandinu. Erlendir samstarfsmenn hennar hafa gjarnan átt í basli með nafn Guðfinnu og því er hún gjarnan kölluð Tolly af þeim. Tindurinn heitir því Tolly Nunatak og eru ástæður þess nokkuð skondnar.
Haustið 2004 var Guðfinna á Falklandseyjum að bíða þess að veðrið yrði nægjanlega gott til að unnt yrði að fljúga yfir á Suðurskautslandið til að stunda þar rannsóknir og mælingar. Í undirbúningi fyrir ferðina varð hún fyrir því mikla óláni að slíta hásin og komst því ekki með í rannsóknarferðina. Félögum Guðfinnu eða Tollýjar þótti leitt að hún hefði ekki komist með og tóku því upp á því að nefna einn tindinn sem mældur var með GPS-tæki og merktur inn á kort , „Tolly‘s heel,“ eða Hæll Tollýjar.
Þótt Guðfinna hafi ekki komist á Suðurskautslandið árið 2004 komst hún þangað sjö árum síðar og þar var þessi mynd tekin af henni. Guðfinna hefur lagt áherslu á jöklarannsóknir og ferðast víða um heim til þess að sinna þeim.
„Ég komst því aldrei sjálf á Tolly Nunatak en félagar mínir nefndu einn viðmiðunarpunktinn fyrir mælingarnar „Tolly's Heel“ til að minnast hásinarinnar. Þeir vildu þannig hafa mig með í anda þótt ég hefði sjálf verið send heim frá Falklandseyjum í sjúkraflugi með ökklann í gifsi. Það var hrikalega erfitt að horfa á eftir vinnufélögum mínum fara á Suðurskautslandið og komast ekki sjálf,“ segir Guðfinna.
Hún komst þó síðar á Suðurskautslandið, veturinn 2011 til 2012 og aftur 2012 til 2013. Þá snerist verkefnið hennar m.a. um að skilja flæði íss, hvernig og hversu hratt hann hnígur undan eigin þunga og aflagast.
„Ég er mjög glöð og allt að því hrærð yfir þessu uppátæki félaga minna,“ segir Guðfinna. „Vísindamaðurinn Andy Smith, sem stjórnaði verkefninu um árið á Suðurskautslandinu, skrifaði bréf til nafnanefndar Suðurskautslandsins í Bretlandi og fékk nafnið staðfest hjá henni. Mér þykir mjög vænt um þetta uppátæki,“ segir Guðfinna og bætir því við að það sé ekki laust við að það kitli hégómagirndina að heilt fjall heiti eftir sér þótt nafnið hafi aðeins aflagast og sé ekki lengur eftir hælnum á henni.
Þess má geta að tindurinn Tolly Nunatak er á milli hærri fjalla í Flowers Hills í Ellsworth-fjöllum á Suðurskautslandinu. Mynd af fjallinu má sjá hér að neðan.