25. háskólaþing Háskóla Íslands
haldið með rafrænum hætti 5. júní 2020
Háskólaþing Háskóla Íslands var haldið 5. júní 2020. Sökum COVID-19 veirufaraldurs var þingið haldið með rafrænum hætti skv. ákvörðun háskólaráðs, sbr. 3. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009. Aðeins eitt mál var á dagskrá og var það kjör þriggja fulltrúa þriggja varafulltrúa háskólasamfélagsins í háskólaráð Háskóla Íslands fyrir tímabilið frá 1. júlí 2020 til 30. júní 2022.
Fyrir þingið hafði verið kallað eftir framboðum og tilnefningum og bárust alls sex framboð. Allir frambjóðendur uppfylltu skilyrði 3. gr. reglna fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009 um að vera akademískir starfsmenn Háskóla Íslands í fullu (a.m.k. 75%) starfi, en þó hvorki forseti fræðasviðs, deildarforseti né varadeildarforseti. Gögn um starfsvettvang frambjóðenda og stutt lýsing á starfsferli þeirra voru send út með fundarboði.
Í framboði voru:
• Freydís Jóna Freysteinsdóttir, dósent við Félagsráðgjafardeild á Félagsvísindasviði,
• Ingibjörg Gunnarsdóttir, prófessor við Matvæla- og næringarfræðideild á Heilbrigðisvísindasviði,
• Jón Ólafsson, prófessor við Íslensku- og menningardeild á Hugvísindasviði,
• Ólafur Pétur Pálsson, prófessor við Iðnaðarverkfræði-, vélaverkfræði- og tölvunarfræðideild á Verkfræði- og náttúruvísindasviði,
• Ragna Kemp Haraldsdóttir, lektor við Félagsfræði-, mannfræði- og þjóðfræðideild á Félagsvísindasviði,
• Þórir Jónsson Hraundal, lektor við Mála- og menningardeild á Hugvísindasviði.
Atkvæðisbærir voru:
• Rektor (1)
• Forsetar fræðasviða (5)
• Deildarforsetar (26)
• Fulltrúar kjörnir af fræðasviðum (samtals 13)
• Fulltrúi Félags háskólakennara (1)
• Fulltrúi Félags prófessora (1)
• Fulltrúar kjörnir af starfsmönnum við stjórnsýslu (2)
• Fulltrúar tilnefndir af stofnunum, einn fyrir hverja stofnun:
- Endurmenntun Háskóla Íslands (1)
- Landsbókasafn Íslands - háskólabókasafn (1)
- Landspítali (1)
- Raunvísindastofnun Háskólans (1)
- Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum (1)
- Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum (1)
- Þjóðminjasafn Íslands (1)
Stúdentar hafa ekki atkvæðisrétt í þessari kosningu þar sem þeir kjósa sína tvo fulltrúa í háskólaráði í sérstakri kosningu. Með atkvæðisrétt fóru því samtals 56 þingfulltrúar.
Kosningin fór fram með rafrænum hætti og hafði upplýsingatæknisvið tæknilega umsjón með henni. Kjörfundur stóð yfir kl. 9.00-17.00.
Rektor skipaði þau Magnús Diðrik Baldursson, skrifstofustjóra rektorsskrifstofu og ritara háskólaþings, og Erlu Guðrúnu Ingimundardóttur, lögfræðing á skrifstofu rektors, til að hafa umsjón með framkvæmd kosningarinnar.
Atkvæðisbærum fulltrúum var send vefslóð á kjörseðilinn með tölvupósti um leið og kjörfundur hófst. Hver atkvæðisbær fulltrúi gat merkt við þrjá af þeim sex einstaklingum sem voru í framboði. Ekki var hægt að skila atkvæðum nema merkt væri við nákvæmlega þrjá frambjóðendur. Ekki var hægt að skila inn atkvæðum ef merkt var einungis við einn eða tvo. Unnt var að skila auðu með því að merkja ekki við neinn frambjóðanda.
Atkvæði greiddi 51 fulltrúi (90,1% kjörsókn). Auðir kjörseðlar voru 1.
Flest atkvæði hlaut Ólafur Pétur Pálsson og verður hann því aðalmaður í háskólaráði.
Næstflest atkvæði hlaut Ingibjörg Gunnarsdóttir og verður hún því aðalmaður í háskólaráði.
Þriðji í atkvæðagreiðslunni varð Jón Ólafsson og verður hann því aðalmaður í háskólaráði.
Fjórði í atkvæðagreiðslunni varð Freydís J. Freysteinsdóttir og verður hún því varamaður fyrir þann sem flest atkvæði hlaut.
Fimmti í atkvæðagreiðslunni varð Ragna Kemp Haraldsdóttir og verður hún því varamaður fyrir þann sem næstflest atkvæði hlaut.
Sjötti í atkvæðagreiðslunni varð Þórir Jónsson Hraundal og verður hann því varamaður fyrir þann sem þriðju flest atkvæði hlaut.
Er þá lokið kjöri fulltrúa og varafulltrúa háskólasamfélagsins í háskólaráð Háskóla Íslands fyrir tímabilið 1. júlí 2020 til 30. júní 2022.
Fleira var ekki gert og var háskólaþingi slitið kl. 17.00.
Útsend gögn fyrir 25. háskólaþing 5. júní 2020:
1. Dagskrá og tímaáætlun þingsins.
2. Fundargerð 24. háskólaþings 31. október 2019.
3. Listi yfir fulltrúa á háskólaþingi.
4. Kynning á framboðum til setu í háskólaráði tímabilið 1.7.2020-30.6.2022.