Yfirlitsgrein um CarbFix í Nature-tímariti
Hið virta vísindatímarit Nature Reviews Earth & Environment birti í gær grein eftir þau Söndru Ósk Snæbjörnsdóttur, Berg Sigfússon, Chiara Marieni, David Goldberg, Sigurð R. Gíslason og Eric H. Oelkers um CarbFix-verkefnið svokallaða sem vísindamenn Háskóla Íslands og Orkuveitu Reykjavíkur hafa unnið að í yfir áratug ásamt erlendu samstarfsfólki.
Greinin ber heitið „Carbon dioxide storage through mineral carbonation“ og er að sögn Söndru yfirlitsgrein yfir möguleika á að binda koltvíoxíð í bergi en unnið hefur verið að tilraunum við það á Hellisheiði sem hafa gefið afar góða raun. „Um leið förum við yfir þau tækifæri og hindranir sem eru til staðar í að nýta þessar aðferðir í baráttunni gegn loftslagsbreytingum,“ segir Sandra.
Nature Reviews Earth & Environment er undirtímarit Nature, eins af virtustu vísindatímaritum heims, og því er birting greinarinnar mikill heiður fyrir hópinn að sögn Söndru. „Birtingin hefur m.a. mikla þýðingu fyrir útbreiðslu þeirrar þekkingar og sýnileika þeirrar aðferðar sem við lýsum þar.“
Sigurður R. Gíslason er vísindamaður hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands og hefur í yfir áratug verið formaður Vísindaráðs CarbFix-verkefnisins. Hann var m.a. nýlega sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag sitt til íslenskra jarðvísinda og kolefnisbindingar.
Sandra og Bergur eru bæði fyrrverandi doktorsnemar Sigurðar við Háskóla Íslands og starfa nú hjá nýstofnuðu dótturfyrirtæki Orkuveitunnar, CarbFix, sem gagngert var sett á laggirnar til að auka útbreiðslu aðferðarinnar við að binda koltvíoxið um heim allan. Eric H. Oelkers er auk þess gestaprófessor við Jarðvísindadeild, en hann leiðir auk Sigurðar vísindanefnd CarbFix-verkefnisins.
Greinina í Nature Reviews Earth & Environment má lesa á vef Nature.