Skip to main content
25. febrúar 2019

Vistsporið minnkað með léttari laxakössum 

laxakassar

Það skiptir verulegu máli fyrir afkomu matvælaframleiðenda að geymsla hráefnis og afurða sé ávallt eins og best verður á kosið. Þess vegna hafa geymsluaðferðir þróast hratt undanfarin ár, ekki síst með rannsóknum vísindamanna hjá Háskóla Íslands og Matís og með samstarfi þeirra við íslenskt atvinnulíf. Þessar rannsóknir hafa í mörgum tilvikum aukið verðmæti afurða í íslenskri fiskvinnslu og skapað iðnaðinum forskot í harðri samkeppni. 

Gæði og geymsla vörunnar eiga þó ekki að vera á kostnað umhverfisins. Þess vegna hefur Björn Margeirsson, vélaverkfræðingur og lektor við Háskóla Íslands, lagt æ meira þunga á  umhverfismál í þróun á umbúðum fyrir ferskan fisk. Krafan um minni umhverfisáhrif verður enda stöðugt mikilvægari og er markmiðið alltaf að draga úr vistspori okkar sem þjóðar og viðhalda eða auka gæði á sama tíma. 

„Rannsókna- og þróunarverkefnið sem við köllum „Léttari laxakassar“ snýst um hagnýtingu tilrauna og tölvuvæddrar varmaflutnings- og burðarþolsgreiningar til að þróa léttari frauðplastumbúðir. Til að gera þetta kleift eru til athugunar breytt lögun og veggþykktir frauðkassanna og einnig eðlisþyngd frauðplastsins,“ segir Björn. 

Það er einkar spennandi við þetta verkefni að í því leggja saman krafta sína aðilar úr atvinnulífinu og Háskólinn með sinn ríka metnað í grunnrannsóknum. Björn starfar nefnilega einnig sem rannsóknastjóri hjá fyrirtækjunum Sæplasti og Tempru sem bæði eru í umbúðaframleiðslu og leggja mikinn þunga á rannsóknir við vöruþróun.

Björn segir sjálfsagt að ábyrgir umbúðaframleiðendur uppfylli kröfuna um afar umhverfisvænar umbúðir enda verði hann sífellt meira var við þessa kröfu í sínu starfi, bæði sem lektor og sem rannsóknastjóri í atvinnulífinu. „Því varð úr samstarf um slíkt verkefni,“ segir Björn, „milli Háskóla Íslands og Tempru auk þess sem Arnarlax kemur að verkefninu en fiskeldisfyrirtækið er einn af lykilviðskiptavinum Tempru.“ 

„Í tilfelli framleiðslufyrirtækja er afar mikilvægt að leita sífellt nýrra lausna til að bæta vöruúrval og auka hagkvæmni. Ekki er nú verra að geta markaðssett þekkingu með framleiðsluvörum sínum. Þannig eru og verða rannsóknir mikilvægur grunnur fyrir vöruþróun, ekki síst hjá plastframleiðslufyrirtækjum,“ segir Björn. MYND/Kristinn Ingvarsson

Mikilvægt efnahagslega fyrir Ísland
Björn valdi þetta viðfangsefni eftir að hafa öðlast reynslu af varmaflutningslíkanagerð í doktorsnámi sínu við Háskóla Íslands. Niðurstaðan úr því verkefni var nýtt til endurbóta á minni tegundum kassa frá Tempru. „Varmaeinangrun og styrkur eru einna mikilvægustu hönnunarforsendur ferskfiskumbúða. Því er sérstök áhersla lögð á rannsóknir á einangrun og styrk frauðkassanna, bæði með tilraunum og tölvuvæddri líkanagerð,“ segir hann og bætir því við að þessar rannsóknir séu í senn áhugaverðar efnahagslega fyrir þjóðarbúið og mikilvægar vegna umhverfisverndarsjónarmiða fyrir allan heiminn.

Niðurstöður að minnsta kosti tveggja meistaraverkefna í vélaverkfræði við Háskóla Íslands verða nýttar í þessu verkefni til að hanna nýja og léttari frauðkassa Tempru. „Sigurður Jakob Helgason sýndi í meistaranámi sínu fram á að með breytingum á eðlisþyngd mætti létta kassana um allt að tíu prósent án þess að það kæmi marktækt niður á styrk þeirra.“ Þá segir Björn að niðurstöður meistaraverkefnis Helgu Lilju Jónsdóttur gefi skýrt til kynna að minnkun eðlisþyngdar úr 23 kg/m3 í 21 kg/m3 hafi mjög takmörkuð áhrif á einangrun frauðplastkassanna og þar með á geymsluþol fersks lax sem í þeim geymist. 

„Tempra framleiðir nokkrar milljónir frauðplastkassa til útflutnings á ferskum fiskafurðum á ári hverju. Því er ljóst að ef vel tekst til með þetta verkefni mun hinn ört vaxandi umhverfiskostnaður lækka samfara vaxandi útflutningi á ferskum eldisfiski frá Íslandi,“ segir Björn. Þá telur hann líklegt að afleiddar afurðir verkefnisins verði léttari flakakassar fyrir sjávarfisk með tilheyrandi minnkun á vistspori íslenskra hvítfiskflaka. Vistsporið segir til um losun koltvísýrings ár hvert í hverju þjóðlandi fyrir sig. 

Rannsóknir bæta vöruúrval og auka hagkvæmni
Björn Margeirsson segir að niðurstöður þessa verkefnis megi líklega yfirfæra á minni kassategundir Tempru og þessi þróun geti í sjálfu sér breytt töluverðu fyrir íslenska fiskvinnslu. 

„Í tilfelli framleiðslufyrirtækja er afar mikilvægt að leita sífellt nýrra lausna til að bæta vöruúrval og auka hagkvæmni. Ekki er nú verra að geta markaðssett þekkingu með framleiðsluvörum sínum. Þannig eru og verða rannsóknir mikilvægur grunnur fyrir vöruþróun, ekki síst hjá plastframleiðslufyrirtækjum,“ segir Björn og bætir við að almennt gildi að rannsóknir geti nýst til að svara því sem svara þurfi.

Björn Margeirsson