Vill auka öryggi vegna meiri hættu á gróðureldum
Sú mikilvæga þekking sem skapast innan Háskóla Íslands er öðrum þræði stuðningur við samfélagið allt til að takast á við margvíslegar áskoranir. Undir áskoranir falla m.a. umhverfis- og loftslagsbreytingar og náttúruvá auk margvíslegrar ógnar við heilsu og velferð fólks eins og segir í stefnu skólans, HÍ26. Framangreindar áskoranir eiga sér samsvörun í heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna en háskólar eru þekkingarveitur sem gegna lykilhlutverki í leitinni að svörum við öllum þeim áskorunum sem þar eru skilgreindar.
Það hefur varla farið fram hjá nokkrum sem les fréttir að gróðureldar hafa á síðustu árum ógnað lífi og heilsu fólks sem aldrei fyrr auk þess að valda tjóni á umhverfi, lífríki og mannvirkjum. Jafnvel hérlendis er þetta orðin ný áskorun sem fáa óraði fyrir að yrði partur af því sem Íslendingar þyrftu að glíma við.
Fjölmargar stofnanir samfélagsins beina nú í æ ríkari mæli augum að hættunni af gróðureldum. Á vefsvæði Almannavarna er t.d. vikið að þessari brýnu vá. „Með hlýnandi veðurfari, breytingum í landbúnaði og aukinni skógrækt eykst hættan á gróðureldum og er mikilvægt að stjórnvöld á sviði bruna- og skipulagsmála skoði þessa auknu áhættu vegna gróðurelda í ríkara mæli og hugi að stígagerð, skurðum, eldvarnahólfum, aðgengi að vatni og skipulagi skóga,“ segir á vef Almannavarna.
Á vef Náttúrufræðistofnunar má sjá yfirlit yfir gróðurelda, sem þó er ekki tæmandi, aftur til ársins 2006. Er þar birt flatarmál brunnins lands í hekturum auk þess hvers eðlis gróðurlendið var sem varð eldi að bráð. Á síðasta ári urðu t.d. fjórir alvarlegir gróðureldar þar sem skóglendi varð eldi að bráð ásamt mosabreiðum, lyngi, graslendi og lúpínubreiðum. Heildarflatlendi sem varð eldi að bráð er um 100 hektarar. Stærstur var bruninn í Heiðmörk þar sem gamall birkiskógur skemmdist eða eyddist en hartnær 60 hektarar lands brunnu á þessu vinsæla útivistarsvæði höfuðborgarsvæðisins.
Gróðureldar algengari með loftslagbreytingum
„Með breytingum á loftslagi má reikna með að eldar verði algengari og geisi yfir lengri hluta ársins. Gróðureldar geisa nú norðar á jörðinni en áður eins og nýlegir eldar í Síberíu, Grænlandi og Alaska eru dæmi um,“ segir Þröstur Þorsteinsson, prófessor í umhverfis- og auðlindafræði við HÍ.
Hann vinnur nú að rannsókn sem snýst um að finna leiðir til að meta hættuna á að gróðureldar kvikni á ýmsum svæðum hérlendis auk þess að kortleggja tjónnæmi og eldsmat og gera líkanreikninga til að meta mögulega útbreiðslu og ákafa gróðurelda á mismunandi svæðum.
Úrvinnsla á gögnum um gróðurelda á Íslandi, sem er partur af rannsókn Þrastar, sýnir að það er fremur nýleg þróun að stærri gróðureldar kvikni hérlendis að sumri. „Einnig hefur verið unnin viðbragðsáætlun fyrir Skorradal sem byggðist m.a. á vinnu í tengslum við þetta verkefni,“ segir Þröstur. Skorradalurinn hefur einmitt verið ítrekað í fréttum undanfarin ár en þar hefur oft verið lýst yfir hættustigi Almannavarna vegna hugsanlegra gróðurelda. Dalurinn er enda vaxinn skógi frá vatnsborði að efstu eggjum fjalla og einungis einn akvegur er inn dalinn sem er afar vinsælt sumarbústaðaland.
Þröstur hefur beint sjónum sínum æ meir að loftgæðum í rannsóknum sínum enda skipta þau lífríkið allt gríðarlegu máli. „Undir þetta fellur lýðheilsa sem getur ráðist af gróðureldum, sandstormum, orkuframleiðslu sem losar gróðurhúsalofttegundir og eitruð gös á borð við brennisteinsvetni og mengun vegna umferðar,“ segir Þröstur.
„Á Íslandi höfum við séð aukningu gróðurs, sér í lagi trjágróðurs samfara minni beit og mikilli fjölgun sumarbústaða,“ segir Þröstur og bætir því við að fleira og fleira fólk sé líka að nýta sér náttúru Íslands til útivistar, en allt þetta auki hættuna á gróðureldum.
Að grisja er nokkuð framandi fyrir marga
Þröstur segir að með því að bæta spár um líkur á að eldar kvikni, og hver hættan sé af gróðureldum á mismunandi svæðum, sé frekar kleift að sporna við þeim og lágmarka tjón sem verður ef eldar kvikna.
„Þessi rannsókn hefur dregið athygli að þeirri ógn sem gróðureldar geta verið. Í sumarhúsahverfum og skógrækt er nú hugað betur að þessum málaflokki. Töluvert mikið vantar þó enn upp á, en gott er að þessi vá sé komin upp á yfirborðið,“ segir Þröstur. „Við þurfum að breyta aðeins hugsunarhætti okkar varðandi gróður. Lengi hefur verið gróðursett nærri húsum og ekki hugað að brunavörnum í tengslum við gróðurelda. Það að grisja gróður og skóga er enn nokkuð framandi fyrir marga.“
Þröstur segir að horfa þurfi til nýsköpunar í að finna góðar leiðir til brunavarna og sér í lagi forvarna. „Hérlendis eigum við yfirleitt nóg af vatni þannig að leiðir til að halda ákveðnum beltum rökum, jafnvel í þurrkum, gæti verið leið til að koma í veg fyrir að eldar breiðist yfir mjög stór svæði.“
Öflug tengsl við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna
Kveikjan að rannsókn Þrastar liggur í miklum gróðureldum sem urðu á Mýrunum árið 2006 en í þeim eldum fóru yfir 73 ferkílómetrar lands. Þar og þá kom býsna skýrt fram hversu mikil hætta getur stafað af gróðureldum hérlendis.
„Á Íslandi höfum við séð aukningu gróðurs, sér í lagi trjágróðurs, samfara minni beit og mikilli fjölgun sumarbústaða,“ segir Þröstur og bætir því við að fleira og fleira fólk sé líka að nýta sér náttúru Íslands til útivistar, en allt þetta auki hættuna á gróðureldum.
Í nýrri stefnu Háskóla Íslands er sérstök áhersla á áðurnefnd heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbærni en þau taka til helstu áskorana sem við stöndum frammi fyrir og munu skipta sköpum fyrir lífsskilyrði allra á jörðinni í framtíðinni. „Gróðureldar tengjast beint og óbeint mörgum heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna,“ segir Þröstur.
Hann nefnir að markmið 15, sem hefur líf á landi í háskerpu, fjalli meðal annars um verndun vistkerfa og skóga. Markmið 13, sem tegist aðgerðum í loftslagsmálum, sé samtvinnað gróðureldum þar sem þeir tengist mjög kolefnishringrásinni.
„Þá má nefna að markmið 11, sem snýst um sjálfbærar borgir og samfélög, fjallar meðal annars um loftgæði, en reykur vegna gróðurelda getur skert loftgæði verulega.“
Afar hagnýtt verkefni
Þetta verkefni sem er hér til umfjöllunar er afar hagnýtt enda beinir Þröstur sjónum að loftslagsmálum og hættu á manntjóni og hyggur að lausnum sem geta bætt heilsu fólks og aukið öryggi manna, alls lífríkis á tilteknum svæðum auk mannvirkja.
„Mikilvægi rannsókna verður seint metið til fulls,“ segir Þröstur. „Í tengslum við það sem er á undan sagt má nefna að rannsóknir eru mikilvægar til að sýna fram á orsakasamhengi mengunar og heilsu. Það leiðir vonandi til nýrrar löggjafar sem verndar almenning fyrir skaðlegum áhrifum mengunar. Með auknum skilningi á eðli, upptökum og þróun þess sem verið er að rannsaka aukast líkurnar á að hægt sé að finna leiðir til að forðast skaðleg áhrif og nýta niðurstöður til forvarna.“