Viðurkenning fyrir að þróa sjálfbæra ammoníaksframleiðslu
Viðurkenningu Nýsköpunarsjóðs dr. Þorsteins Inga Sigfússonar við Háskóla Íslands árið 2023 hlýtur fyrirtækið Atmonia ehf. Helga Dögg Flosadóttir, rannsóknarstjóri Atmonia, tók við viðurkenningunni úr hendi dr. Jóns Atla Benediktssonar, rektors Háskóla Íslands, við hátíðlega athöfn 5. júní síðastliðinn.
Þetta er í þriðja sinn sem viðurkenning er veitt úr sjóðnum en tilgangur hans er að stuðla að auknum áhuga á nýsköpun og styrkja efnilega frumkvöðla, nemendur eða vísindamenn, sem með einhverjum hætti sinna verkefnum eða rannsóknum er lúta að nýsköpun.
Atmonia er íslenskt sprotafyrirtæki sem þróar sjálfbært ferli fyrir ammoníaksframleiðslu. Markmið Atmonia er að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda með nýjum sjálfbærum tæknilausnum á sviði ammoníaks- og nítratframleiðslu. Fyrirtækið er með tvær nýstárlegar vörur í þróun sem hvor um sig verður hagkvæm og umhverfisvæn og munu þær báðar leggja mikið af mörkum í baráttunni gegn hlýnun jarðar. Önnur varan mun framleiða ammoníak úr lofti og vatni án þess að losa gróðurhúsalofttegundir en 2% af koltvísýringslosun af mannavöldum í heiminum má rekja til núverandi framleiðsluaðferðar ammoníaks. Þar sem vinsældir ammóníaks sem eldsneytis á skip og aðrar stórar vélar eru að aukast, þykir hin nýja aðferð Atmonia við framleiðslu á sjálfbæru ammóníaki mjög heppileg. Hin vara fyrirtækisins mun framleiða sjálfbært nítrat úr ammoníaki en núverandi nítratframleiðsla er sérstaklega mengandi ferli. Nítratið mun nýtast sem áburður og eykur sjálfbærni og fæðuöryggi á þeim svæðum þar sem varan er tekin í notkun.
Atmonia var stofnað árið 2016 af þeim Agli Skúlasyni, prófessor í efnaverkfræði við Háskóla Íslands, Arnari Sveinbjörnssyni, verkfræðingi og tæknistjóra Atmonia, og Helgu Dögg Flosadóttur, doktor í efnafræði og rannsóknarstjóra Atmonia. Verkefnið fór fyrst á flug með þátttöku og sigri í frumkvöðlakeppninni Gullegginu 2017. Síðan þá hefur verkefnið og fyrirtækið bæði fengið styrki og viðurkenningar fyrir frumkvöðlastarf og tækninýjungar hér á landi og erlendis. Fyrirtækið hefur stækkað hratt síðastliðið ár og starfsmannafjöldinn tvöfaldast. Þeir eru nú 18 og gengur tækni- og rannsóknavinna fyrirtækisins mjög vel.
Sérstakar þakkir fyrir stuðning við rannsóknir Atmonia fá Tæknisetur Íslands, Háskóli Íslands, Landbúnaðarháskólinn og Rannís.
Um sjóðinn
Nýsköpunarsjóður dr. Þorsteins Inga Sigfússonar var stofnaður 4. júní 2020 til minningar um dr. Þorstein Inga Sigfússon (f. 4. júní 1954, d. 15. júlí 2019). Stofnandi sjóðsins er Bergþóra K. Ketilsdóttir, ekkja Þorsteins Inga.
Þorsteinn Ingi lauk doktorsnámi í eðlisfræði frá Cambridge-háskóla í Englandi árið 1983. Hann hóf störf sem fræðimaður við Raunvísindastofnun Háskóla Íslands árið 1982 og síðar sem prófessor í eðlisfræði við háskólann. Þorsteinn Ingi vann ötullega að tengingu háskóla og atvinnulífs og kom að stofnun og stjórnarmennsku sprotafyrirtækja á mörgum sviðum. Hann var frumkvöðull á sviði orkurannsókna á Íslandi og beitti sér ötullega í baráttunni við að draga úr losun koltvíoxíðs í andrúmslofti. Þorsteinn Ingi varð forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands við stofnun hennar 2007. Hann var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir vísindastörf og framlag til hátækniatvinnugreina og hlaut rússnesku Alheimsorkuverðlaunin árið 2007 fyrir framlag sitt til vetnismála.
Stjórn sjóðsins skipa Hermann Kristjánsson, verkfræðingur og frumkvöðull sem er formaður stjórnar, dr. Þór Sigfússon hagfræðingur og dr. Guðrún Pétursdóttir, prófessor emerita við Háskóla Íslands. Áætlað er að úthluta árlega úr sjóðnum á afmælisdegi Þorsteins Inga.
Hægt er að styrkja sjóðinn með peningagjöfum. Fjárhæðir má leggja inn á eftirfarandi bankareikning hjá Íslandsbanka: 596-26-1760. Kennitala Styrktarsjóða Háskóla Íslands er 571292-3199. Mikilvægt er að merkja greiðsluna nafni sjóðsins. Netfang Styrktarsjóða Háskóla Íslands er sjodir@hi.is.
Styrktarsjóðir Háskóla Íslands hafa umsjón með sjóðum og gjöfum sem Háskóla Íslands hafa verið ánafnaðar allt frá stofnun hans. Flestir þeirra starfa samkvæmt staðfestri skipulagsskrá og er þeim ætlað að styðja ýmis verkefni á ákveðnum fræðasviðum til hagsældar fyrir Háskóla Íslands, stúdenta eða starfsfólk.
Myndir Kristins Ingvarssonar frá athöfninni má sjá hér að neðan